Jafnréttisáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar 2024-2027
Jafnréttisáætlun er mikilvægt verkfæri til að vinna að jafnri stöðu íbúa sveitarfélagsins á öllum sviðum samfélagsins. Áætlun um jafnréttismál með skýrum markmiðum og tímasettri aðgerðaáætlun þar sem ábyrgð og eftirfylgni er tryggð gegnir veigamiklu hlutverki þegar unnið er að jafnrétti. Virk áætlun um jafnréttismál á öllum sviðum sveitarfélagsins stuðlar að réttlátara og eftirsóknarverðara samfélagi fyrir alla.
Í lögum er kveðið á um að sveitarfélög geri jafnréttisáætlanir með framkvæmdaáætlun. Sveitarstjórn skal samkvæmt 13. gr. laga nr.151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar leggja fram til samþykktar áætlun um jafnréttismál fyrir kjörtímabilið. Í áætluninni skulu koma fram markmið og tilgreindar aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli laga:
- Lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna
- Lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði
- Lög nr. 85/2018 um jafna meðferð utan vinnumarkaðar
Markmið og aðgerðir jafnréttisáætlunarinnar er að koma í veg fyrir mismunun og stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við:
- ráðstöfun fjármagns
- þjónustu sveitarfélagsins
- og í starfsmannamálum.
Jafnréttisáætlunin er ein af miðlægum stefnum sveitarfélagsins og nær til allra starfsmanna og stofnana Bolungarvíkurkaupstaðar hvort sem um ræðir hlutverk sveitarfélagsins sem stjórnvald, þjónustuveitanda eða vinnuveitanda.
1. Bolungarvíkurkaupstaður sem stjórnvald
Kjörnir fulltrúar Bolungarvíkurkaupstaðar eru meðvitaðir um mikilvægi þess að tryggja jafnrétti allra íbúa sveitarfélagsins óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Markmið sveitarfélagsins er að vera leiðandi í jafnréttismálum og sjá til þess með stefnu sinni og aðgerðum að allir íbúar fái jafna meðferð og hafi jafnan rétt til þátttöku í samfélaginu. Til að fylgja eftir markmiðum jafnréttismála innan stjórnsýslu sveitarfélagsins mun velferðarráð fara með jafnréttismál og jafnréttisáætlun þessi gegna mikilvægu hlutverki.
1.1 Jafnréttisnefnd
Sveitarstjórn er skylt að skipa jafnréttisnefnd að loknum sveitarstjórnarkosningum eða fela einni af fasta nefndum sveitarfélagsins að fara með jafnréttismál. Hlutverk jafnréttisnefndar er að vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir í málefnum er varða jafnrétti kynjanna, fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna innan viðkomandi sveitarfélags. Með orðinu kyn er átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. 1. gr. laga nr.150/2020.
Velferðarráði er falið hlutverk jafnréttisnefndar samkvæmt samþykkt um stjórn Bolungarvíkurkaupstaðar. Ráðið hefur það hlutverk að móta stefnu sveitarfélagsins í jafnréttismálum og fylgja henni eftir.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrð | Verklok/tímarammi |
| 1.1.1 Kortleggja stöðu kynjanna | Kyn- og aldursgreina gögn eftir því sem við á og afla upplýsinga um stöðu kynjanna í samfélaginu | Skrifstofustjóri | Eftir því sem við á |
| 1.1.2 Áætlun kynnt innan sveitarfélagsins | Jafnréttisáætlun kynnt kjörnum fulltrúum, stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagsins Jafnréttisáætlun kynnt íbúum sveitarfélagsins | Velferðarráð Skrifstofustjóri | September ár hvert September ár hvert |
1.2 Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum Bolungarvíkurkaupstaðar
Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir munu bæjarstjórnarfulltrúar stuðla að því að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 1.2.1 Að kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum sé í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna | Taka saman upplýsingar um hlutfall kynja í nefndum, ráðum og stjórnum Leiðrétta ef hallar á annað kynið | Velferðarráð Bæjarstjórn | Skoða árlega í velferðarráði og í bæjarstjórn þegar skipað er í nefndir og ráð Þegar kosið er í nefndir og ráð |
1.3 Greining á tölfræðiupplýsingum
Í opinberri hagskýrslugerð um íbúa Bolungarvíkurkaupstaðar og í viðtals- og skoðanakönnunum skal greint á milli kynja við söfnun gagna úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 1.3.1 Upplýsingar um stöðu kynjanna innan Bolungarvíkurkaupstaðar verða aðgengilegar | Við söfnun og úrvinnslu gagna skal kyngreina upplýsingar og birta þegar og þar sem það á við | Skrifstofustjóri | Árlega |
1.4 Bann við mismunun
Bolungarvíkurkaupstaður mun vinna að því að tryggja að ekki verði mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein vegna þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðana, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Sérstaklega verður tekið tillit til þessa þátta við alla stefnumótun og áætlanagerð innan stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 1.4.1 Koma í veg fyrir hvers konar mismunun vegna þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðana, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar | Rýnt í alla stefnumótunar- og áætlunargerð til að fyrirbyggja mismunun | Kjörnir fulltrúar | Við alla áætlunar- og stefnumótunargerð |
2. Bolungarvíkurkaupstaður sem vinnuveitandi
Bolungarvíkurkaupstaður kappkostar að vera fyrirmyndarvinnuveitandi og eftirsóknarverður vinnustaður. Hver starfsmaður skal metinn að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu, án tillits til kyns, aldurs eða þjóðernis.
