• Sjomannadagurinn-Bolungarvik

Vörður

Hér eru birtar vörður í sögu Sjómannadags Bolungarvíkur.

Kristján Þórðar Kristjánsson

1938 Þann 6. júní er sjómannadagurinn fyrst haldinn hátíðlegur á Íslandi. 

1938 Kristján Þórðar Kristjánsson og Óskar Halldórsson eiga frumkvæði að sjómannadegi í Bolungarvík. 

1938 Tólf bolvískir sjómenn koma saman á heimili Gísla Hjaltasonar til þess að ræða stofnun Sjómannadags Bolungarvíkur. Þeirra á meðal eru Kristján og Óskar. 

Óskar Halldórsson

1938 Gísli Hjaltason kosinn fyrsti formaður sjómannadagsnefndar. 

1939 Þann 29. maí er Sjómannadagur Bolungarvíkur fyrst haldinn hátíðlegur á öðrum degi hvítasunnu.

1939 Sjómenn ganga fylktu liði til Hólskirkju til fyrstu sjómannadagsmessunnar. Skrúðgangan, eða hópgangan eins og hún kallast framan af, guðsþjónustan og minning sjómanna í Grundarhólskirkjugarði eru einu „atriðin“ í dagskrá sem hafa alltaf verið á sjómannadag og aldrei fallið niður. 

1939 Kvöldskemmtun þar sem Karlakór Bolungarvíkur syngur í Stúkuhúsinu.

1939 Stiginn dans fram undir morgun í Stúkuhúsinu.

1939 Jón Halldórsson kosinn formaður. 

1941 Þann 30. janúar ferst mb. Baldur ÍS 6 frá Bolungarvík og með honum fjórir menn. Þar á meðal Óskar Halldórsson, annar tveggja forvígismanna sjómannadagsins. 

Sjómannadagur 1941-1944, hvítu kollarnir eru karlakór1941 Útiskemmtun haldin í fyrsta sinn. 

1941 Kappróður fer fram í fyrsta sinn, keppa formenn og hásetar, róa á tveimur fjögramannaförum, en þar eð bátarnir voru ekki nákvæmlega jafn stórir, þá róa liðin tvisvar, þannig að bæði liðin róa báðum bátunum, og síðan er tekið meðaltal af tíma þeirra, reyndist tími þeirra svo jafn að hvorugum er dæmdur sigur.

1941 Stakkasund þreytt í fyrsta skipti, syntir eru 45 metrar, sex þátttakendur, Bergur Kristjánsson vinnur. 

Reiptog1941 Reiptog þreytt í fyrsta sinn, formenn og hásetar keppa, hásetar vinna. 

1941 Kappbeiting fer fram í fyrsta sinn á sjómannadag og eru þrettán keppendur, Halldór G. Halldórsson vinnur á 08:35:00 mínútum og stendur tími hans til 1956. Fyrsta kappbeitingarmót sem haldið var í Bolungarvík fór fram 17. nóvember 1927 og stóð sjómannafélagið Röst fyrir mótinu. 

1941 Afhending verðlauna fer fram í fyrsta sinn. 

1941 Bjarni Eiríksson og Einar Guðfinnsson gefa Kappróðrarvitann og Lóðarbalann, verðlaunagripi úr silfri. 

1942 Minnisvarði um mb. Baldur afhjúpaður á sjómannadaginn í Grundarhólskirkjugarði. Hjónin Þorsteina Guðmundsdóttir og Pétur Ólafsson standa að minnisvarðanum. Sú hefð kemst á að leggja blómsveig að minnisvarðanum á sjómannadag. 

1942 Kristján Þórðar Kristjánsson kosinn formaður. 

Komið úr hátíðarsiglingu1945 Þann 2. apríl funda sjómenn í barnaskólanum og stofna félag um sjómannadaginn í Bolungarvík, fram að því hafði sjómannadagsnefnd verið kosin árlega til að sjá um sjómannadaginn og helst það fyrirkomulag áfram eftir stofnun félagsins. Félagið heitir Sjómannadagurinn í Bolungarvík. 

