• Minnisvarði um Elísabetu Hjaltadóttur og Einar Guðfinnsson

Einar Guðfinnsson

Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti á fundi sínum hinn 14. nóvember 1974 að gera Einar Guðfinnsson, útgerðarmann, heiðursborgara kaupstaðarins. 

EinarGudfinnsson

Einar er fyrsti heiðursborgari í sögu sveitarfélagsins.

Hinn 1. nóvember 1974 voru rétt 50 ár eða hálf öld frá því að Einar hóf atvinnurekstur í Bolungarvík. Einar átti sæti í hreppsnefnd Hólshrepps í 30 ár, og var um langt árabil fulltrúi hreppsins í sýslunefnd Ísafjarðarsýslu.

Einar var varaþingmaður Vestfirðinga í apríl–maí 1964 og í febrúar–mars og maí 1966 fyrir Sjálfstæðisflokkinn. 

Einar var fæddur í Litlabæ í Skötufirði 17. maí 1898 og lést 29. október 1985. Foreldrar hans voru Guðfinnur Einarsson útvegsbóndi og kona hans Halldóra Jóhannsdóttir húsmóðir. 

Elísabet Hjaltadóttir var eiginkona Einars. Hún fæddist í Bolungarvík 11. apríl 1900 og lést þar 5. nóvember 1981. Foreldrar hennar voru Hildur Elíasdóttir og Hjalti Jónsson.  

Árið 1998 var afhjúpaður í Bolungarvík minnisvarði sem bæjarstjórn Bolungarvíkur lét gera til að heiðra minningu  Einars og Elísabetar.

Minnisvarðanum var valinn staður framan við Félagsheimili Bolungarvíkur.

Jón Sigurpálsson hannaði minnisvarðann sem heitir Grjóthlað. Grjótið í minnisvarðann var sótt inn í Skötufjörð en fyrirmyndin að minnisvarðanum eru þær hlöðnu girðingar sem eru í landi Litla-Bæjar í Skötufirði, æskustöðvum Einars. Á minnisvarðann er fest lágmynd af þeim hjónum sem unnin er af Ríkeyju Ingimundardóttur.

Við minnisvarðanum er áletrun með tilvitnun í Einar þar sem segir:

Ég erfði ekki fé, ég erfði dyggðir.

Það voru tvö elstu börn þeirra Einars og Elísabetar, þau Guðfinnur Einarsson og Halldóra Einarsdóttir, sem afhjúpuðu listaverkið að viðstöddum afkomendum þeirra hjóna og fjölda bæjarbúa.

Einar var sæmdur riddarakrossi fálkaorðu árið 1958, stórriddarakrossi fálkaorðu árið 1972 og stjörnu stórriddara fálkaorðunnar árið 1977.