Starfsmannastefna

Markmiðið með starfsmannastefnunni er að Bolungarvíkurkaupstaður hafi alltaf á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem geta tryggt nauðsynlegt frumkvæði í störfum og veitt góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum sveitarfélagsins.

Starfsmannastefnan á að tryggja starfsmönnum ákveðin starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi. Leitast skal við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starf og fjölskyldulíf.

Leiðarljós

  • Virðing fyrir fólki
  • Samvinna og sveigjanleiki 
  • Jafnræði
  • Þekking og frumkvæði
  • Þjónustulund

Í þessu felst að stofnanir Bolungarvíkurkaupstaðar:

  • Virða alla starfsmenn sína og viðhorf þeirra.
  • Virkja starfsmenn til að móta og bæta starfsemina. 
  • Starfa í anda jafnræðis og jafnréttis.
  • Bjóða upp á verkefni þar sem hæfileikar hvers og eins fá notið sín.
  • Stuðla að því að starfsmenn geti aukið þekkingu sína og starfshæfni. 
  • Leggja áherslu á gæði starfs og hátt þjónustustig.
  • Upplýsa starfsmenn um hlutverk þeirra og ábyrgð.

Skýrar og einfaldar reglur eiga að gilda um samskipti, boðleiðir og upplýsingarstreymi milli starfsmanna, yfirmanna, bæjarfulltrúa og bæjarbúa.

Þetta gerir þær kröfur til starfsmanna að þeir:

  • Virði samstarfsmenn sína.
  • Séu viðbúnir þróun og breytingum og taki þátt í þeim. 
  • Viðhaldi þekkingu sinni og auki við hana. 
  • Sinni starfi sínu af trúmennsku og metnaði. 
  • Sýni ábyrgð.


Nánari útfærsla

1. Ráðningarréttindi starfsmanna

Laus störf

Stofnanir kaupstaðarins skulu auglýsa laus störf í samræmi við lög og reglur. Gæta skal jafnræðis í ráðningarferlinu. Ráðning á að byggjast á hæfni umsækjanda til að inna auglýst starf af hendi. Við ráðningar skal taka mið af jafnréttisáætlun kaupstaðarins. Í ráðningarviðtali skal gæta jafnræðis og skal frá ráðningu gengið með formlegum hætti. Nýir starfsmenn skulu fá fræðslu um sveitarfélagið og stofnanir þess eftir því sem við á hverju sinni.

Jafnrétti

Stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins skulu virða jafnréttisáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar. Þess skal gætt að gera ekki upp á milli starfsmanna í kjörum vegna kynferðis, kynþáttar, stjórnmálaskoðana eða trúarskoðana eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum. Stjórnendum ber að stuðla að markvissri aðlögun erlendra starfsmanna á vinnustað og huga að íslenskunámi ef þurfa þykir.

Starfslok

Fyrir uppsögn starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður. Starfsmaður á rétt á skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun um uppsögn, óski hann þess. Sé um að ræða meintar ávirðingar í starfi, ber yfirmanni að veita áminningu en gefa starfsmanni fyrst tækifæri til að tjá sig um málið, nema ávirðingar séu svo alvarlegar að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Gefa skal starfsmanni kost á starfslokasamtali við stjórnanda. Starfsmenn skulu láta af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þeir verða 70 ára.

2. Símenntun, starfshæfni og starfsþróun starfsmanna

Símenntun

Bolungarvíkurkaupstaður beitir sér fyrir því að starfsmenn eigi kost á símenntun innan sem utan stofnunar til að auka þekkingu sína og faglega hæfni sem nýtist í starfi. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanns sem yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem nauðsynleg er í starfi. Viðleitni starfsmanna til að auka þannig hæfni sína er liður í starfsöryggi þeirra.