1945 Bernódus Halldórsson kosinn formaður.

1946 Hálfdán Einarsson kosinn formaður.

Fjórrónir kappróðrarbátar Jakobs Falssonar1948 Verzlun E. Guðfinnssonar lætur smíða róðrarbáta og gefur Sjómannadegi Bolungarvíkur á 50 ára afmæli Einars Guðfinnssonar. Fjórrónir bátar með stýrimanni, heita Ægir og Rán, smiður er Jakob Falsson. 

1948 Sjómannadagur Bolungarvíkur gefur fé í byggingarsjóð félagsheimilisins gegn því að fá til afnota sjómannastofu í væntanlegri byggingu. 

1948 Hálfdán Einarsson tekur sæti í stjórn félagsheimilisins sem fulltrúi Sjómannadagsins í Bolungarvík. 

1949 Kristján G. Jensson kosinn formaður. 

Naglaboðhlaup1950 Kristján Þórðar Kristjánsson stendur fyrir sjóvinnunámskeiðum í Bolungarvík sem voru vel sótt, bæði af eldri og yngri sjómönnum. 

1951 Kristján Fr. Kristjánsson kosinn formaður. 

Stjórn Sjómannadags Bolungarvíkur til margra ára: Jón Elíasson, Geir Guðmundsson, og Sigurjón Sveinbjörnsson, málverk Guðmundar frá Miðdal í baksýn.

1952 Geir Guðmundsson kosinn formaður.

1952 Félagsheimili Bolungarvíkur vígt. 

1953 Morgunblaðið gefur bikar fyrir kappróður kvenna. 

1954 Þann 13. júní eru bolvískir sjómenn fyrst heiðraðir í Félagsheimili Bolungarvíkur, þrír eru heiðraðir, Benjamín Eiríksson annast heiðrunina.

Ásgeir Guðmundsson vann Lóðarbalann til eignar 1954.1954 Ásgeir Guðmundsson vinnur Lóðarbalann til eignar með því að vinna þrjú beitningamót í röð og fimm alls. 

1955 Þórður Hjaltason annast heiðrun sjómanna. 

1956 Bjarni Eiríksson og Einar Guðfinnsson gefa verðlaunabikar fyrir kappbeitingu. 

1956 Sjómannastofan tekur til starfa, eða Lesstofa sjómanna eins og hún heitir á bréfsefni. Í bréfi sem Geir Guðmundsson ritar 8. mars 1968 segir að Lesstofa sjómanna hafi verið rekin síðastliðin 12 ár. Í síðari skrifum notar Geir árið 1959 sem upphafsár, samanber umfjöllun um Lesstofu sjómanna í Sjómannablaðinu Víkingi, s. 43, 2. tbl. 41. árg. 1979. Ofangreint bréf Geirs, hönnun merkis Sjómannastofunnar og bókagjöf sem sagt er frá hér á eftir benda til þess að 1956 sé nærri lagi. Þá eru varðveitt drög að samningi um smíði á innréttingu fyrir Sjómannadaginn í Bolungarvík samkvæmt teikningu og verklýsingu Sveins Kjarvals, arkitekts, og á verkinu að vera lokið 1. apríl 1959. 

1956 Sigurjón Sveinbjörnsson vinnur beitningakeppnina á 08:34:70 mínútum og metið frá 1941 fellur.

1957 Merki Sjómannastofunnar teiknað af Stefáni Jónssyni á Teiknistofu Stefáns Jónssonar. 

1957 Þann 20. maí ánafnar Sigurborg Kristjánsdóttir Sjómannastofunni bókasafn sitt sem verður uppistaðan í bókasafni Sjómannastofunnar. 

1959 Guðmundur Einarsson frá Miðdal gefur Sjómannastofunni styttu af sjómanni með lúðu á bakinu. 

Málverk Guðmundar Einarssonar frá Miðdal1960 Íshúsfélag Bolungarvíkur gefur Sjómannastofunni málverk af Bolungarvík eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. 

1960 Íshúsfélag Bolungarvíkur gefur silfurbikar fyrir kappróður karla eða „allar þær sveitir, einstaklinga og fyrirtækja, er um hann vilja keppa“, en þá er átt við þá karla sem ekki eru sjómenn.

