Fara í efni

Farsæld barna

Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hafa tekið gildi á Íslandi. Þau tryggja að börn og foreldrar fái rétta þjónustu án tafa, þegar þörf er á. Lögin byggja á samvinnu fagfólks og skýrum verkferlum sem einfalda leiðina að stuðningi.

Markmiðið er að enginn falli á milli kerfa, raddir barna séu virtar og að hagsmunir barnsins séu ávallt í fyrirrúmi.

Samþætt þjónusta felur í sér að fagfólk, hvort sem það starfar í skólum, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu eða frístundastarfi, vinni saman að því að tryggja velferð barna. Þau bera sameiginlega ábyrgð á að fylgjast með aðstæðum og bregðast við þegar þörf krefur.

Foreldrar og börn geta leitað til tengiliða í skólum, heilsugæslu eða félagsþjónustu, og í flóknari málum veitir málstjóri samræmdan stuðning. Lögin einfalda þannig leiðina að þjónustu og tryggja að börn og fjölskyldur fái aðstoð sem hæfir aðstæðum þeirra – án þess að þurfa að ganga á milli kerfa.


Hagsmunir barnsins eiga alltaf að vera í forgrunni.

Þjónusta við börn er veitt á þremur stigum, eftir því hverjar þarfir þeirra eru. Þjónustan er stigskipt, ekki málið sjálft.

1. stig: Fyrsta stigs þjónusta. Grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum, s.s. leik-, grunn- og framhaldskólar og ungbarnavernd og önnur þjónusta heilsugæslu.

2. stig: Annars stigs þjónusta. Einstaklingsbundinn og markviss stuðningur, s.s. sérfræðiþjónusta skóla og stuðningsþjónusta félagsþjónustu.

3. stig: Þriðja stigs þjónusta. Sérhæfður stuðningur fyrir börn og fjölskyldur með flókinn og fjölþættan vanda. T.d. barnaverndarþjónusta og/eða vistun utan heimilis.

Markmiðið er að flest börn fái nægan stuðning snemma (á 1. stigi) svo ekki þurfi að grípa til umfangsmeiri aðgerða síðar.


Tengiliðir

Öll börn og foreldrar hafa aðgang að tengiliði farsældar í leik- grunn- og framhaldsskólum og hjá heilsugæslu. Tengiliðir hafa yfirsýn yfir þjónustkerfið og aðstoða börn og foreldra við að fá rétta þjónustu með því að leiðbeina þeim í gegnum ferlið. 
Tengiliðir meta þjónustuþörf, kallar saman viðeigandi aðila og tryggir að hagsmunir barnsins séu alltaf í forgrunni. 

Tengiliðir starfa í nærumhverfi barnsins, t.d. leik- eða grunnskóla, heilsugæslu eða félagsþjónustu. 

Ástrós Þóra ValsdóttirLeikskóli4567264astrosv@bolungarvik.is
Helga Jónsdóttir (í leyfi)Grunnskóli4567149/ 4567249helga@bolungarvik.is
Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir (afleysing)Grunnskóli4567149/ 4567249gudbjorg@bolungarvik.is
Helena Hrund JónsdóttirHeilsugæslan Hvest4504500helena@hvest.is
Aðalbjörg SigurjónsdóttirUngbanravernd Hvest4504500 
Erna Sigrún JónsdóttirMenntaskólinn á Ísafirði4504400erna@misa.is
Sigríður Hulda GuðbjörnsdóttirBolungarvíkurkaupstaður4507000/ 8625507siggahulda@bolungarvik.is

Málstjóri

Hlutverk málstjóra er að stýra samþættri þjónustu á öðru og þriðja stigi. Málstjóri er starfsmaður félagsþjónustu en vinnur náið með starfsfólki skóla, heilsugæslu og öðrum þjónustuveitendum barna.

Málstjóri veitir ráðgjöf, tryggir aðgang að mati og greiningu, og stýrir stuðningsteymi sem vinnur að samþættri þjónustu í þágu barnsins. Málstjóri hefur hagsmuni barnsins að leiðarljósi og vinnur náið með foreldrum og barninu að gerð og framkvæmd stuðningsáætlunar.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir
Málstjóri farsældar barna

Stuðningsteymi og stuðningsáæltun

Þegar þjónusta er veitt á öðru og þriðja stigi stofnar málstjóri stuðningsteymi þar sem í sitja fulltrúar þjónustuveitanda og foreldrar barnsins. Hlutverk stuðningsteymis er að samræma og samþætta þjónustu við barnið. Stuðningsteymið gerir skriflega stuðningsáætlun þar sem koma fram markmið með þjónustunni og hlutverk hvers þjónustuveitanda.