Golf - Syðridalsvöllur

Syðridalsvöllur, staðsettur rétt fyrir utan þéttbýliskjarnann í Bolungarvík, er falin perla Vestfjarða sem býður upp á einstaka golfupplifun. Golfklúbbur Bolungarvíkur var stofnaður árið 1982, og Syðridalsvöllur var formlega tekinn í notkun árið 2002. Skotsvæði er utandyra og yfir veturinn er hægt að nota golfhermi sem er staðsettur í golfskálanum. Í klúbbhúsinu er sjoppa sem selur gos, sælgæti, samlokur og fleira.
Eitt af einkennum vallarins er að þrátt fyrir að holurnar séu aðeins níu, eru mismunandi teigasett á hverri holu sem skapa töluverðan mun á spiluninni. Völlurinn er því skráður sem 18 holu völlur, þar sem teigasettin gera hann fjölbreyttan og krefjandi. Völlurinn er par 71.
Landið við Syðridalsvöll er mjög sendið og völlurinn var byggður upp á svæði sem Landgræðsla Ríkisins hafði áður verið að græða upp til að sporna við sandfoki. Völlurinn er einn af fáum strandvöllum á Íslandi og býður upp á stórbrotið umhverfi, umlukið sandhólum og melgresi. Það er einstakt að spila golf í slíku landslagi og óhætt að mæla með að kynna sér völlinn nánar á ferðalagi um Vestfirði.
Syðridalsvöllur hefur öðlast sérstakan sess eftir að kvikmyndin Albatross var frumsýnd, þar sem klúbbhúsið, og völlurinn sjálfur, var áberandi í myndinni.
Dagsgjald er 5.000kr