Fara í efni

Reglur Bolungarvíkurkaupstaðar um stuðningsþjónustu

Skv 25.-27. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 með síðari breytingum 

1. gr. 
Markmið 

Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa einstaklinga eða fjölskyldur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við heimilishald, athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi. 

2. gr.
Inntak stuðningsþjónustu

Stuðningsþjónusta er til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningþjónusta er veitt á grundvelli mats á stuðningsþörf í tiltekinn fjölda klukkustunda í viku eða mánuði. Ef stuðningsþörf er meiri en 15 klukkustundir á viku skal veita aukna þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. 

Í stuðningsþjónustu getur falist  

  • Aðstoð við heimilishald.
  • Stuðningur við athafnir daglegs lífs.
  • Aðstoð við að sækja sér þjónustu.
  • Stuðningur til að rjúfa félagslega einangrun.
  • Aðstoð við samfélagsþátttöku og virkni.
  • Heimsending matar.
  • Öryggisinnlit.  
  • Aðstoð við umönnun barna.
  • Félagslegur stuðningur við barn/börn umsækjenda.   

3. gr.
Skilyrði fyrir stuðningsþjónustu

Umsækjandi skal uppfylla öll eftirtalin skilyrði til að fá stuðningsþjónustu samkvæmt reglum þessum:  

  1. Að vera orðinn 18 ára.
  2. Að eiga lögheimili í Bolungarvík.
  3. Að búa í sjálfstæðri búsetu.
  4. Að vera metinn í þörf fyrir stuðningsþjónustu samkvæmt 5. gr í reglum þessum. 

Í þeim tilvikum sem umsækjandi deilir heimili með fullorðnum einstaklingi (þ.e. 18 ára og eldri) sem ekki glímir við skerta getu, er að öllu jöfnu ekki veitt aðstoð við heimilishald.  Ef þörf er á félagslegum stuðningi við barn þá sækja foreldrar eða forsjáraðilar um þann stuðning samkvæmt þessum reglum.  

4. gr. 
Umsóknir og fylgigögn

Sækja skal um stuðningsþjónustu á þar til gerðum eyðublöðum á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar. Félagsþjónustan getur óskað eftir fylgigögnum með umsókn, s.s. vottorði eða upplýsingum frá heilbrigðisþjónustu eða öðrum aðilum.  

5. gr.
Mat á stuðningsþörf

Við mat á stuðningsþörf skal horfa til heildaraðstæðna umsækjenda og skipulag daglegs lífs. Líta skal til eftirfarandi þátta: 

  1. Þörf umsækjanda fyrir stuðning.
  2. Félagslegar aðstæður umsækjanda.
  3. Færni og styrkleikar umsækjanda.
  4. Samfélagsþátttaka, valdefling og virkni umsækjanda.  

Stuðningsþörf skal metin samkvæmt eftirfarandi matslista: 

Færni og aðstæður

Stig
Færni við heimilishald (s.s. þrif, matseld, þvottur) 
Góð (0), lítillega skert (2), skert (4), mjög skert (6)
 
Færni við athafnir daglegs líf (s.s. persónulegt hreinlæti, klæðast, lyfjainntaka) 
Góð (0), lítillega skert (2), skert (4), mjög skert (6) 
 
Færni við að sækja sér þjónustu (s.s. læknisþjónustu) 
Góð (0), lítillega skert (2), skert (4), mjög skert (6)  
 
Stuðningur frá aðstandendum og tengslaneti  
Mikill (0), nokkur (2), lítill (4), mjög lítill (6) 
 
Samfélagsþátttaka og virkni (s.s. vinna, hæfing, tómstundir) 
Mikil (0), nokkur (2), lítil (4), mjög lítil (6) 
 
Félagsleg færni (s.s. eignast vini, félagslegt frumkvæði) 
Góð (0), lítillega skert (2), skert (4), mjög skert (6) 
 
Færni við heilsu og öryggi (s.s. forðast hættur, leita aðstoðar þegar þörf er á) 
Góð (0), lítillega skert (2), skert (4), mjög skert (6) 
 
Álag í heimilisaðstæðum (vegna umönnunar fjölskyldumeðlims) 
Ekkert (0), nokkurt (2), mikið (4), mjög mikið (6) 
 
Félagsleg staða barns umsækjenda (gefin stig fyrir hvert barn sem þarf stuðning) 
Góð (0), lítillega skert (2), skert (4), mjög skert (6) 
 
Samtals 

Viðmið um fjölda klukkustunda í mánuði í stuðningsþjónustu miðað við stigafjölda.  

StigStuðningsþörfKlukkustundir í mánuði
4-10Væg6-15
10-19Meðal15-25
20-29Mikil25-40
30-42Mjög mikil40-65

6 gr.
Svör við umsóknum

Ákvörðun um að veita þjónustu skal taka svo fljótt sem kostur er. Umsækjandi skal fá skriflegt svar um niðurstöðu þar sem einnig kemur fram niðurstaða mats á þjónustuþörf.  Sé ekki unnt að hefja þjónustu strax og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess og hvenær áætlað er að þjónustan verði veitt. Ákvörðun sveitarfélagsin um synjun umsóknar skal tilkynna umsækjanda skriflega og um leið skal honum kynntur réttur sinn og veitt nauðsynleg aðstoð og leiðbeiningar til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.

7. gr.
Stuðningsáætlun

Áður en stuðningur hefst skal gerð stuðningáætlun í samvinnu við þjónustuþega. Í stuðningsáætlun skal koma fram:

  1. Markmið þjónustuþega með stuðningi og hvernig honum skal náð
  2. Hvaða stuðning er um að ræða og hvernig hann skuli veittur
  3. Gildistími áætlunar og hvenær hún skuli endurmetin 

8. gr. 
Endurmat og breyttar aðstæður

Þegar færni eða aðstæður þjónustuþega breytast skal endurmeta stuðningsþörf.  

9. gr. 
Gjaldtaka og kostnaður

Greitt er fyrir stuðningsþjónustu samkvæmt gildandi gjaldskrá sem bæjarstjórn Bolungarvíkur setur. Gjald er innheimt fyrir aðstoð við þrif. Þjónustuþegar sem fá heimsendan mat greiða fyrir hráefniskostnað. 

Þjónustuþegi stuðningsþjónustu greiðir allan eigin kostnað vegna frístunda- og menningarþátttöku með stuðningsaðila. Bolungarvíkurkaupstaður endurgreiðir starfsmanni stuðningsþjónustu útlagðan kostnað vegna frístunda- og menningarþátttöku með þjónustuaðila upp að kr. 5.500 á mánuði og fyrir akstur að hámarki 150 km á mánuði.  

10. gr.
Trúnaður og varðveisla gagna

Starfsmenn Bolungarvíkurkaupstaðar eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Starfsmönnum er óheimilt að rjúfa trúnað nema að fengnu samþykki viðkomandi. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.  

Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 

11. gr.
Gildistími

Reglur þessar taka gildi 1. janúar 2023 og falla þá úr gildi eldri reglur um félagslega heimaþjónustu og liðveislu.  

Samþykkt í Velferðarráði Bolungarvíkur þann 29. nóvember 2022 

Samþykkt í Bæjarsstjórn Bolungarvíkur þann 13.. desember 2022