Viðburðir

  • Varðskipið Týr
  • 2. júní 2018, 13:00 - 16:00, Bolungarvík

Varðskipið Týr til sýnis

Varðskipið Týr verður til sýnis í Bolungarvíkurhöfn um sjómannadagshelgina laugardaginn 2. júní frá kl. 13:00 til kl. 16:00.

Týr var smíðaður í Aarhus Flydedok í Árósum í Danmörku.

Kjölur af skipinu var lagður í júlí 1974 og því var svo hleypt af stokkunum 10. október 1974 og var þá gefið nafn.

Týr fór í reynslusiglingu 8. mars 1975 og skipið var formlega afhent Landhelgisgæslu Íslands 14. mars 1975. 

Skipið kom í fyrsta sinn til Íslands 24. mars 1975, kl. 16:37 og lagðist að Ingólfsgarði í Reykjavík.

Fór varðskipið sína fyrstu ferð til björgunar- og landhelgisgæslustarfa frá Reykjavík þann 29. mars 1975, undir stjórn Guðmundar Kjærnested skipherra.

Þorskastríðið 1975-1976

Varðskipið Týr kom mikið við sögu í 200 sjómílna þorskastríðinu og klippti á togvíra fjölda togara, bæði breskra og þýskra.  Alvarlegasti atburðurinn varð þegar breska freigátan Falmouth sigldi tvívegis á Tý og laskaði hann verulega.  Skipið fór nær alveg á hliðina en rétti sig við aftur. Ekkert manntjón varð en litlu mátti muna að tveir skipverjar Týs færu fyrir borð við þessa fólskulegu árás freigátunnar.

Súðavík

Í janúar 1995 féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar í Súðavík. Varðskipið Týr fór til Súðavíkur frá Reykjavík með fjölda björgunarsveitarmanna, lækna, slökkviliðsmanna, leitarhunda o.fl. Skipið hreppti hið versta veður á leiðinni.  Einnig fór Týr í sömu ferð til aðstoðar flutningaskipinu Múlafossi sem var í vélavandræðum í aftakaveðri norður af Hornbjargi og fylgdi honum til hafnar.

Þrátt fyrir að Týr hafi upphaflega verið smíðaður til eftirlits- og björgunarstarfa á Íslandsmiðum hefur skipið farið víða eða allt frá botni Miðjarðarhafs til Norfolk í Virginíu í Bandaríkjunum og norður fyrir Svalbarða í Norðurhöfum.

Sjómannadagshelgin 2018