Reglur Tópazs

Þessar reglur fyrir félagsmiðstöðina Tópaz voru samþykktar á 722. fundi bæjarstjórnar Bolungarvíkur 14. mars 2017.

1. grein
Félagsmiðstöðin í Bolungarvík heitir Tópaz og er á vegum Bolungarvíkurkaupstaðar. 

2. grein
Árlega skal vinna fjárhagsáætlun fyrir Tópaz. Fjárhagsáætlun skal liggja fyrir þegar unnið er að fjárhagsáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar. Fjárhagsáætlun skal skila inn til bæjarráðs. 

3. grein
Tópaz er fyrir 13 til 16 ára ungmenni Grunnskóla Bolungarvíkur eða 8., 9. og 10. bekk. Ungmennum í 7. bekk er boðið að vera með á völdum viðburðum. Listi yfir nemendur í 7., 8., 9. og 10. bekk og foreldra eða forráðamenn þeirra með símanúmerum og netföngum skal vera til staðar fyrir starfsfólk. 

4. grein
Tópaz er aðili að Samfés sem frjáls félagasamtök félagsmiðstöðva á Íslandi mynda. 

5. grein
Bolungarvíkurkaupstaður skal kalla eftir upplýsingum um brot gegn börnum eða ungmennum frá ríkissaksóknara áður en skrifað er undir ráðningarsamning við starfsmann, sbr. 15. gr. reglna nr. 680 frá 2009 um sakaskrá ríkisins. Einnig skal viðkomandi starfsmaður leggja fram sakavottorð sem hann aflar sjálfur áður en skrifað er undir ráðningarsamning. Vinnutímum sem eru umfram ráðningarsamning skal skila til bæjarskrifstofu á viðeigandi formi. Starfsfólk skal hafa lykla að húsnæði félagsmiðstöðvarinnar.

6. grein
Starfsfólki Tópazs ber að halda skráningarbók yfir starfið og mætingu notenda. Skráningar skulu vera ópersónugreinanlegar en kyngreindar þannig að ljóst sé hve margar stúlkur og hve margir piltar sæki félagsmiðstöðina hverju sinni. Starfsfólki ber að skrá alla óviðeigandi hegðun ungmennis í félagsmiðstöðinni á viðeigandi skráningarblað sem Grunnskóli Bolungarvíkur leggur til. Slík skráning er gerð undir nafni viðkomandi ungmennis og lýtur trúnaði. 

7. grein
Starfsfólk Tópazs skipuleggur starfssemi félagsmiðstöðvarinnar í samræmi við hefðir og í samráði við notendur og skólastjóra grunnskólans. Við sérstök tækifæri eða viðburði skal kalla foreldra til félagsstarfssins, svo sem vegna gistinátta eða ferðalaga innan héraðs eða milli héraða, fáist ekki tiltekin fjöldi foreldra til þjónustu skal viðkomandi tækifæri eða viðburður falla niður. 

8. grein
Starfsfólk Tópazs skal stuðla að og aðstoða notendur við að stofna nemendaráð Tópazs í upphafi hvers starfsárs sem í sitji formaður, gjaldkeri og ritari en ráðið útnefni sérstakan tæknimann sér til aðstoðar. 

9. grein
Öll neysla áfengis eða annarra vímuefna, þar með talið nikótíns, er með öllu óheimil í starfssemi Tópazs og það sama á við um svæðið í kringum Tópaz. Ef einstaklingur verður uppvís að notkun efna fær hann óformlega áminningu og tækifæri til að bæta sig. Ef hann verður uppvís að notkun efna í annað sinn verður haft samband við foreldra eða forráðamenn og viðkomandi einstaklingi meinuð þátttaka í félagsmiðstöð þá viku og næstu viku í virku starfi hennar. Sé brotið enn ítrekað skal viðkomandi einstaklingi meinaður aðgangur að félagsmiðstöð næstu þrjá mánuði í virku starfi hennar. 

10. grein
Nemendaráði Tópazs er heimilt að reka sjoppu í félagsmiðstöðinni. Rekstur sjoppu er að öllu leyti á ábyrgð nemendaráðs og að engu leyti á ábyrgð starfsfólks eða Bolungarvíkurkaupstaðar en starfsfólk skal aðstoða við reksturinn. Notendur skulu staðgreiða varning sjoppunnar og mega ekki taka út vörur í reikning. Nemendaráði er heimilt að safna dósum og flöskum í fjáröflunarskyni fyrir félagsmiðstöðina. 

11. grein
Allir orkudrykkir eru bannaðir. Orkudrykkir verða gerðir upptækir og verða aðeins afhentir foreldrum eða forráðamönnum sem þess óska á þjónustutíma félagsmiðstöðvarinnar. Notendum er að öðru leyti heimilt að koma með eigin neysluvarning í félagsmiðstöðina en þeir skulu sjálfir sjá um að koma umbúðum af honum, svo sem pizzakössum eða frauðboxum og slíkum umfangsmeiri umbúðum, samdægurs í sorpílát utan félagsmiðstöðvarinnar. Fjarlægi notandi ekki pizzukassa, frauðbox eða slíkar umfangsmeiri umbúðir sem hann hefur komið með eða skili þeim í sorpílát í félagsmiðstöðinni skal honum meinaður aðgangur að félagsmiðstöðinni þá viku og alla næstkomandi viku í virku starfi hennar. 

