Reglur um sérstakar húsaleigubætur

1.gr. 

Skilgreining

Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Sérstakar húsaleigubætur er fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu á almennum markaði umfram almennar húsaleigubætur. 

2.gr.

Skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild

Við vinnslu umsóknar skal leita upplýsinga m.a. um félagslegar aðstæður, lögheimili, tekjur og eignir. Umsækjandi þarf að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði til að umsókn öðlist gildi:

  • Umsækjandi hefur að mati starfsmanns félagsþjónustu ekki möguleika á því að kaupa eigið húsnæði. 
  • Umsækjandi uppfyllir öll skilyrði um almennar húsaleigubætur og hefur sótt um þær.
  • Umsækjandi á lögheimili í Bolungarvík þegar sótt er um og hefur átt a.m.k. síðustu 18 mánuði samfleytt áður en umsókn berst.
  • Eignir og tekjur umsækjanda miðast við eftirfarandi hámarksupphæðir: Eignarmörk eru kr. 3.069.000.  Tekjumörk eru kr. 2.200.654.- fyrir einhleyping en kr. 3.081.695. fyrir hjón og sambúðarfólk, auk þess kr. 368.400 fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna s.l. 3 ár. Heimilt er að taka tillit til skuldastöðu/greiðslubyrði umsækjanda.  Eignamörk breytast samkvæmt vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert og skal miða við útreikninga félagsmálaráðuneytisins.
  • Umsækjandi býr við félagslega erfiðleika að mati starfsmanna félagsþjónustu.
  • Umsækjandi er orðinn 18 ára á umsóknardegi.

3.gr.

Undanþágur frá skilyrðum

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum 2. gr. um lögheimili og tekjuviðmið við eftirfarandi aðstæður:

  • Frá lögheimili: Umsækjandi hefur búið í Bolungarvík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu.
  • Frá lögheimili og/eða tekjuviðmiði: Umækjandi er samkvæmt faglegu mati starfsmanna félagsþjónustu í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, 
Umsóknir um undanþágur skulu vera skriflegar þar sem gerð er grein fyrir ástæðu undanþágubeiðni. Undanþágur eru afgreiddar af velferðarráði.

4.gr.

Fjárhæð 

Sérstakar húsaleigubætur eru reiknaðar sem ákveðið hlutfall af almennum húsaleigubótum þannig að fyrir hverjar kr. 1.000 fær leigjandi kr. 1.300 í sérstakar húsaleigubætur. Þó geta húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur aldrei numið hærri fjárhæð en samtals kr. 50.000 á mánuði og aldrei farið yfir 75% af leigufjárhæð.

5. gr.

Upplýsingar um aðstæður og endurskoðun greiðslna

Viðtakandi sérstakra húsaleigubóta verður að fullnægja öllum skilyrðum 2. gr. allt það tímabil sem leigusamningur gildir.  Ef skilyrðum er ekki lengur fullnægt verður greiðslu sérstakra húsaleigubóta hætt.  Viðtakandi sérstakra húsaleigubóta skal gera grein fyrir öllum breytingum sem verða á aðstæðum hans og kunna að hafa áhrif á skilyrði um sérstakar húsaleigubætur.

6. gr

Endurnýjun umsókn

Endurnýja skal umsókn um sérstakar húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár, um leið og endurnýjun almennra húsaleigubóta á sér stað. 

7. gr

Málsmeðferð

Meðferð máls er skv. ákvæðum XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og ákvæði laga um húsaleigubætur nr. 138/1997. 

Umsóknir skulu berast félagsþjónustu á þar til gerðum eyðublöðum.Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu og með vitund umsækjanda. 

Afgreiða skal umsókn eins fljótt og unnt er eftir að hún berst og skal niðurstaða kynnt umsækjanda og niðurstaðan kynnt skriflega. 

Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan í viðeigandi ákvæði þessara reglna. Umsækjandi hefur fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til velferðarráðs frá því honum barst vitneskja um ákvörðun.  Velferðarráð skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.  Umsækjandi getur skotið ákvörðun velferðarráðs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu.  Skal það gert innan fjögurra vikna frá því umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun velferðarráðs. 

8. gr.

Gildistaka

Reglur þessar voru samþykktar í velferðaráði Bolunarvíkurkaupstaðar 14. október 2008 og í bæjarráði Bolungarvíkurkaupstaðar 14. október 2008.