Bolungarvíkurkaupstaður fylgir jafnlaunastefnu og fékk staðfesta jafnlaunavottun árið 2021. Jafnlaunavottuninni skal viðhaldið með reglubundnum úttektum hjá viðurkenndum vottunaraðila. Bæjarstjóri ber ábyrgð á jafnlaunakerfi sveitarfélagsins en fjármálastjóri hefur umsjón með framkvæmd, skjalfestingu, innleiðingu og stöðugum umbótum, eftirliti og starfrækslu á kerfinu í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins IST 85:2012.
2.1 Bolungarvíkurkaupstaður greiðir starfsfólki jöfn laun og það nýtur sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 2.1.1 Öll störf metin eftir sama kerfi, byggt á starfsmati sveitarfélaga og launaviðmiðum sem því fylgja | Fylgja jafnlaunastefnu Bolungarvíkurkaupstaðar Viðhalda jafnlaunavottun Bolungarvíkurkaupstaðar | Bæjarstjóri, skrifstofustjóri Bæjarstjóri, skrifstofustjóri | Árlega Stöðugt umbótarferli og viðvarandi verkefni |
| 2.1.2 Fólk óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf | Launagreining þar sem kannað er hvort fólk óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu fái jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Leiðrétta laun ef í ljós kemur óútskýrður launamunur fyrir sömu eða jafnverðmæt störf | Bæjarstjóri og launafulltrúi Bæjarstjóri og launafulltrúi | Árlega / stöðugt umbótaferli og eftirlit Árlega / stöðugt umbótaferli og eftirlit |
| 2.1.3 Allar starfslýsingar rýndar í tengslum við árlegt starfsmannasamtal | Uppfæra starfslýsingar | Bæjarstjóri og forstöðumenn stofnana | Árlega / stöðugt umbótaferli og eftirlit |
| 2.1.4 Uppfylla kröfur Jafnlaunastaðalsins ÍST85:2012, jafnlaunakerfið tekið út af fullgildum vottunaraðila | Viðhalda og endurnýja jafnlaunavottun | Bæjarstjóri og launafulltrúi | Á þriggja ára fresti. |
2.2 Ráðningar, starfsþróun og símenntun
Hjá Bolungarvíkurkaupstað ber stjórnendum að jafnaði að auglýsa öll laus störf til umsóknar. Jafnréttissjónarmið skulu metin þegar ráðið er í stöður sveitarfélagsins. Markmiðið er að sem jafnast kynjahlutfall sé á öllum vinnustöðum. Ef úttekt á kynjahlutfalli leiðir í ljós að á annað kynið hallar í viðkomandi starfsgrein skal það kynið sem er í minnihluta að jafnaði ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjendur eru jafn hæfir. Við ráðningar er óheimilt að mismuna kynjum svo sem á grundvelli fjölskylduaðstöðu þess eða annara þátta. Á þeim vinnustöðum þar sem annað kynjanna er ráðandi skal í auglýsingu starfs koma fram hvatning til þess kyns sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein að sækja um laus störf.
