Gönguleiðir
Gönguleiðir í Bolungarvík og nágrenni.
- Bolungarvík - gönguleiðir - walking paths (22 MB) kort frá Heilsubænum Bolungarvík
- Örnefnaskrá
- Kortavefur map.is
- Bolungarvík á ja.is
Bolafjall
Á leiðinni til Skálavíkur er akvegur upp á Bolafjall sem er opinn almenningi í júlí og ágúst en er annars lokaður. Vegurinn er nokkuð brattur. Þá er einnig vinsælt að ganga upp á fjallið eftir veginum, sérstaklega þegar vegurinn er lokaður, og tekur sú ganga um einn og hálfan tíma.
Ernir
Uppganga á fjallið er frá Miðdal í Syðridal. Hægt er að leggja við Flatirnar og ganga þaðan áleiðis upp í Veturlöndin og þaðan upp á fjallið. Útsýni af fjallinu er ægifagurt enda blasir þá Bolungarvík við! Vegalengdin er ekki löng en hæðarmunur mikill þar sem fjallið er tæpir 700 metrar á hæð. Áætlaður göngutími er um 4 tímar.
Gilsbrekkuskarð
Gilsbrekkuskarð er í botni Syðridals en skarðið sést ekki frá vegi. Um leið og komið er upp á Gilsbrekkurnar blasir skarðið við. Leiðin var alfaraleið milli Bolungarvíkur og Súgandafjarðar. Áætlaður göngutími er um 4 klukkustundir.
Heiðarskarð
Heiðarskarð er gömul alfaraleið bak við fjöllin milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Gangan hefst við virkjunarhús Reiðhjallavirkjunar en þaðan liggur gamall vegslóði upp að miðlunarlóni Reiðhjallavirkjunar. Einnig liggja aðrir vegspottar yfir Kistufell að Botnsheiði og eins upp í Heiðarskarð frá Reiðhjallavirkjun. Hægt er að halda áfram frá Heiðarskarði og niður Hnífsdal að mestu leyti á gömlum vegslóða. Neðan Heiðarskarðs þarf að stilkla á steinum yfir Hnífsdalsá sem er þægilegast rétt ofan gamla vatnsbólsins. Áætlaður tími er um tvær og hálf klukkustund.
Óshólahvilft
Best er að ganga upp í hvilftina frá munna Bolungarvíkurganga. Gengið er upp fyrir munna ganganna og þaðan nánast beint upp í skálina. Áætlaður göngutími er um 80 mínútur.
Óshólar
Ofantil við Óshólavita er gamall vegur sem er gaman að ganga upp, en sú ganga er létt og tekur u.þ.b. 15. mín. Uppi er lítil flöt þar sem gott er að setjast niður, virða fyrir sér undur veraldar, bláan himin, opið haf og fjallahringinn sem umlykur Bolungarvík og gætir Bolvíkinga. Frábær íhugunarstaður, kallast Óshólar á Wapp-Walking smáforritinu.
Skálavík
Skálavík er í um 15 mínútna akstursleið frá Bolungarvík. Þar var áður fyrr búið en nú eru þar einungis sumarbyggð. Þangað er gaman að aka og ganga fjöruna fyrir opnu hafi. Hægt er að ganga þaðan fjallaleið að Galtarvita.
Surtarbrandsnáma í Syðridal
Gangan hefst við brúna fyrir Gilsá í Syðridal eftir stikaðir gönguleið upp að námunni. Áætlaður göngutími er um ein klukkustund.
Tunguhorn
Besta leiðin upp á Tunguhorn er að ganga inn Tungudal, upp í Gönguskarð og þaðan út á Fjallið. Áætlaður göngutími er um 4-5 klukkutímar.
Traðarhyrna
Besta gönguleiðin upp á Traðarhyrnu er frá vestari enda snjóflóðavarnargarðsins og upp í Bolla. Þaðan er haldið upp gilið milli Traðarhyrnu og Bolafjalls. Nokkuð bratt er úr skarðinu og upp á topp fjallsins en vel fært flestum göngumönnum. Áætlaður göngutími er um 4 tímar. Á Wapp-Walking app er auðveldari leið þar sem aka má upp á Bolafjall og ganga þaðan út á Traðarhyrnu.
Upsir í Traðarhyrnu
Bílnum lagt nyrst í bænum, troðningur er upp á öxl Traðarhyrnu og varða með stöng á áfangastað, tekur um 20 mínútur að ganga. Frábært útsýni yfir Ísafjarðardjúpið og á haf út. Kallast Ufsir á Wapp-Walking app.