• Baldur Smári Einarsson

Baldur Smári Einarsson á sjómannadag 7. júní 2020

Baldur Smári Einarsson flutti ræðu í Hólskirkju á sjómannadag 7. júní 2020.

Baldur Smári EinarssonKæru sjómenn! ég vil byrja á því að óska ykkur til hamingju með daginn. Okkur öllum óska ég gleðilegs sjómannadags.

Ég veit ekki hvort ég þurfi að kynna mig en ég heiti sem sagt Baldur Smári Einarsson og á tvær dætur, Írisi Emblu sem er 16 ára og Önnu Dagný sem er að verða 9 ára. Foreldrar mínir voru Einar Hálfdánsson, skipstjóri, og Guðríður Benediktsdóttir, bankastarfsmaður. Í föðurættina var afi minn Hálfdán Einarsson, skipstjóri, og Petrína Jónsdóttir, verkakona, var amma mín. Í móðurættina var afi minn Benedikt Elís Jónsson, formaður, og Margrét Halldórsdóttir, húsmóðir var amma mín. Sjómennskan er mér því í blóð borin þótt ekki hafi ég fetað í fótspor forferðra minna og stundað sjóinn.

Sjómannadagurinn hefur alltaf verið einn mesti hátíðisdagur ársins hjá mér, að undanskildum kannski jólunum og páskunum. Ég hef alltaf lagt mig fram um að mæta í messu á sjómannadaginn og helst af öllu vil ég líka ganga til kirkju eins og við gerðum í dag. Frá Brimbrjótnum og upp að Hólskirkju. Ég ber virðingu fyrir sjómannadeginum og sennilega er það bara partur af því að vera sjómannssonur og íbúi í samfélagi þar sem næstum allt atvinnulíf er byggt á útgerð og fiskvinnslu. 

Allt frá því að ég man eftir mér hefur heimur sjómennskunnar verið mér nálægur. Pabbi var skipstjóri á togaranum Heiðrúnu ÍS og fór ég iðulega með honum niður í skip þegar skipið var í landi. Eiginlega var það þannig að ég reyndi að verja sem mestum tíma með pabba þegar hann var í landi. En það er önnur saga. Áhugi minn á sjómennsku var samt ekki ýkja mikill þegar ég komst á unglingsaldurinn. Ég ætlaði mér samt að taka pungaprófið en atvik urðu þannig að ekki var hægt að bjóða upp á slíkt nám á síðasta árinu mínu í grunnskóla. Í kjölfarið beindist áhugi minn í aðrar áttir og er ég viss um að þannig átti það að verða, mér var ekki ætlað að verða sjómaður. 

Þegar ég var á barnsaldri fékk ég stundum að fara með pabba í stutta túra á sumrin á Heiðrúninni ef veðurspáin var góð. Gjarnan voru þá 1-2 aðrir krakkar með í för og afar skemmtilegt að vera um borð. Ég man eftir því að það voru leikjatölvur í matsalnum á Heiðrúninni og þar vorum við krakkarnir mikið. Mér fannst leikjatölvurnar spennandi enda ekkert svoleiðis til á mínu heimili. Svo var ég líka mikið upp í brú með pabba og fylgdist með þegar trollið var kastað og þegar það var híft inn aftur. Þá var líka spennandi að sjá hve mikið væri í trollinu þó aflanemarnir – pungarnir eins og þeir voru kallaðir – gæfu ákveðnar vísbendingar um magnið í hverju togi. Þegar ég hafði aldur til fékk ég þó í tvígang að fara sem háseti á sjóinn með pabba en í annað skiptið var bræla og sjóveikin að gera mér lífið leitt. Að hugsa sér, þó maður sé sjóveikur og æli úr sér lungu og lifur þá þýðir ekkert að væla. Á sjó þarftu að vinna hvort sem þú sért sjóveikur eða ekki. 

Þessir tveir túrar dugðu ekki til að kveikja frekari áhuga minn á sjómennsku en ég hef í staðinn alltaf haft mikinn áhuga á aflabrögðum og hefur sá áhugi reyndar alltaf verið mikill í minni fjölskyldu. Ég og Hálfdán bróðir minn fylgjumst mjög vel með því hvað bolvísku bátarnir eru að fiska og í COVID ástandinu var það fastur punktur í tilverunni að hringja í Hálfdán á kvöldin og lesa upp fyrir hann aflatölurnar en þær koma daglega til mín í tölvupósti frá Hafnarvoginni. Þá hefur þessi einskæri áhugi á aflabrögðum leitt til þess að ég hef skilmerkilega safnað uppýsingum um landaðan afla í Bolungarvík síðustu árin, eða alveg eins langt aftur og kerfi Fiskistofu leyfa. Þegar efnahagslíf bæjarins byggir á sjávarútvegi er eins gott að fylgjast vel með því sem fer í gegnum höfnina því hún er sannarlega lífæð samfélagsins.

