Fréttir
  • Fáni leikskólabarna

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Fjölmennt var í afmælinu og góður andi. Leikskólabörn fluttu lagið Eldgamla Ísafold og Alexandra Jóhannsdóttir og Íris Embla Stefánsdóttir úr grunnskólanum fóru með ljóð. Sönghópur söngnemenda Tónlistarskólans koma fram og einsöngvari var Karólína Mist Stefánsdóttir.

Einnig gerðu leikskólabörninn fánann sem fylgir hér með og grunnskólabörn og -unglingar gerðu myndir í tilefni dagsins.

Þau Kristín Magnúsdóttir og Valdimar Lúðvík Gíslason voru viðstödd en þau sátu bæði í fyrstu bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar og búa bæði í Bolungarvík.

Í dag eru um 70 Íslendingar á lífi fæddir árið 1918 eða fyrr. Þeir hafa upplifað meiri breytingar á sinni ævi en flestar kynslóðir á undan þeim. Helga Guðmundsdóttir í Bolungarvík er ein þessara 70 Íslendinga, fædd árið 1917 og var eins og hálfs árs þegar fullveldislögin öðluðust gildi. Þess er einnig gaman að geta að Helga hefur tekið þátt í öllum forsetakosningum sem farið hafa fram á Íslandi.

Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna þann 1. desember 1918. Segja má að þetta hafi verið einn merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni, sem hafði þá staðið í nær eina öld og hafði Vestfirðingurinn Jón Sigurðsson farið þar fremstur í flokki.