Óshlíð - 8km
Óshlíð er mjög brött hlíð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og heitir ysti hluti hennar Óshyrna. Árið 1949 var opnaður vegur um Óshlíð til Bolungarvíkur sem þá fyrst komst í vegasamband. Bolungarvíkurgöng komu árið 2010 í stað vegarins en honum hefur ekki verið haldið við síðan. Frá þeim tíma hefur Óshlíðin mikið verið stunduð sem útivistarsvæði.

Malbikaður vegurinn býður upp á hjólaleið, sem og hlaupa- og gönguleið sem er fær yfir sumarið. Leiðin er um 8 km og enginn teljandi hækkun er á leiðinni. Vegfarendur þurfa að sýna aðgát því mikið grjóthrun er úr hlíðinni fyrir ofan og eins hefur vegurinn látið mikið á sjá vegna ágangs sjávar og grjóthruns. Í Óshlíð ganga tvær dalskorur inn í fjallið, nefnist sú ytri Kálfadalur, en hin innri Seljadalur. Á leiðinni má sjá steinkross með áletruninni „Góður Guð verndi vegfarendur“, Óshólavita og Sjóminnjasafnið Ósvör.
Vegurinn um Óshlíð er aflagður vegur og þar gilda ekki ökutækjatryggingar. Vegurinn er einn af Ó-vegum landsins sem þykja ógreiðfærir og hættulegir og liggja um staði sem byrja á bókstafnum Ó. Ó-vegirnir eru þrír, vegurinn um Óshlíð, vegurinn um Ólafsvíkurenni á Snæfellsnesi og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla á Norðurlandi.
Í Óshyrnu er klettadrangurinn Þuríður en hann er kenndur við samnefndan landnámsmann og eru sögur af henni í 50. kafla Landnámu.