1962 Guðmundur Kristjánsson flytur erindi á fundi Lionsklúbbs Bolungarvíkur þar sem hann kynnir hugmynd um minnismerki bolvískra sjómanna. 

1962 Keppt í hanahoppi.

1963 Þann 13. apríl er almennur fundur sjómanna í Bolungarvík og einróma samþykkt að styðja við byggingu minnismerkis bolvískra sjómanna. 

1965 Karamelluát fer fram á sjómannadaginn milli nokkurra skipstjóra, Hálfdán Einarsson og Finnbogi Jakobsson eru jafnir. 

1969 30 ára afmæli Sjómannadags Bolungarvíkur. 

1969 Benjamín Eiríksson fær afhent kvæðasafn Stephans G. Stepanssonar frá Sjómannadegi Bolungarvíkur en Benjamín hafði annast heiðrun allra sjómanna utan ársins 1955. 

1969 Geir Guðmundsson annast heiðrun sjómanna. 

1969 Örnólfur Grétar Hálfdánarson sæmdur afreksbjörgunarverðlaunum Sjómannadagsins 1969 í Laugardal í Reykjavík.

1969 Sjómannadagsballið sagt vera fjölmennasti dansleikur ársins í Bolungarvík. 

1969 Ríkið byrjar að styrkja Sjómannastofuna í formi byggingar- og bókastyrks. 

1970 Sjómannadagur Bolungarvíkur kynnir hreppsnefnd Hólshrepps það álit bolvískra sjómanna að fyrirhugaðan fiskiðnaðarskóla á vegum ríkisins ætti að reisa í Bolungarvík. 

1970 Sr. Þorbergur Kristjánsson leitar til Sjómannadagsins í Bolungarvík fyrir hönd stjórnar Kirkjubyggingarsjóðs Bolungarvíkur um styrk til byggingar nýrrar kirkju í Bolungarvík. 

1972 Geir Guðmundssyni fært málverk að gjöf á kvöldskemmtun sjómannadagsins og þökkuð störf síðastliðin 20 ár. 

1972 Ríkið byrjar að veita Sjómannastofunni rekstrarstyrki. 

Reiptog á Félagsheimilistúninu1973 Gúmmíbáti kastað í sjóinn og hann blásinn út og sýnt það sem slíkum bátum fylgir. 

1973 Gúmmíbátur með utanborðsvél sýndur. 

1973 Belgjaslagur fer fram í fyrsta sinn. 

1974 Sjávarútvegsráðherra skipar nefnd til að semja frumvarp til laga um þátttöku ríkissjóðs í stofnun og rekstri sjómannastofa. 

Ósvör í Lambhaga1974 Lionsklúbbur Bolungarvíkur samþykkir að gangast fyrir því að byggð verði verbúð í gömlum stíl sem líkust því er gömlu verðbúðirnar voru að ytra og innra útliti. Jafnframt því verði þar komið fyrir munum þannig að verðbúðin verði um leið eins konar sjóminjasafn er varðveiti gamlar minjar um líf og starf bolvískra sjómanna. Verðbúðin verði jafnframt minnismerki um bolvíska sjómenn en ekki hafði orðið að byggingu minnismerkis sjómanna í Bolungarvík. Lionsklúbburinn kýs sérstaka nefnd, verðbúðar- og minnisvarðanefnd, til að annast þetta mál. 

1974 Sjómannadagsráð Bolungarvíkur stofnað 3. júlí hjá Embætti ríkisskattsjóra. Félagið fær síðar kennitöluna 430774-0349. Félaginu var slitið í mars 2020 í tengslum við kröfu um skráningu raunverulegra eigenda hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. 

1976 Nefnd á vegum Ungmennafélags Bolungarvíkur leitar eftir styrk frá Sjómannadeginum í Bolungarvík vegna kaupa og uppsetningar nýrrar skíðalyftu. 

1976 Lionsklúbbur Bolungarvíkur leitar til Sjómannadagsins í Bolungarvík um þátttöku í nefnd félaga sem ætlað er að flýta byggingu dagheimilis milli Hjallastrætis og Hlíðarstrætis.