Starfsmannasamtöl

Bolungarvíkurkaupstaður vill að starfsmenn fái notið hæfileika sinna í starfi. Starfsmenn stofnana sveitarfélagsins eiga rétt á starfsmannasamtölum a.m.k. einu sinni á ári. Tilgangurinn með samtölunum er að tryggja að kröfur og væntingar yfirmanna og starfsmanna séu ljósar og að samráð sé haft um umbætur þar sem þeirra er þörf. Í starfsmannasamtölum fer fram umræða um fræðsluþörf og leiðir til úrbóta. Í starfsmannasamtali á starfsmaðurinn að geta rætt líðan sína á vinnustað, frammistöðu og óskir um starfsþróun.

Starfsþróun

Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim kröfum, sem starf gerir til þeirra, svo sem vegna tæknilegrar og faglegrar þróunar og vera reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns og er m.a. sinnt með þátttöku starfsmanns í starfsmannasamtölum, símenntun og samvinnu.  Starfsþróun og starfsöryggi tengjast með beinum hætti. Starfsþróun á sér stað þegar starfsmaður tekst á við starf eða ný verkefni, sem gera nýjar kröfur til hans. Tilgangurinn er sá að starfsmenn geti skilað verðmætari vinnu sjálfum sér og bæjarbúum til hagsbóta.

3. Vinnuumhverfi

Samskipti

Bolungarvíkurkaupstaður vill stuðla að trausti í samskiptum milli starfsmanna sinna, milli starfsmanna sveitarfélagsins og kjörinna fulltrúa og milli starfsmanna og íbúa Bolungarvíkurkaupstaðar. Sveitarfélagið leggur áherslu á að jafnræði ríki í samskiptum starfsmanna þess. Reglur um samskipti, boðleiðir og upplýsingastreymi skulu vera skýrar og einfaldar og aðgengilegar öllum. Bolungarvíkurkaupstaður vill stuðla að góðum starfsanda og að starfsmenn sýni samstarfsmönnum sínum og öðrum tilhlýðilega virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót.

Aðgerðir ef samskiptareglur eru brotnar

Starfsmaður, sem með orðum, látbragði eða atferli, ógnar, truflar eða ögrar öðrum á vinnustað, leggur starfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slík hegðun getur leitt til áminningar og starfsmissis.

Vinnuvernd

Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi. Það eru gagnkvæmir hagsmunir sveitarfélagsins og starfsmanna þess að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé haft að leiðarljósi. Starfsmenn bera ábyrgð á að leggja rækt við eigin heilsu. Vinnuumhverfi skal vera laust við hættuleg efni og aðra vá eins og kostur er. Jafnframt ber starfsmönnum að fylgja þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, um öryggi og gætni í starfi. Á vinnustað, þar sem meðferð hættulegra efna er nauðsynleg starfseminni, skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt og skýrt kveðið á um hvernig brugðist skuli við óhöppum og hættu. Þá skal þess gætt að yfirvinnu sé haldið innan hóflegra marka.

Vinnustaðir án vímuefna

Bolungarvíkurkaupstaður vill halda vinnustöðum sveitarfélagsins reyklausum. Notkun vímuefna starfsmanna við störf er óheimil. Bolungarvíkurkaupstaður veitir starfsmönnum leiðbeiningar og aðstoð til að vinna úr vandamálum sem tengjast misnotkun vímuefna.

Samræming vinnu og einkalífs

Bolungarvíkurkaupstaður vill skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma kröfur starfs- og einkalífs eins og kostur er. Bolungarvíkurkaupstaður vill að starfsmenn fái notið sveigjanleika í starfi þar sem hægt er að koma því við. Konum og körlum skal gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar. Starfsmenn skulu eiga kost á hlutastörfum og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa. Stjórnendur skulu hvetja væntanlega feður til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Jafnframt skulu þeir hvetja karla til að vera heima hjá veikum börnum til jafns á við konur.

4. Launastefnu og launaákvarðanir

Launastefna

Markmið Bolungarvíkurkaupstaðar er að hæfir starfsmenn veljist til starfa hjá stofnunum hans, þeir uni þar hag sínum og hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar. Launastefnu Bolungarvíkurkaupstaðar er ætlað að styðja við og efla þjónustu sveitarfélagsins að gæðum og skilvirkni. Hún skal taka mið af heildarmarkmiðum sveitarfélagsins og starfsáætlunum stofnana.