12. grein
Notendur Tópazs skulu í samráði við starfsfólk haga aðgengi að búnaði félagsmiðstöðvarinnar þannig að bæði sé aðgangi fyrirfram ráðstafað og eins að í boði sé frjáls aðgangur. Notendur skulu virða jafnræði í notkun tækja og búnaðar félagsmiðstöðvarinnar og starfsfólk skal vinna gegn yfirgangi eða einokun einstaklinga eða hópa á einstökum tækjum eða búnaði Tópazs. 

13. grein
Notendur Tópazs eiga að virða alla einstaklinga, unglinga, gesti og starfsfólk. Þeir bera ábyrgð á gjörðum sínum og starfsfólk hefur fullan rétt til að stoppa alla vafasama hegðun, sérstaklega þegar ekki er ljóst hvort allir einstaklingar séu ánægðir með aðstæður.

14. grein
Aðgangur að Tópaz á almennum þjónustutíma skal vera óheftur. Notendum ber að loka á eftir sér útidyrahurð. Loki notendur ekki útidyrahurð eða neiti að loka henni skal vísa þeim frá félagsmiðstöð það kvöld. Á gistinóttum er húsi lokað eftir kl. 22:00 og opnar ekki aftur fyrr en kl. 08:00 næsta morgun. Ef ungmenni vilja eiga möguleika á því að fara heim um miðja nótt þarf það að vera gert í samráði við foreldra. Ungmenni getur ekki snúið til baka á gistinótt ef það fer út eftir lokun nema að það hafi ekki í önnur hús að venda. Á gistinóttum skal vera komin nokkuð góð ró á kl. 04.00. 

15. grein
Félagsmiðstöðin ber ábyrgð á ungmennum í ferð. Á ferðalögum er ætlast til að ungmenni séu með félagsmiðstöðinni. Ef ungmenni ætlar að fara eitthvað annað tímabundið þá verður það að vera gert í samráði við foreldra eða forráðamenn. Ef ungmenni verður uppvíst að neyslu vímuefna í ferð þá verður það sent heim á kostnað foreldra og forráðamanna.

16. grein
Foreldrar og forráðamenn skulu senda inn leyfisbréf fyrir stærri viðburðum og ferðalögum óski starfsfólk þess. Form fyrir leyfisbréf er á bolungarvik.is. Án leyfisbréfs getur ungmenni ekki tekið þátt í viðeigandi viðburði eða ferðalagi sem óskað er eftir leyfisbréfi fyrir. Í leyfisbréfi komi fram upplýsingar um ungmennið, foreldra þess eða forráðamenn og símanúmer. Foreldrar og forráðamenn gæti þess að hægt sé að ná til þeirra jafnt á nóttu sem degi gegnum símanúmer í leyfisbréfi. Falsi ungmenni leyfisbréf skal því meinaður aðgangur að næsta viðburði þar sem krafist er leyfisbréfs. 

17. grein
Komi til handalögmála milli ungmenna eða ungmenna og starfsfólks í starfssemi félagsmiðstöðvarinnar skulu hlutaðeigandi ungmenni tafarlaust tekin út úr hópnum og send heim. Það skal gera með þeim hætti að starfsfólk haldi hlutaðeigandi ungmennum frá hópnum eftir því sem tækifæri eru til og hafi samband við foreldra eða forráðamenn viðkomandi ungmenna og óski eftir því að þau verði sótt. Eftirfylgni slíkra mála er á ábyrgð félagsmálastjóra Bolungarvíkurkaupstaðar.

18. grein
Slasist ungmenni í félagsstarfi fyrir slysni eða vegna handalögmála skal starfsfólk kalla til lækni og/eða lögreglu eftir ástæðum og upplýsa foreldra og forráðamenn. Eftirfylgni slíkra mála er á ábyrgð félagsmálastjóra Bolungarvíkurkaupstaðar. 

19. grein
Skemmi ungmenni búnað félagsmiðstöðvarinnar eða eigur annarra ungmenna eða starfsfólks skal því meinaður aðgangur að félagsmiðstöðinni þá viku og næstu viku í virku starfi félagsmiðstöðvainnar. Ef um dýran búnað er að ræða, svo sem sjónvarp eða síma, skal félagsmálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar leita eftir því að tjónþoli fái tjónið bætt.

20. grein
Ef ungmenni brýtur ítrekað gegn reglum þessum eða veldur ítrekað vandræðum eða truflunum í starfi félagsmiðstöðvarinnar skal félagsmálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar óska eftir fundi með viðkomandi einstaklingi og foreldrum eða forrráðamönnum og gera beinan samning við hlutaðeigandi um aðkomu ungmennisins að félagsmiðstöðinni. Ef ungmennið virðir ekki þann samning jafngildir það þriggja mánaða fjarveru þess frá virku starfi félagsmiðstöðvarinnar. 

21. grein
Foreldrum og forráðamönnum ungmenna er bent á að hafa beint samband við starfsfólk Tópazs eða bæjarstjóra ef þau hafa athugasemdir eða ábendingar varðandi starfssemi Tópazs. Samfélagsmiðlar á vegum Tópazs sem foreldrar hafa aðgang að eru ekki ætlaðir fyrir umræður um athugasemdir eða ábendingar sem kunna að koma upp í starfssemi félagsmiðstöðvarinnar hverju sinni.