• Grasagarðar Vestfjarða

Grasagarðar Vestfjarða

Markmið Grasagarða Vestfjarða er að varðveita íslenskar tegundir af plöntum og þá sérstaklega vestfirskar.

Lífríki er breytilegt á Vestfjörðum vegna veðurfræðilegra aðstæðna svo erfðafræðilegi breytileikinn getur verið mikill. Þess vegna er ástæða til að varðaveita mismunandi kvæmi af sömu plöntunum frá ýmsum stöðum.

Náttúrustofa Vestfjarða hóf uppbyggingu á grasagarði í Bolungarvík sumarið 2010 þegar sýningasvæðið var sett upp.

Hver planta er merkt sérstaklega á íslensku, latínu, þýsku og ensku svo að erlendir ferðamenn geti einnig notið sýningarinnar.

Þar sem grasagarðurinn á að geta nýst fyrir ýmsar rannsóknir tengdar gróðri á Vestfjörðum eru plönturnar skráðar niður í gagnagrunn sem geymir upplýsingar um hverja plöntu, hvenær henni var safnað, hvar hún var tekin og GPS staðsetningarhnit hennar.

Aðgangur að sýningunni er endurgjaldslaus og eykur framboð á efni fyrir alla sem áhuga hafa á að kynna sér þennan hluta íslenskrar náttúru.

Grasagarðar Vestfjarða eru staðsettir við Félagsheimili Bolungarvíkur að Aðalstræti.