Fréttir
  • Halla Ólafsdóttir ræðir við Jónas Guðmundsson

Smiðshöggið rekið á göngin

Bolungarvíkurgöng voru tekin í notkun 25. september 2010. Ekki var hægt að hlusta á útvarp í göngunum en nú hefur Samgöngufélagið bætt úr því og vegfarendur geta í fyrsta sinn hlustað á útvarpið í bílum sínum þegar ekið er til Bolungarvíkur. 

Samgöngufélagið hefur vakið athygli á því að í þeim veggöngum sem nú eru í notkun á Íslandi er hvergi hægt að ná útsendingum útvarps nema í Hvalfjarðargöngum og hinum nýju Norðfjarðargöngum. Þá er gert ráð fyrir að ná megi útsendingum útvarps í væntanlegum Vaðlaheiðargöngum. Einnig þykir líklegt að sú verði raunin með Dýrafjarðargöng sem taka á í notkun 2020.

Búnaður fyrir Bolungarvíkurgöng býður upp á útsendingu á þremur rásum auk þess sem hann er búinn svokölluðu yfirkalli, þ.e. neyðaraðilar geta rofið útsendingu og komið á framfæri tilkynningum um útvarpið eingöngu til þeirra sem eru á ferð í göngunum hverju sinni.

Samgöngufélagið er áhugamannafélag sem hefur þann tilgang að beita sér fyrir framþróun í samgöngum á og við Ísland. Núverandi formaður félagsins er Jónas Guðmundsson á Ísafirði. Einar Geir er nemandi í Grunnskóla Ísafjarðar.