Það er mikil áhætta sem fylgir því að vera sjómaður. Veður geta verið válynd og mannskaðar voru miklir í tengslum við sjóslys. Pabbi talaði aldrei um sjóslysin eða slæmu veðrin þar sem hætta gat stafað af sjósókninni. Ég kann því fáar sögur af hættutímum hjá pabba á sjónum. 

Þó man ég eftir því að þegar snjóflóðin féllu í Súðavík að þá hafði ég áhyggjur af pabba á sjónum. Þá var mjög slæmt veður og Heiðrúnin á veiðum fyrir sunnan land. Ég man að kvöldið fyrir snjóflóðin var Heiðrúnin meðal þeirra skipa sem höfðu ekki sinnt tilkynningarskyldunni og kom það fram í tíu fréttunum í útvarpinu og væntanlega líka um miðnættið. Í þá daga var ekki til neitt AIS eða MarineTraffic og ekki hægt að sjá í símanum eða tölvunni hvar skip voru staðsett. Alla nóttina vissum við því ekkert um pabba og áhöfnina á Heiðrúnu. Mamma hafði eðlilega miklar áhyggjur og mér fannst líka erfitt að vita ekkert um pabba minn í þessu slæma veðri. Morguninn eftir komu slæmar fregnir af snjóflóði í Súðavík en einnig kom símtal frá pabba þar sem hann sagði að þeir væru komnir í land í Reykjavík. Skiljanlega var okkur mjög létt á þeirri stundu.

Nýverið voru mjög áhugaverðir þættir í Ríkisútvarpinu um vonskuveður sem grandaði þremur bátum í Ísafjarðardjúpi í febrúar 1968, þá fórust 26 manns, þar af 6 af vélbátnum Heiðrúnu II frá Bolungarvík. Það var mikið áfall fyrir Bolvíkinga og áttu margir um sárt að binda eftir sjóslysið. Þessa nótt skall á óveður við Ísafjarðardjúp og þá voru hafnaraðstæður þannig í Bolungarvík að það þurfti að sigla skipum inn á Ísafjörð til að varna því að skipin slitnuðu frá bryggju og réku upp í fjöru. Á þessum tíma var pabbi stýrimaður á Sólrúnu ÍS þar sem Hálfdán Einarsson afi minn var skipstjóri. Seint um þessa nótt héldu þeir með skipið í var inn á Ísafjörð en auk þeirra var Halldór Benediktsson bróðir mömmu með þeim í för. Í dag hugsa ég mikið til þess hvernig mömmu hafi liðið á þessum tíma. Hún var ein heima með fjögur börn, það elsta 5 ára en Anna systir mín var þá aðeins eins mánaðar gömul. Það hlýtur af hafa verið erfitt að sitja heima og bíða milli vonar og ótta, vitandi að bæði eiginmaður, bróðir og tengdafaðir væru úti á sjó í þessu aftakaveðri. Sem betur fer komust þeir í örugga höfn á Ísafirði þessa nótt.

Skipstjóraferill pabba var mjög farsæll, yfirleitt fiskaðist vel og ég held að pabbi hafi aldrei misst neinn mann á sínu skipi. Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að pabbi væri mjög varkár á sjónum og færi ætíð í var eða sigldi í land ef það stefndi í slæm veður. Kannski hefðu aðrir skipstjórar verið lengur að og fiskað meira en ég héld að pabbi hafi alltaf sett öryggi áhafnarinnar í fyrsta sæti.

Það er hefð fyrir því að sjómenn séu heiðraðir á sjómannadaginn. Mér finnst þetta góður siður og finnst mikilvægt að við berum virðingu fyrir því fólki sem helgað hefur líf sitt sjósókninni. Það er alltaf gott að koma hér í sjómannadagsmessuna og sjá hetjur hafsins fá virðingarvott fyrir lífsstarf sitt.

Eins og mér finnst heiðrun sjómanna á sjómannadaginn vera fallegur siður þá finnst mér líka mikilvægt að sveitarfélög heiðri reglulega bæjarbúa sem hafa með störfum sínum og framgöngu haft jákvæð áhrif á samfélagið og verið til fyrirmyndar og eftirbreytni. 

Þannig háttar til að ég sit í bæjarstjórn Bolungarvíkur og á dögunum útnefndi bæjarstjórnin nýjan heiðursborgara Bolungarvíkur. Allt fram til þess dags hafði Bolungarvík aðeins átt einn heiðurborgara en það var útgerðarmaðurinn Einar Guðfinnsson sem hlaut þessa merku nafnbót árið 1974.

Það er skemmst frá því að segja að bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur útnefnt Helgu Guðmundsdóttur sem heiðursborgara Bolungarvíkur. 

Það stóð til að formleg athöfn vegna heiðrunarinnar yrði í dag á hátíðisdegi sjómanna en heimsóknarbann á hjúkrunarheimilinu Bergi gerði það ekki mögulegt. En á morgun verður búið að aflétta heimsóknarbanninu og þá verður slegið upp veislu með Helgu og hennar nánustu ættingjum. Af þessu tilefni vil ég hvetja bæjarbúa til að draga fána að húni á morgun til heiðurs Helgu Guðmundsdóttur.

