Fara í efni

Frístundastyrkur Bolungarvíkur

Hér eru birtar reglur um frístundastyrk frá Bolungarvíkurkaupstað.

1. Markmið

Markmið frístundastyrks Bolungarvíkur er að auka þátttöku barna og ungmenna í íþrótta-, lista-,
félags- og tómstundastarfi, efla heilsu þeirra, félagsfærni, vellíðan og virka þátttöku.

2. Hverjir eiga rétt á frístundastyrk?

Öll börn og ungmenni á aldrinum 0–18 ára sem eiga lögheimili í Bolungarvík geta nýtt frístundastyrk.
Miðað er við fæðingarár.

3. Gildistími

Frístundastyrkur gildir vegna útgjalda á almanaksári.
Beiðnir um endurgreiðslu þurfa að berast á sama ári og kostnaður fellur til og eigi síðar en 31. desember.
Endurgreiðslur eru ekki veittar eftir að ári lýkur.

4. Upphæð frístundastyrks

Hámarksfjárhæð frístundastyrks er 40.000 kr. á barn á ári.
Bæjarstjórn Bolungarvíkur ákveður upphæð og greiðslufyrirkomulag frístundastyrkja árlega.

5. Styrkhæf starfsemi

Frístundastyrkur er veittur vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta-, lista-, félags- eða tómstundastarfi, svo sem:

  • Íþróttastarf hjá viðurkenndum íþróttafélögum
  • Dans, tónlistarnám og aðrar listgreinar
  • Skipulögð námskeið sem miða að bættri heilsu, líðan, félagsfærni eða persónuþroska.

Starfsemi skal fara fram undir handleiðslu menntaðs þjálfara, leiðbeinanda eða kennara semgetur eftir þörfum lagt fram upplýsingar um starfsemi sína.
Einnig er ungmennum 16-18 ára heimilt er að nýta frístundastyrk til kaupa á 3–12 mánaða líkamsræktarkortum.
Ekki er heimilt að nota frístundastyrk til að greiða sérstakan viðbótarkostnað svo sem vegna leigu á aðstöðu eða kaup á tækjum og búnaði, fatnaði eða vegna ferðakostnaðar.

6. Umsókn og fylgigögn

Umsókn skal skilað rafrænt í gegnum vef Bolungarvíkurkaupstaðar.
Við umsókn um endurgreiðslu skal skila inn frumriti af kvittun fyrir þátttöku- eða námskeiðagjaldi og upplýsingum um starfsemina ef eftir því er óskað

7. Útborgun styrks

Bolungarvíkurkaupstaður áskilur sér rétt til að meta hvort kvittun sé fullgild og hvort starfsemi falli undir markmið samkvæmt 1 gr.
Mælst er til að umsóknum verði ekki skipt í fleiri en þrjár á ári, eða þar til hámarksupphæð er náð.
Sveitarfélagið heldur bókhald um úthlutun til hvers barns.

8. Gildistaka

Reglugerð þessi var samþykkt á fundi fræðslumál og æskulýðsráðs þann 4. Desember 2025.
Reglugerð þessi tekur gildi við samþykkt bæjarstjórnar í Bolungarvík og fellur þá eldri reglugerð
úr gildi