Samþykkt um hunda- og kattahald í Bolungarvíkurkaupstað
I. KAFLI
Hundahald.
1. gr.
Hundahald er heimilað í Bolungarvíkurkaupstað að fengnu leyfi og uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykkt þessari. Allir skráðir hundar skulu vera ábyrgðartryggðir.
2. gr.
Leyfi til hundahalds má veita lögráða einstaklingum, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
- Leyfið skal bundið við nafn og heimilisfang einstaklings og er óheimilt að framselja það.
- Leyfið er bundið við þann hund sem sótt er um leyfi fyrir.
- Verði breyting á dvalarstað leyfishafa, drepist hundurinn eða flytjist úr sveitarfélaginu, ber leyfishafa að tilkynna slíkt til skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar.
- Sækja skal um leyfi fyrir hvolpa áður en þeir verða 3ja mánaða gamlir.
- Hundar skulu færðir árlega til hreinsunar samkvæmt XV. kafla reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Þar skal lesið örmerki hundsins, ef það vantar skal setja nýtt merki í hundinn. Vottorð um fyrrgreinda hreinsun skal liggja fyrir við afgreiðslu árlegs leyfisgjalds.
- Hundur má aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Hundar skulu einnig vera í taumi utan þéttbýlis í nágrenni við sauðfé eða annan bústofn. Gæta skal þess að hundurinn valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna. Hundaeigendum er alltaf skylt að fjarlægja saur eftir hundinn.
- Óheimilt er að vera með fleiri en þrjá hunda á hverju lögheimili. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilfellum, svo sem ef hundar eru ræktaðir í atvinnuskyni.
- Ef sótt er um leyfi til að halda hund í fjölbýlishúsi, skal skriflegt samþykki allra íbúðareiganda í sama stigagangi fylgja umsókn. Sé um að ræða parhús eða raðhús skal fylgja umsókn samþykki aðliggjandi íbúða, sbr.lög nr. 26/1994.
- Hunda á lögbýlum skal skrá og skulu eigendur þeirra greiða skráningar- og eftirlitsgjald fyrir hvern hund. Að öðru leyti sætir hundahald í dreifbýli að öllu jöfnu ekki takmörkunum.
- Við skráningu skulu hundaeigendur undirrita yfirlýsingu um að þeir muni í einu og öllu fara með hunda sína eftir fyrirmælum samþykktar þessarar.
3. gr.
Sækja skal um leyfi til hundahalds á skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar á þar til gerðu eyðublaði. Skrifstofan gefur út umbeðið leyfi enda sé skilyrðum og ákvæðum samþykktar þessarar sem og lögum og reglugerðum fullnægt og fær eigandi númeraða plötu sem ávallt skal vera í ól um háls skráðra dýra þar sem fram kemur nafn og símanúmer eiganda dýrsins. Allir hundar skulu auk þess vera örmerktir og skráðir í gagnagrunn Dýraauðkennis, dyraaudkenni.is, eins og fram kemur í 11. grein reglugerðar nr. 80/2016.
4. gr.
Óheimilt er að hleypa hundum inn í húsrými og inn á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 með reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar, sjá þó ákvæði sömu greinar reglugerðarinnar um heimildir fatlaðs fólks með hjálparhunda. Einnig er óheimilt að hleypa hundum á staði þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli. Staðir samkvæmt framangreindu eru meðal annars vatnsveitur, vatnsból, verndarsvæði þeirra og brunnar, skólar, gæsluvellir og íþróttahús, kirkjur og söfn og gististaðir, veitingastaðir og matvælafyrirtæki.
5. gr.
Hundar sem ganga lausir utandyra skulu handsamaðir af hunda- og kattaeftirlitsmanni Bolungarvíkurkaupstaðar og færðir til geymslu. Sama gildir um hættulega og óleyfilega hunda. Gefi eigandi sig ekki fram eða vitji hans innan sjö sólarhringa hefur dýraeftirlit heimild til þess að ráðstafa eða fá dýralækni til að aflífa viðkomandi hund þegar í stað. Kostnaður við töku, geymslu og fóðrun skal að fullu greiddur af eiganda. Hættulegum hundum er heimilt að lóga þegar í stað og fer um lógun hunda skv. 15. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
II. KAFLI
Kattahald.