Mér finnst það við hæfi að ljúka máli mínu hér í dag með þeim orðum sem bæjarstjórn Bolungarvíkur lagði til grundvallar útnefningu Helgu Guðmundsdóttur sem heiðursborgara Bolungarvíkur.

Helga Guðmundsdóttir fæddist þann 17. maí árið 1917 á Blesastöðum á Skeiðum og ólst þar upp í hópi sextán systkina, en tvö þeirra létust í æsku. Æskuár hennar voru gleðirík í blómlegri sveit á tímum mikilla umbreytinga í samfélaginu. Ísland var að feta sig inn í nútímann, en aðstæður voru gjörólíkar því sem við þekkjum í dag. Vélvæðing hafði nýlega byrjað innreið sína jafnt til sjávar og sveita, samgöngur voru ólíkar því sem við þekkjum og tækifæri ungs fólks víðsfjarri því sem okkur þykja sjálfsögð. 

Árið 1918 varð sögulegt í margvíslegu tilliti. Ísland varð fullvalda, fyrri heimsstyrjöldinni lauk, Kötlugos og frostavetur olli margvíslegum búsifjum og spænska veikin geisaði og olli dauða nær fimm hundruð manna þegar íbúafjöldi Íslands var einungis fjórðungur þess sem er í dag. 

Helga hleypti heimdraganum eins og margt ungt fólk á þeim tíma og fór til Reykjavíkur. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Bolvíkingnum Gunnari Hirti Halldórssyni, sjómanni og síðar verslunarmanni og útgerðarmanni, og flutti með honum til Bolungarvíkur árið 1952.

Það má nærri um geta að viðbrigðin hafa verið mikil. Hún, sem fóstruð var í láglendri, grösugri og blómlegri sveit og hafði dvalist í höfuðstaðnum, var komin vestur til Bolungarvíkur sem þá var nýlega komin í akvegasamband við næstu byggðir, en mátti teljast afskekkt eins og byggðirnar almennt á Vestfjörðum. Helga undi hag sínum vel og Bolvíkingar kunnu strax að meta þessa hógværu og hljóðlátu konu sem hvarvetna ávann sér traust og virðingu. Hér, umvafin bröttum fjöllum svo fjarri sunnlensku láglendi, hefur henni líkað vel. Það má því með sanni segja að þó hinar sunnlensku rætur hafi aldrei slitnað, þá hafi Helga orðið rótgróinn Bolvíkingur. Hún kunni vel að meta Víkina og það sem hún bauð upp á og Bolvíkingar unnu henni og virtu, enda fullt tilefni til. - Það má kannski segja að til hafi orðið gagnkvæm ást Bolvíkinga á Helgu og Helgu á Bolvíkingum.

Helga og Gunnar eignuðust þrjú börn. Agnar Halldór bónda og fyrrverandi oddvita á Miklabæ í Skagafirði, Kristínu kennara í Bolungarvík og Keflavík, en hún lést árið 2014 og Ósk kennara. Afkomendur Helgu eru 22 talsins.

Helga var húsmóðir eins og þá tíðkaðist samkvæmt aldagamalli verkaskiptingu kvenna og karla, en hún vann einnig utan heimilis, meðal annars á Sjúkraskýlinu. Hvarvetna var hún vinsæl; jafnt af verkum sínum sem og af hlýju viðmóti og hjartagæsku sinni. 

Það er óhætt að segja að Helga sé verðugur fulltrúi þeirra kynslóða sem ruddu brautina í uppbyggingu Bolungarvíkur frá miðri síðustu öld. Hún vann verk sín í hljóði eins og tíðkaðist meðal kvenna á þessum tíma, en framlag hennar og annarra kynsystra hennar var ómetanlegt og verður seint fullþakkað. 

Helga er elsti íbúi Bolungarvíkur um þessar mundir og er fyrsti Bolvíkingurinn sem nær 100 ára aldri svo vitað sé. Veikindi hafa þó ekki gengið framhjá hennar garði því tvívegis fékk hún berkla en sigraðist á þeirri vá. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Helga veiktist af hinum alvarlega COVID sjúkdómi í mars síðastliðinn og komst yfir veikindi sín. Hún uppskar ekki einvörðungu stolt og virðingu samborgara sinna hér í Bolungarvík, heldur fölskvalausa aðdáun landsmanna og einnig langt út fyrir landsteinana. Við Bolvíkingar erum stoltir af okkar konu, okkur finnst við öll eiga hlutdeild í henni Helgu.

Það er bæjarstjórn Bolungarvíkur mikill sómi að fá að útnefna Helgu Guðmundsdóttur sem heiðursborgara Bolungarvíkur. Hún er einstök öndvegismanneskja og er fyrirmyndar fulltrúi alls þess fólks sem hefur mótað Bolungarvík frá miðri síðustu öld og skilað okkur langt fram á veginn.

Að þessum orðum sögðum vil ég ljúka máli mínu og óska ykkur aftur gleðilegs sjómannadags.