1976 Björgunarsveitin sýnir ýmis tæki og notkun þeirra. 

1976 Sjómannadagur Bolungarvíkur fær bréf frá Trefjaplasti hf. á Blönduósi sem er tilboð um kaup á sexrónum kappróðrarbátum. Í tilboðinu kemur fram að slíkir bátar hafi verið notaðar í Vestmannaeyjum og á Húsavík á sjómannadag 1976. Fjórrónir bátar Verzlunar E. Guðfinnssonar eru áfram í notkun næstu árin. 

1977 Þann 30. janúar er Sundlaug Bolungarvíkur á vegum Bolungarvíkurkaupstaðar opnuð. 

1978 Stefán Jónsson, Teiknistofunni Höfða, gerir hátíðarfána Sjómannadags Bolungarvíkur. 

1978 Hátíðarhöldin hefjast á siglingu með börn til móts við skip frá Ísafirði, áður byrjuðu hátíðarhöldin ávallt á hópgöngu til Hólskirkju. 

1978 Nýr fáni Sjómannadags Bolungarvíkur borinn í hópgöngunni til Hólskirkju. 

1978 Knattspyrnuleikur fer fram milli togarasjómanna og bátasjómanna. 

1978 Byggingarnefnd fyrir aldraðra á vegum Bolungarvíkurkaupstaðar óskar eftir aðkomu Sjómannadags Bolungarvíkur að byggingu sex íbúða fyrir aldraða með möguleika á eignaraðild. 

1979 40 ára afmæli Sjómannadags Bolungarvíkur. 

1979 Kvennadeild Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Bolungarvík heldur sitt fyrsta fjáröflunarkaffi á sjómannadag. Sjómannadagskaffið hefur verið haldið af deildinni síðan utan ársins 1981. Áður höfðu sjómannskonur staðið fyrir sjómannadagskaffi í einhvern tíma. 

1980 Hátíðarhöldin hefjast með siglingu á laugardegi en önnur dagskráratriði eru áfram á sjómannadegi. 

1982 Síðasta sinn sem keppt er á bátunum sem Verslun E. Guðfinnssonar gaf í tilefni af 50 ára afmæli Einars Guðfinnssonar. 

1982 Markúsaranet sýnt hátíðargestum. 

Kappróður á nýju trefjaplastbátunum1983 Fyrsta sinn sem keppt er á sexrónum kappróðrarbátum úr trefjaplasti sem framleiddir voru af Trefjaplasti hf. á Blönduósi, bátarnir heita áfram Ægir og Rán. 

1984 Kappbeiting fer fram en þá hafði það atriði legið niðri í nokkur ár. 

1985 Þyrla Landhelgisgæslu Íslands kemur, sýnir björgun og var almenningi til sýnis. 

1986 Drengur leggur í fyrsta skipti blómsveig að minnisvarða sjómanna, áður höfðu eingöngu stúlkur gert það. 

1987 Alþingi setur lög um sjómannadag nr. 20/1987 um að árlega skuli haldinn sjómannadagur, almennur frídagur sjómanna sem jafnframt skuli vera almennur fánadagur á Íslandi.

Ölver í Ósvör við tökur á Verstöðinni Ísland 1991. Mynd Geir Guðmundsson. 1987 Verbúðin sem reist var við Lambhaga endurreist í Ósvör. 

1988 Þann 4. júní, laugardag fyrir sjómannadag, er sjóminjasafn í Turnhúsinu á Ísafirði vígt. 

1989 50 ára afmæli Sjómannadags Bolungarvíkur.

1989 Sexæringurinn Ölver siglir á Víkinni laugardaginn fyrir sjómannadag. 

1989 Hátíðarsigling með varðskipinu Tý laugardaginn fyrir sjómannadag.

1989 Heiðrun sjómanna fer í fyrsta skipti fram í Hólskirkju.

1989 Guðmundur Jakobsson smíðar og gefur Sjómannadegi Bolungarvíkur fánastangir. 

1991 Sjómannadagur Bolungarvíkur færir Geir Guðmundssyni ágrafinn stein í tilefni af sextugsafmæli hans. 

1991 Nýtt magnarakerfi sem félagasamtök sameinuðust um að kaupa tekið í notkun. 

1993 Ungir menn sýna keyrslu snjósleða á tjörn við hesthús. 

1994 Kvöldskemmtun fer ekki fram. 

1995 Hátíðarsigling með varðskipinu Óðni. 

1996 Þann 2. júní eru Minningaröldur sjómannadagsins vígðar í Fossvogskirkjugarði.