6. gr.
Kattahald er heimilað í Bolungarvíkurkaupstað að fengnu leyfi og uppfylltum þeim skilyrðum, sem sett eru í samþykkt þessari. Allir skráðir kettir skulu vera ábyrgðartryggðir.
7. gr.
Leyfi til kattahalds má veita lögráða einstaklingum, sem lögheimili eiga í sveitarfélaginu, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
- Leyfið skal bundið við nafn og heimilisfang einstaklings og er óheimilt að framselja það.
- Leyfið er bundið við þann kött sem sótt er um leyfi fyrir.
- Verði breyting á dvalarstað leyfishafa, drepist kötturinn eða flytjist úr sveitarfélaginu, ber leyfishafa að tilkynna slíkt til skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar.
- Sækja skal um leyfi fyrir kettlinga áður en þeir verða 3ja mánaða gamlir.
- Kattaeigendum ber að sjá til þess að högnar séu geltir og að læður séu gerðar ófrjóar eða hafðar á getnaðarvernapillu.
- Kettir skulu færðir árlega til hreinsunar til sveitarfélagsins samkvæmt XV. kafla reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti eftir nánar auglýstum tíma. Kettir skulu vera hreinsaðir af ormum svo og öðrum sníkjudýrum sem máli skipta. . Þar skal lesið örmerki kattarins, ef það vantar skal setja nýtt merki í köttinn. Vottorð um fyrrgreinda hreinsun skal liggja fyrir við afgreiðslu árlegs leyfisgjalds. Gjald vegna hreinsunar er innifalið í leyfisgjaldi vegna kattarins.
- Eigendur skulu láta skrá ketti sína á skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar og skulu allir heimiliskettir bera bjöllu og merkta hálsól, þar sem fram kemur nafn eiganda, heimilisfang og símanúmer. Á ólinni skal vera plata, sem í er grafið skráningarnúmer dýrsins. Kettir skulu einnig vera örmerktir
- Leyfishafa ber að sjá svo um að köttur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði eða raski ró manna.
- Óheimilt er að láta kött dvelja lengur en einn mánuð á heimili án þess að sótt sé um leyfi fyrir honum.
- Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en tvo ketti eldri en þriggja mánaða á sama heimilinu. Hægt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði í sérstökum tilfellum, svo sem ef kettir eru ræktaðir í atvinnuskyni.
- Eigendum og forráðamönnum katta ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma og eftir atvikum takmarka útiveru katta m.a. að næturlagi.
- Við skráningu skulu kattaeigendur undirrita yfirlýsingu um að þeir muni í einu og öllu fara með ketti sína eftir fyrirmælum samþykktar þessarar.
8. gr.
Sækja skal um leyfi til kattahalds á skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar á þar til gerðu eyðublaði. Skrifstofa gefur út umbeðið leyfi enda sé skilyrðum og ákvæðum samþykktar þessarar sem og lögum og reglugerðum fullnægt og fær eigandi númeraða plötu sem ávallt skal vera í ól um háls dýrsins.
9. gr.
Óheimilt er að hleypa köttum inn í húsrými og inn á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 með reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar. Einnig er óheimilt að hleypa köttum á staði þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli. Staðir samkvæmt framangreindu eru meðal annars vatnsveitur, vatnsból, verndarsvæði þeirra og brunnar, skólar, gæsluvellir og íþróttahús, kirkjur og söfn og gististaðir, veitingastaðir og matvæla- fyrirtæki.
10. gr.
Hunda- og kattaeftirlitsmanni Bolungarvíkurkaupstaðar er heimilt að handsama ketti sem ganga lausir utandyra og færa til geymslu. Gefi eigandi sig ekki fram eða vitji hans innan sjö sólarhringa hefur dýraeftirlit heimild til þess að ráðstafa eða fá dýralækni til að aflífa viðkomandi kött þegar í stað. Kostnaður við töku, geymslu og fóðrun skal að fullu greiddur af eiganda. Hættulegum köttum og flækingsköttum er heimilt að lóga þegar í stað og fer um lógun katta skv. 15. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra.
