Heilsustígurinn í Bolungarvík
Heilsustígurinn er hluti af verkefninu „Betri Bolungarvík“, sem var samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna árið 2018. Í gegnum samfélagsmiðla lögðu íbúar fram tillögur að verkefnum, og heilsustígurinn hlaut flest atkvæði í íbúakosningu.
Verkefni af þessum toga eru stundum nefnd þátttökufjárhagsáætlun þar sem íbúarnir koma að ákvörðunum um sitt nánasta umhverfi.
Heilsustígurinn er skemmtileg göngu- og/eða hlaupaleið í kringum byggðina í Bolungarvík. Stígurinn er 4,3 km langur og býður upp á fimmtán æfingastöðvar sem reyna ýmist á styrk, liðleika og úthald.
Við hverja stöð eru skilti með leiðbeiningum um æfingarnar, sem eru flokkaðar eftir þremur litum:
- Grænn: Styrkur
- Gulur: Liðleiki og fimi
- Rauður: Úthald
Heilsustígurinn er frábær leið til að efla lýðheilsu og njóta útivistar í fallegu umhverfi.