1996 Hátíðarsigling fellur niður þar sem ekkert skip fæst í hana og almennt er dræm þátttaka í hátíðarhöldum. 

1997 Hátíðarsigling fellur niður. 

1998 Netagerð Vestfjarða gefur Sjómannadegi Bolungarvíkur tvískorna talíu fyrir kappróðrarbátana. 

1998 Hátíðarsigling fellur niður. 

1999 60 ára afmæli Sjómannadags Bolungarvíkur. 

1999 Hátíðarsigling með varðskipinu Tý. 

1999 Við kappróður er engin sveit frá sjómönnum en af fimm sveitum eru þrjár kvennasveitir. 

1999 Elías Ketilsson sýnir þróun handfæra síðastliðin 50 ár. 

1999 Límmiðar seldir sem á stendur Sjómannadagurinn í Bolungarvík 60 ára. 

2000 Hátíðarsigling og dansleikur falla niður. 

2001 Hátíðarsigling og dansleikur falla niður. 

2001 Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, er viðstaddur hátíðarhöldin.

2002 Í bréfi til bæjarráðs Bolungarvíkur lýsir Sjómannadagur Bolungarvíkur sig andvígan öllum breytingum á efri hæð Félagsheimilis Bolungarvíkur þar sem áætlað er að taka herbergi aðildarfélaganna undir sal og snyrtiaðstöðu. 

2002 Aðeins tvö atriði eru á dagskrá Sjómannadags Bolungarvíkur; hópganga til kirkju og minning sjómanna í Grundarhólskirkjugarði og; útiskemmtun við höfnina. 

2003 Síðasta árið sem Geir Guðmundsson kemur að Sjómannadegi Bolungarvíkur eða 51. ár hans sem formaður. 

2003 Um vorið eru liðin 100 ár frá því að Stanley, fyrsti vélbáturinn á Íslandi, hóf róðra frá Bolungarvík og af því tilefni er hvatt til hátíðarsiglingar sem tókst vel. 

Sjóarahátíð 20032003 Sjóarahátíð Bolungarvíkur haldin, sérstök hátíð til viðbótar við hefðbundna hátíðardagskrá Sjómannadagsins. Hefst á fimmtudegi og lýkur á sjómannadegi, hátíðarkvöldverður og dansleikur á laugardegi en útiskemmtunin áfram á sjómannadaginn. Nýstofnað fyrirtæki í eigu kvenna, YSJA, stendur að hátíðinni í samvinnu við menningarráð Bolungarvíkur, Finnabæ, Náttúrustofu Vestfjarða, sjómenn og fleiri aðila.

2003 Minningarskjöldur um Stanley afhjúpaður við höfnina. 

2003 Geir Guðmundsson les upp orðsendingu frá stjórn Sjómannadags Bolungarvíkur um að 2003 verði síðasti sjómannadagurinn sem stjórnin komi að. 

2003 Sýning á veiðarfærum sem notuð hafa verið í Bolungarvík.

2003 Ljósmyndasýning og -samkeppni sjómanna á hafi úti.

2003 Söngvarakeppni 9-12 ára barna, sjómannalög eingöngu.

2003 Kajakleiga við Syðridalsvatn.

2003 Engin sveit kemur frá sjómönnum í kappróðurinn, fjórar kvennasveitir kepptu og tvær karlasveitir. 

2003 Þann 18. október er vígður minnisvarði um horfna, látna og drukknaða í Grundarhólskirkjugarði. Við minnisvarðann er fjörugrjót sem raðað er í kross og á steinana má grafa nöfn þeirra sem horfið hafa og hvíla í fjarlægð, í votri gröf eða annars staðar. Listaverk eftir Elísabetu Haraldsdóttur prýðir minnisvarðann. Minnisvarðinn er gefinn til minningar um Guðfinn Einarsson útgerðarmann, gefendur eru ekkja hans, María Haraldsdóttir, og börn þeirra.