III. KAFLI
Eftirlit.
11. gr.
Heilbrigðisnefnd Vestfjarða hefur eftirlit með samþykkt þessari.
Bæjarstjórn tilnefnir hunda- og kattaeftirlitsmann sem fyrir hennar hönd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum samþykktar þessarar í umboði heilbrigðisnefndar Vestfjarða. Heimilt er að skipa fleiri en einn aðila til verksins og setur bæjarstjórn honum nánari starfsreglur. Hunda- og kattaeftirlitsmaður starfar í umboði heilbrigðisnefndar og hefur eftirlit með hunda- og kattahaldi í Bolungarvíkurkaupstað og getur leitað aðstoðar lögregluyfirvalda þegar þess er þörf.
Hunda- og kattaeftirlitsmaður skal gera skriflega skýrslu um þau dýr sem hann þarf að hafa afskipti af og skrá yfir leyfða hunda og ketti í sveitarfélaginu. Skýrslunum skal árlega skila til heilbrigðisnefndar Vestfjarða og umhverfismálaráðs Bolungarvíkur. Á skrifstofu sveitarfélagsins skal færa upplýsingar um skráða hunda og ketti í dreifbýli í þar til gerða bók. Þar skal einnig skrá nafn og heimilisfang leyfishafa.
IV. KAFLI
Gjaldtaka.
12.gr.
Bæjarstjórn skal, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar Vestfjarða, setja gjaldskrá vegna eftirlits með hundum og köttum í samræmi við ákvæði 4. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í gjaldskránni skal kveðið á um gjald til sveitarsjóðs vegna útgáfu og endurnýjunar leyfis til hunda- og kattahalds. Gjaldið skal greitt fyrirfram í fyrsta sinn við skráningu dýrsins til næsta maímánaðar og síðan árlega 1. maí fyrir eitt ár í senn. Hafi gjaldið ekki verið greitt innan tveggja mánaða frá gjalddaga fellur leyfið til hunda- eða kattahalds sjálfkrafa úr gildi. Í gjaldskránni skal einnig kveðið á um greiðslu eigenda hunda og katta á kostnaði vegna annarra gjaldaliða sem leiða af samþykkt þessari. Sveitarstjórn skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Sveitarstjórn er heimilt að fella niður eða ákveða lægra gjald fyrir nytjahunda, svo sem hunda sem notaðir eru til löggæslu eða björgunarstarfa og minkahunda. Af leiðsöguhundum sem blindir eða sjóndaprir nota vegna fötlunar sinnar skal ekki greiða gjald.
V. KAFLI
Málsmeðferð og gildistaka.
13. gr.
Við minni háttar brot á samþykkt þessari skal eigandi dýrsins sæta skriflegri áminningu og greiða allan kostnað er leiðir af brotinu. Ef um ítrekað eða meiri háttar brot er að ræða gegn ákvæðum þessarar samþykktar eða öðrum reglum sem um hunda- eða kattahald gilda getur bæjarstjórn afturkallað leyfið. Skal leyfishafi þá afhenda dýrið dýraeftirlitsmanni. Einnig getur bæjarstjórn afturkallað öll leyfi til hunda- eða kattahalds telji hún þess brýna þörf. Leyfishafa ber ætíð að greiða kostnað sem leiðir af broti á samþykkt þessari.
14. gr.
Sinni leyfishafi samkvæmt samþykkt þessari ekki skriflegri áminningu eða brjóti endurtekið af sér er heilbrigðisnefnd Vestfjarða heimilt að beita hann dagsektum þar til úr er bætt eða öðrum þvingunarúrræðum í samræmi við ákvæði VI. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunar- varnir. Leyfishafa ber ætíð að greiða kostnað er til fellur vegna brota hans á samþykkt þessari. Með brot á samþykkt þessari skal fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
15. gr.
Framangreind samþykkt bæjarstjórnar Bolungarvíkurkaupstaðar staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, til þess að öðlast þegar gildi.