Fréttir
  • Slökkvilið Bolungarvíkur og Bolungarvík

Verum eldklár í Bolungarvík!

Félag Slökkviliðsmanna í Bolungarvík og Bolungarvíkurkaupstaður, efna til brunavarnarátaks í Bolungarvík nú þegar skammdegið er að skella á og ljósa-, rafmagns- og kertanotkun er hvað mest.

Við skorum á alla íbúa Bolungarvíkur að tryggja öryggi heimila sinna og vinnustaða, svo sem kostur er, til að við öll getum notið friðar og helgi jólanna í samvistum hvort við annað, hér í okkar yndislega samfélagi.

Reykskynjarar

  • Prófa þarf reykskynjarana reglulega.
  • Skipta þarf um rafhlöður í reykskynjurum einu sinni á ári og er góður siður að gera það fyrir upphaf jólaaðventu.
  • Reykskynjurum þarf að skipta út ef minnsti vafi leikur á að þeir séu í lagi og reykskynjarar eiga ekki að vera eldri en 10 ára. 

Slökkvitæki og eldvarnarteppi

  • Handslökkvitæki þarf að yfirfara á tveggja ára fresti. 
  • Eldvarnarteppi og handslökkvitæki eiga að vera til á öllum heimilum og allir þurfa að kunna að nota þau.
Algengustu brunar á Íslandi eru af völdum rafmagns- og raftækja.

Hættulegustu eldsvoðar verða að nóttu til, þegar heimilisfólk er sofandi. Eldurinn getur magnast ótrúlega fljótt og reykurinn verður banvænn á fáeinum mínútum. Reykskynjarar, sem vara heimilisfólkið við hættunni, ættu því að vera í hverju herbergi þar sem raftæki eru staðsett, einnig í bílskúrnum. 

Við hvetjum alla til að huga vel kertaskreytingum sem oft hefur kviknað í út frá.

Sömuleiðis munum við skipta um rafhlöður og setja upp reykskynjara, handslökkvitæki og eldvarnarteppi fyrir þá er þess óska ásamt því að veita ráðgjöf um staðsetningar slíkra tækja. Þá hefur Félag slökkviliðsmanna til sölu á kostnaðarverði rafhlöður í reykskynjara, eldvarnarteppi og handslökkvitæki.

Þeir sem óska eftir aðstoð geta hringt í síma 893 6359 og 849 0180.

Laugardaginn 11. nóvember verður slökkvitækjahleðsla staðsett á slökkvistöðinni frá kl. 10-17 og munu slökkviliðsmenn sækja tæki og skila að skoðun lokinni fyrir þá sem þess óska.