Fara í efni

Ósvör

Við Óshlíðarveg, 415 Bolungarvík

10. júní - 20. ágúst
Alla daga kl. 10:00 - 16:00 

Aðrir tímar eftir samkomulagi

Ósvör er einstök endurgerð verbúð frá 19. öld, staðsett rétt utan við Bolungarvík. Þessi sögulegi staður veitir gestum innsýn í líf og störf íslenskra sjómanna. 

Í Ósvör má finna reykhús, torfhús, verkfæri og búnað sem notaður var við sjósókn, auk bátsins Ölvers, sem er ómissandi hluti safnsins. 

Ósvör endurspeglar raunveruleika Íslendinga á 19. öld með því að fanga náið samband þeirra við náttúruna og áskoranir hennar.

Starfsfólk safnsins tekur á móti gestum í sjóklæðum úr kindaskinni og segir gestum frá safninu með sögum og skýringum sem gera heimsóknina ógleymanlega. Ósvör eru ekki aðeins söguleg perla heldur býðr hún einnig upp á stórfenglegt útsýni yfir Ísafjarðardjúp og strandlengjuna. Þessi staður er skyldustopp fyrir þau sem vilja kynnast íslenskri sögu, menningu og náttúrufegurð í einni ferð!

Gjaldskrá í Ósvör

Atriði Krónur

Börn 15 ára og yngri

0

Fullorðnir, 16 ára og eldri

1,700

67 ára og eldri

1,500

Hópar á eigin vegum

1,500

Leiðsögumenn

0

Viltu vita meira?

Verstöðvar á Íslandi á 18. og 19. öld skiptust gjarnan í fjóra flokka.

  • Fyrst ber að nefna heimverin, en þá átti hver sveitabær sína heimvör sem róið var frá hverju sinni. Ef margir sveitabæir lágu saman og fjölbýlt var sameinuðust menn um heimvör.
  • Útverin svokölluðu, voru andstæðan við heimverin, en þá yfirgáfu menn bæi sína og dvöldu í útvörinni á meðan vertíð stóð.
  • Viðleguver var svo þriðja tegundin, en frá þeim réru aðkomumenn sem höfðu aðsetur á nálægum sveitabæjum.
  • Fjórða afbrigðið var blandað ver. Þaðan réru aðkomumenn úr öðrum héruðum og dvöldu í verbúðunum yfir vertíðina, auk þess sem heimamenn réru einnig.

Flestar verstöðvanna voru á Vestfjörðum, eða 125 af þeim 326 sem talið er að hafi verið á landinu í upphafi 18. aldar. Voru þar bæði heimver og útver. Verin voru þá yfirleitt staðsett utarlega í fjörðunum þar sem stutt var á miðin.

Á Brunnasandi, í Tálknafirði, í Arnarfirði, í Dýrafirði og í Önundarfirði voru stærstu útverin í Vestfirðingafjórðungi staðsett sem og í Bolungarvík, sem var stærsta og elsta verstöðin við Ísafjarðardjúp.

Ölver var smíðaður árið 1941 af Jóhanni Bárðarsyni bátasmið og fyrrum árabátaformanni í Bolungarvík að frumkvæði Bárðar G. Tómassonar skipaverkfræðings.

Báturinn er smíðaður samkvæmt gömlu bolvísku lagi. Bolvíska lagið byggði á góðri sjóhæfni, bátarnir voru hraðskreiðir, létt rónir, góðir siglingabátar, léttir og stöðugir í lendingu.

Uppsátur Ölvers er við verbúðina Ósvör í Bolungarvík, og er hann þar til sýnis á sumrin.

Ölver er gott dæmi um sexæring eins og þeir voru við Djúp um aldamótin 1900. Hann er með öllum farviðum, s.s. árum, mastri, austurfærum, stýri o.fl. Ölver var fyrst sýndur á sjómannadag á Ísafirði árið 1941.

Lengd Ölvers er 8 metrar, breiddin er 2,06 metrar og hann er 0,7 metra djúpur. Báturinn er í eigu Byggðasafns Vestfjarða og er til sýnis í Ósvör.

Sjóklæði voru saumuð úr kindaskinni.

Skinnið var rakað, þvegið og skafið. Um sex til átta kindaskinn þurfti til að sauma ein sjóklæði, en klæðin voru brók, heil undir yl og náði upp undir hendur, ásamt treyju með löngum ermum.

Buxurnar voru festar upp með snæri og það notað líkt og belti. Einnig voru menn með klofband, sem var til þess að hægt væri að ná taki á mönnum ef þeir duttu í lendingu. Þar sem sjóklæðin voru svo sleip í sjó að ef ekkert klofband var til staðar var illmögulegt að ná taki á manni sem var útbyrðis.

Einnig voru menn með tvíþumla belgvettlinga úr ull. Og svo má ekki gleyma sjóhattinum.

Sumarið 2010 var Sandra Borg Bjarnadóttir, fatahönnunarnemi, fengin til þess að gera rannsóknir á skinnklæðum sem að safnverðir í Ósvör klæðast. Farið var á önnur söfn og klæði þar skoðuð til að öðlast þekkingu á gerð þeirra. Gert var snið að sjóklæðum og prufur saumaðar en svo gerð ný skinnklæði sem bentu til að væri með besta sniðinu samkvæmt niðurstöðu rannsóknanna á skinnklæðunum.

Framtíð sjóminjasafnsins Ósvör

Sjóminjasafnið í Ósvör hefur verið starfsrækt í núverandi mynd sl. þrjátíu ár og Bolungarvíkurkaupstaður hefur nú hannað nýbyggingu á þjónustuhúsi. 

Bryndís Elsa Guðjónsdóttir
Markaðs- og kynningarfulltrúi
Jóhann Hannibalsson
Safnvörður