Launaákvarðanir

Launaákvarðanir skulu vera gagnsæjar og málefnalegar. Mikilvægt er að laun taki mið af þeim kröfum sem starf gerir til starfsmanns með tilliti til ábyrgðar, álags og sérhæfni. Einnig er mikilvægt að laun taki mið af hæfni og frammistöðu starfsmanna og hvetji starfsmenn til að veita sem besta þjónustu.
Að öðru leyti er farið eftir lögum og kjarasamningum við ráðningu starfsmanna við stofnanir Bolungarvíkurkaupstaður.

5. Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna 

Stjórnendur og starfsfólk einstakra stofnana og fyrirtækja bera sameiginlega ábyrgð á að veita sem besta þjónustu og tryggja að langtímamarkmiðum sé náð. Stjórnendum ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti. Þeir felast meðal annars í jákvæðu viðhorfi til samstarfsmanna, virku upplýsingastreymi og dreifingu valds og ábyrgðar. Stjórnandi skal jafnan leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir víðtækri sátt um þau. Stjórnendur bera ábyrgð á störfum starfsmanna. Stjórnendur eiga að vinna að þeim markmiðum sem sett hafa verið. Stjórnendur stofnana Bolungarvíkurkaupsstaðar bera ábyrgð á að starfsmannastefna sveitarfélagsins sé færð í skipurit og markmið stofnana.

Bolungarvíkurkaupstaður leggur áherslu á að starfsmenn séu stundvísir og við störf á þeim tíma sem samið hefur verið um og fram kemur í ráðningarsamningi. Stjórnanda ber að fylgjast með mætingum starfsmanna. Starfsmenn eiga að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Þeir eiga að vinna með öðrum starfsmönnum af heilindum að markmiðum sem starfseminni eru sett. Þeim ber að hlýða lögmætum fyrirmælum yfirboðara sinna. Þeim ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Starfsmenn eiga að gæta þess að framkoma þeirra og athafnir samrýmist því starfi sem þeir gegna og forðast að hafast nokkuð það að, sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er þeir vinna við. Starfsmenn eiga að gæta þess að þiggja ekki greiðslur eða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum ef túlka má það sem endurgjald fyrir greiða. Þeim ber að hafa í heiðri ýtrustu kröfur um ráðvendni, heiðarleika og réttlætiskennd í störfum sínum í þágu sveitarfélagsins.

6. Eftirlit með framkvæmd og heimildir fyrir stöðum 

Forstöðumenn stofnanna ásamt bæjarstjóra eru ábyrgir fyrir  starfsmannahaldi í heild sinni og skulu forstöðumenn leita heimilda til bæjarstjóra varðandi stöðuveitingar, nema um endurnýjun á heimild sé að ræða. Í fjárhagsáætlun hvers árs er gerð grein fyrir heimiluðu fjölda stöðugilda hverju sinni. Eigi má ráða í nýja stöðu nema fyrir liggi heimild í fjárhagsáætlun ársins. Forstöðumenn stofnana geta sótt til bæjarráðs um auknar heimildir innan fjárhagsáætlunar ársins, að gefnum rökstuðningi. Gera skal grein fyrir kostnaði í rökstuðningi fyrir aukinni heimild. Að öllu jafnaði skal miðað við að umsóknir um fjölgun stöðugilda skuli afgreiddar í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.
Með skipulagi á starfsemi stofnanna Bolungarvíkurkaupstaður sé stuðlað að hagkvæmni og skilvirkni. Skipurit ásamt starfslýsingum kveði skýrt á um hvernig valdi, ábyrgð og ákvörðunum er háttað. Upplýsingar þessar liggi fyrir og séu uppfærðar reglulega miðað við gildandi stjórnskipulag.

Samþykkt í Bæjarstjórn Bolungarvíkur 26.10.2006.