Fara í efni

Útisvæði fyrir hreyfingu

Í Bolungarvík eru sérstök útisvæði fyrir hreyfingu. 

Heilsustígurinn í Bolungarvík

Heilsustígurinn er hluti af verkefninu „Betri Bolungarvík“, sem var samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna árið 2018. Í gegnum samfélagsmiðla lögðu íbúar fram tillögur að verkefnum, og heilsustígurinn hlaut flest atkvæði í íbúakosningu.

Verkefni af þessum toga eru stundum nefnd þátttökufjárhagsáætlun þar sem íbúarnir koma að ákvörðunum um sitt nánasta umhverfi.

Heilsustígurinn er skemmtileg göngu- og/eða hlaupaleið í kringum byggðina í Bolungarvík. Stígurinn er 4,3 km langur og býður upp á fimmtán æfingastöðvar sem reyna ýmist á styrk, liðleika og úthald.

Við hverja stöð eru skilti með leiðbeiningum um æfingarnar, sem eru flokkaðar eftir þremur litum:

  • Grænn: Styrkur
  • Gulur: Liðleiki og fimi
  • Rauður: Úthald

Heilsustígurinn er frábær leið til að efla lýðheilsu og njóta útivistar í fallegu umhverfi. 

Hreystivöllur

Hreystivöllurinn í Bolungarvík var formlega tekinn í notkun á 15 ára afmælishátíð Heislubæjarins Bolungarvík í september 2015.

Völlurinn er hannaður til að reyna á allan líkamann, með fjölbreyttum þrautum sem tveir notendur geta farið í gegnum samtímis. Röð þrauta og reglur eru útskýrðar á skiltum með myndrænum hætti, sem gerir auðveldara fyrir að nota völlinn.

Hreystivöllurinn var hannaður af Andrési Guðmundssyni kraftlyftingakappa, sem er þekktur fyrir að standa fyrir skólahreysti-keppnum í grunnskólum landsins.

Aldurstakmark á hreystivöllinn er 8 ára og þurfa yngri börn að vera í fylgd með fullorðnum.

Hreystivöllurinn er staðsettur við Grunnskóla Bolungarvíkur.

Frisbígolf

Opið allt árið og ókeypis aðgangur!

Haustið 2015 var opnaður 9 körfu völlur í Bernódusarlundi. Völlurinn er með tveimur teigum á hverri braut, sem býður upp á fjölbreytta spilun. Völlurinn er staðsettur í fallegu umhverfi með fjölbreyttum gróðri og trjám, sem gerir hann aðlaðandi fyrir bæði nýliða og lengra komna.

Hæðamunurinn á vellinum gerir hann krefjandi, þar sem kastað er bæði upp og niður halla. Á sumrin getur mikil lúpína verið á vellinum, svo gott er að fylgjast vel með ef diskurinn lendir í henni.

Hægt er að fá leigða diska í Íþróttamiðstöðinni Árbær (?) Fyrir frekari upplýsingar, hafðu samband í síma 456 7381 eða með tölvupósti á sundlaug@bolungarvik.is