2004 Geir Guðmundsson gerir skrá yfir eignir Sjómannadags Bolungarvíkur og skilar inn gögnum til bæjarskrifstofu.

2004 Undirbúningshópur stofnaður með tveim fulltrúum Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur, tveim fulltrúum slysavarnarstarfsseminnar og tveim frá smábátafélaginu Hörpu. Yfirhafnarvörður, Ólafur Svanur Gestsson, er skipaður fyrir hópnum og með því má segja að Bolungarvíkurkaupstaður hafi tekið við umsjón með sjómannadeginum. 

2004 Sjóarahátíð Bolungarvíkur. Útiskemmtunin færð yfir á laugardaginn fyrir sjómannadag í fyrsta sinn. Á sjálfan sjómannadag er skrúðgangan, guðsþjónustan, heiðrun sjómanna, minning sjómanna í Grundarhólsgarði og kaffisamsæti Kvennadeildar Landsbjargar.

2004 Hátíðarmessan færð til kl. 14:00 á sjómannadag en hafði áður ávallt verið kl. 11:00.

2004 Varðskipið Ægir er viðstatt hátíðarhöldin og fer í hátíðarsiglingu á laugardag fyrir sjómannadag. 

2005 Fiskasýning við höfnina. 

2005 Þyrla Landhelgisgæslu Íslands sýnir björgunaræfingar. 

2005 Dansleikur með Brimkló sem sagt er vera ball aldarinnar. 

2006 Bergur Karlsson heldur utan um sjómannadaginn. 

2006 Ball aldarinnar endurtekið með Brimkló og boðið upp á fríar sætaferðir frá Ísafirði, Súðavík, Suðureyri og Flateyri. 

2007 Sjóarahátíð í Bolungarvík. 

2007 Sigurður Hjartarson annast heiðrun. 

2008 Sjóarahátíð í Bolungarvík.

Þorlákur fer í hátíðarsiglingu 2009. Mynd: Bjarni Benediktsson.2009 Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir heldur utan um sjómannadaginn og einnig árið á eftir. 

Þorskurinn í Einarshúsi2009 Þorskurinn á Einarhúsi fyrst haldinn í tengslum við sjómannadaginn.

Finnbogi Bernódusson í Ósvör 2010. Mynd: Ágúst Atlason.2010 TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar í heimsókn.

2011 Þann 15. janúar er Félagsheimili Bolungarvíkur opnað á ný eftir miklar breytingar og endurnýjun. Framkvæmdir höfðu staðið yfir í nokkur ár með hléum. Formlega má segja að þá hafi Sjómannastofunni verið lokið.

2011 Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir annast heiðrun. 

2012 Lisbet Harðardóttir heldur utan um sjómannadaginn. 

2013 Gústaf Gústafsson heldur utan um sjómannadaginn. 

Nýtt merki Sjómannadagsins hannað 2013.

2013 Nýtt merki Sjómannadags Bolungarvíkur hannað.

2013 Varðskipið Þór leiðir hátíðarsiglingu. 

2013 Menningar- og ferðamálaráð Bolungarvíkur og Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur veita Landhelgisgæslu Íslands heiðursviðurkenningu.

2013 Hugprúði Bolvíkingurinn, leikrit um Bjarna Bárðarson og frækilegt björgunarafrek hans og minnismerki komið upp við höfn.

Kvennasveit að gera klárt 2014. Mynd Bjarni Benediktsson.2014 Þann 29. maí er Þuríðardagurinn fyrst haldinn í tengslum við sjómannadaginn. 

2014 Þann 5. júní er vígður minnisvarði við Stigahlíð í Bolungarvík um mesta sjóslys Íslandssögunnar þegar QP-13 skipalestin sigldi inn í tundurduflabelti norður af Aðalvík á Vestfjörðum.

Skrúðgangan kemur að Hólskirkju 2015. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.2015 Helgi Hjálmtýsson heldur utan um sjómannadaginn. 

2016 Kappróðrarbátar endurbættir og málaðir. 

Sirrý ÍS 36 fer í hátíðarsiglingu í fyrsta sinn 2006. Mynd: Helgi Hjálmtýsson. 2016 Sirrý ÍS 36 tekur í fyrsta skipti þátt í hátíðarsiglingu.