Starfsfólk Bolungarvíkurkaupstaðar hafi jafna möguleika til starfsþróunar og símenntunar til að auka hæfni sína í starfi.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 2.2.1 Laus störf hjá sveitarfélaginu eru opin öllum kynjum | Starfsauglýsingar Bolungarvíkurkaupstaðar settar fram með jafnréttissjónarmið í huga | Bæjarstjóri, forstöðumenn stofnana og eftir atvikum bæjarstjórn | Við birtingu auglýsinga |
| 2.2.2 Starfþróun og símenntun sé aðgengileg öllum kynjum | Tryggja að jafnir möguleikar séu í boði fyrir starfsfólk þegar kemur að starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun Leitast við að veita öllu starfsfólki sem stundar nám samhliða vinnu sveigjanleika í starfi Standa fyrir fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur um jafnréttismál | Forstöðumenn allra stofnana Forstöðumenn stofnanna Bæjarstjóri og stjórnendur stofnana | Stöðugt umbótaferli og eftirlit Stöðugt umbótaferli og eftirlit Árlega |
| 2.2.3 Stuðla að jöfnum tækifærum kynjanna til að gegna stjórnunarstöðu | Við ráðningu í stjórnunarstöður verði horft til kynjahlutfalls þegar um jafnhæfa einstaklinga er að ræða | Bæjarstjórn og bæjarstjóri | Í ráðningarferli |
2.3 Starfsskyldur og fjölskyldan
Bolungarvíkurkaupstaður leggur metnað sinn í að vera fjölskylduvænt sveitarfélag og vinnustaður. Eftir því sem kostur er á skal starfsfólki sveitarfélagsins gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldum gagnvart fjölskyldu. Þetta skal m.a. gert með sveigjanlegum vinnutíma, möguleikum á hlutastarfi og annarri hagræðingu. Mikilvægt er að foreldrar nýti sér rétt sinn til foreldra og fæðingarorlofs.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 2.3.1 Að vera fjölskylduvænn vinnustaður | Leita leiða til að gera starfsfólki kleift að samræma skyldur sínar gagnvart vinnu og einkalífi. | Forstöðumenn stofnana og bæjarstjóri | Stöðugt umbótaferli og eftirlit |
| 2.3.2 Foreldrar nýti sér þann rétt sem þau eiga varðandi foreldra- og fæðingarorlof og leyfi vegna veikindi barna | Hvetja foreldra til þess að nýta sér þann rétt sem þau eiga varðandi foreldra- og/eða fæðingarorlofs eða leyfi vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna | Forstöðumenn og bæjarstjóri | Stöðugt umbótaferli og eftirlit |
2.4 Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Kynbundin og kynferðisleg áreitni er ekki liðið á vinnustöðum Bolungarvíkurkaupstaðar. Sé yfirmanni eða trúnaðarmanni gert viðvart um slíka hegðun ber viðkomandi, í samráði við forstöðumann eða aðra yfirmenn stjórnsýslunnar eftir atvikum, tafarlaust binda endi á hana. Þolandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni. Alvarleg eða endurtekin áreitni varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi. Bolungarvíkurkaupstaður, yfirmenn stofnana bæjarins og forsvarsmenn félagasamtaka í Bolungarvík skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 2.4.1 Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, og kynferðisleg áreitni sé ekki liðin á vinnustöðum sveitarfélagsins | Fræða starfsfólk um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni | Forstöðumenn stofnana | Stöðugt umbótarferli og eftirlit |
| 2.4.2 Forvarnar- og viðbragðsáætlun sem tekur á kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegu áreitni sé til fyrir hverja stofnun sveitarfélagsins | Forvarnar- og viðbragðsáætlun hverrar stofnunar kynnt fyrir starfsfólki og íbúum | Forstöðumenn stofnana og bæjarstjóri | Nóvember 2024 |
3. Bolungarvíkurkaupstaður sem þjónustuveitandi
Bolungarvíkurkaupstaður gegnir mikilvægu hlutverki sem veitandi þjónustu, má þar m.a. nefna menntun barna og unglinga, tómstunda- og íþróttastarf, velferðarþjónustu og þjónustu við aldraðra.
Þegar Bolungarvíkurkaupstaður skipuleggur þjónustu fyrir íbúa og fjármagni úthlutað skal, auk kyns, huga að ólíkri stöðu fólks vegna þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðana, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Markmið og aðgerðir sveitarfélagsins eiga að koma í veg fyrir mismunun og tryggja félagslegt réttlæti í þjónustunni sem það veitir.
