Reglur um liðveislu

Reglur Bolungarvíkurkaupstaðar um liðveislu.

1.gr. Skilgreining
Liðveisla er veitt samkvæmt 24.gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Með liðveislu er átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun t.d. aðstoð við að njóta menningar og félagslífs. Liðveisla er ekki ætluð til að aðstoða við athafnir daglegs lífs

2.gr. Réttur til liðsveislu
Rétt til liðveislu samkvæmt reglum þessum hafa einstaklingar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1. Að vera andlega eða líkamlega fatlaður og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum (sbr. 2.gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992).
2. Að hafa lögheimili og búsetu í Bolungarvíkurkaupstað og vera orðinn 6 ára eða eldri.

3.gr. Umsóknir og mat á þjónustu
Sótt er um liðveislu hjá félagsþjónustu á þar til gerðum eyðublöðum. Félagsmálastjóri metur þjónustuþörf og er þá tekið tillit til fötlunar, félagslegrar stöðu og annarrar þjónustu sem sá fatlaði nýtur. Heimilt er að óska eftir vottorðum eða greiningum um fötlun viðkomandi. Liðveisla skal að hámarki vera 30 tímar á mánuði, ef um verulega fötlun er að ræða. Að jafnaði skal liðveisla ekki samþykkt nema til 6 mánaða í senn og mun þá verða endurskoðuð

4.gr. Liðveitendur
Félagsmálastjóri ræður liðveitendur til starfa og sér um faglega handleiðslu þeirra á starfstíma. Gerður er samningur við liðsmann um hvert verkefni þar sem kveðið er á um samningstímabil, mánaðarlega vinnuskildu og skipulag starfs. Liðveitandi er bundinn þagnarskildu, sem helst þótt látið sé af störfum. Bolungarvíkurkaupstaður greiðir laun liðveitenda og fara launakjör eftir samningum bæjarfélagsins og viðkomandi stéttarfélags. Starfsmönnum er óheimil fjárhagsleg umsýsla fyrir þjónustuþega. Auk þess sem þeim er óheimilt að taka við gjöfum, greiðslum eða öðru þess háttar frá þjónustuþega. Vinnuskýrslur liðveitanda skulu staðfestar af þjónustuþega, forráðamönnum eða talsmönnum, nema annað sé ákveðið. Vinnuskýrslum skal skila til launafulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar fyrir 20. hvers mánaðar vegna launaútreikninga.

5.gr. Kostnaður
Liðveisla er gjaldfrjáls fyrir notenda hennar. Notendur greiða sjálfir fyrir eigin útgjöld s.s. fyrir bíóferðir eða veitingar á kaffihúsi. Útlagður kostnaður liðveitanda er greiddur af bæjarfélaginu upp að kr. 3500 á mánuði og greitt er fyrir akstur að hámarki 150 km á mánuði. Akstur er greiddur samkvæmt kílómetragjaldi uppgefnu af skattstjóra hverju sinni.

6.gr. Gildistími
Reglur þessar voru samþykktar í Velferðaráði Bolungarvíkur þann 9. september 2008 og í Bæjarstjórn Bolungarvíkur þann 2. október 2008.