2016 Fjórum stöðvum stillt upp fyrir beitningakeppni en engir keppendur fást, keppnin hefur legið niðri mörg ár á undan. 

Leikrit sýnt við Félagsheimilið 2017. Mynd: Haukur Sigurðsson.2017 Minningarbekkur um Guðna Kristján Sævarsson settur upp við Sjávarbraut. Aðstandendur standa að uppsetningu.

2017 TF-SÝN, þyrla Landhelgisgæslunnar, nær að lenda á Brjótnum en er strax kölluð út. 

Flekahlaup á sj´moanadag 2017. Mynd: Haukur Sigurðsson.2018 Þann 4. febrúar er haldið kaffisamsæti til minningar um Heiðrúnu II ÍS 12 og þá sex menn sem fórust með henni aðfararnótt 5. febrúar 1968.

Jóhann Hannibalsson rær sexæringnum Ölver frá Ósvör til Bolungarvíkur 2018. Mynd: Haukur Sigurðsson.2018 Hátíðarsvæðið fært frá Hafnarvoginni yfir á svæðið ofan við flotbryggjurnar suður af Lækjarbryggju. Sigurður Hjartarson veitir aðgang að skemmu sinni til nota fyrir hátíðina. 

2018 Fánar settir í stafn og skut kappróðrarbátanna. 

Tunnulestin leggur af stað 2018. Mynd: Helgi Hjálmtýsson. 2018 Tunnulestin vígð í tengslum við sjómannadag. 

2018 Varðskipið Týr til sýnis almenningi.

2018 Farið með varðskipinu Tý á þann stað sem síðast var vitað af Heiðrúnu II að talið er og þar varpað á hafflötinn tveimur blómsveigum. 

2018 Elías Ketilsson annast heiðrun sjómanna. 

Týr í suðvestanátt í Bolungarvík á leið í hátíðarsiglingu 2018. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.2018 Varðskipsmenn af Tý standa heiðursvörð við minningu sjómanna.

2018 Trompet-leikari byrjar og endar minningu sjómanna. 

2018 Sýnd heimildarmyndin Brotið um Dalvíkursjóslysin 1963. 

2019 Fimm útvarpþættir fluttir um páska um óveðrið 2.-5. febrúar 1968 þegar Heiðrún II fórst með sex mönnum og enski togarinn Ross Cleveland fórst einnig með 18 mönnum en einn bjargaðist. Enski togarinn Notts County strandaði og einn fórst. 

2019 Nýtt björgunarskip Ernis kemur til Bolungarvíkur og því er gefið nafnið Kobbi Láka þann 1. júní. 

2019 Nýtt björgunarskip kemur frá Noregi til Ísafjarðar á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Nýja skipið er nefnt Gísli Jónsson. 

Sjómannadagur Bolungarvíkur 80 ára.2019 80 ára afmæli Sjómannadags Bolungarvíkur. 

2019 Þann 29. maí kemur 80 ára afmælisblað Sjómannadags Bolungarvíkur út. 

2019 Bærinn kaupir tjaldaleiguna á Ísafirði og gefur Erni til að nota í fjáröflun, hátíðartjaldinu tjaldað og það veitir gott skjól við norðaustanáttinni. 

2019 Lögreglan hringir í formann björgunarsveitarinnar Ernis á miðjum hátíðarhöldunum á laugardeginum og tilkynnir honum að tunnulestinn sé óleyfileg. Þar með var hætt að keyra hana.

Hér hafa verið taldar upp vörður í sögu Sjómannadags Bolungarvíkur eða í tengslum við sjómannadaginn og málefni sjómanna og aðstandenda þeirra. Upptalningin byggir að miklu leyti á gögnum frá þeim tíma sem Geir Guðmundsson var formaður. Auk þessa eru ónefndar fjölmargar fégjafir sem Sjómannadagur Bolungarvíkur og Sjómannastofan fengu frá mörgum aðilum. Þakkir eru færðar Unu Halldóru Halldórsdóttur og Sólrúnu Geirsdóttur fyrir aðstoð og myndir. 

Helgi Hjálmtýsson tók saman.