3.1 Skólar, íþrótta- og tómstundastarf
Samþætta skal jafnréttis- og kynjasjónarmið í alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi með tilliti til skólastefnu Bolungarvíkurkaupstaðar.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 3.1.1 Hafa jafnréttis- og kynjasjónarmið að leiðarljósi þegar þjónusta er veitt af hálfu sveitarfélagsins þannig að þjónustan ýti undir jafnrétti meðal íbúa | Allir, óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu hafi jafnan aðgang að þjónustu Bolungarvíkukaupstaðar | Bæjarstjórn og bæjarstjóri | Alltaf/stöðugt |
| 3.1.2 Allt uppeldis-, íþrótta- og tómstundastarf, menntun og fræðsla sem fram fer á vegum og er á ábyrgð sveitarfélagsins og stofnana þess skal hafa jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi | Fræðsla um jafnrétti sé hluti af skólastarfi og öðru uppeldis- og tómstundastarfi og sé nánar útfærð í skólanámskrám og starfsáætlunum Börnum og unglingum skal veitt hvatning til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án tillits til hefðbundinna staðalmynda kynjanna | Skólastjórnendur, forstöðmaður félagsmiðstöðvar Skólastjórnendur, forstöðumaður félagsmiðstöðvar | Alltaf/stöðugt Alltaf/stöðugt |
| 3.1.3 Styrkir til félagssamtaka verði bundnir því skilyrði að kynjum sé ekki mismunað | Nefndum, ráðum, vinnu- og starfshópum Bolungarvíkurkaupstaðar, sem auglýsa styrki til umsóknar, er skylt að gæta jafnréttissjónarmiða við úthlutun þeirra Krefja viðtakendur styrkja um greinargerð um ráðstöfun hans til að fylgjast með því að hann sé nýttur á jafnréttisgrundvelli Tryggja að félagasamtök sem njóta aðstöðu, styrkja eða annarra gæða sem Bolungarvíkurkaupstaður lætur í té gæti jafnréttis | Bæjarstjórn og bæjarstjóri Bæjarstjórn og bæjarstjóri Bæjarstjórn og bæjarstjóri | Alltaf/stöðugt Alltaf/stöðugt Alltaf/stöðugt |
4. Eftirfylgni og endurskoðun
4.1 Jafnréttisáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar nær til allra starfsmanna sveitarfélagsins.
Allir stjórnendur skuldbinda sig til að framfylgja jafnréttisáætluninni og bera sameiginlega ábyrgð á að viðhalda stöðugum umbótum á öllum þáttum hennar. Til að jafnréttisáætlunin skili árangri er mikilvægt endurskoða hana eftir þörfum með því að fara yfir stöðu verkefna, skoða hvað hefur gengið vel og hvað má betur fara.
Til að uppfylla framangreint mun sveitarfélagið:
| Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Verklok/tímarammi |
| 4.1.1 Að jafnréttisáætlun skili tilætluðum árangri | Könnun meðal alls starfsfólks Bolungarvíkurkaupstaðar taki til verkefna áætlunarinnar | Bæjarstjóri | Fyrirlögn starfsmannakannana |
| 4.1.2 Jafnréttisáætlun sé í sífelldri þróun eins og önnur stefnumótun | Endurskoða og uppfæra jafnréttisáætlun | Velferðarráð | Endurskoðað eftir þörfum og uppfært eigi síðar en ári eftir að nýtt kjörtímabil hefst |
Jafnréttisáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar er sett til fjögurra ára. Bæjarstjórn samþykkir áætlunina og bæjarstjóri ber ábyrgð á að framfylgja henni í samstarfi við forstöðumenn stofnana Bolungarvíkurkaupstaðar. Stjórnendur bera ábyrgð á að kynna jafnréttisáætlun fyrir sínu starfsfólki.
Jafnréttisætlunin var samþykkt í velferðarráði Bolungarvíkurkaupstaðar 5. júní 2024 og í Bæjarstjórn Bolulngarvíkur 10. júní 2024.
Áætlunin tekur gildi þegar Jafnréttisstofa hefur samþykkt hana og verður aðgengileg á heimasíðunni bolungarvik.is