Hjólaleiðir
Hjólaleiðir í Bolungarvík og nágrenni eru margar ágætar. Hér er vísað á nokkrar leiðir.
Bolafjall - 9 km
Malarvegur liggur frá Bolungarvík upp á Bolafjall nema að fyrsti kílómeterinn fram Hlíðardal er með bundnu slitlagi. Bolafjall er í um 630 metra hæð yfir sjávarmáli. Vegurinn upp á fjallið er eingöngu opinn fyrir bílaumferð yfir sumarmánuðina en hann var byggður fyrir ratsjárstöðina sem staðsett er á fjallinu.
Bolafjall er frábær útsýnisstaður og segja má að fjallið sé einn helsti viðkomustaður ferðamanna á norðanverðum Vestfjörðum. Frá fjallinu er stórbrotið útsýni að Hornstrandafriðlandinu, Jökulfjörðum, Ísafjarðardjúpi og sumir segja alla leið til Grænlands. Sólsetrið er einnig sérstaklega fallegt frá Bolafjalli.
Bolungarvíkurgöng - 5,4 km
Bolungarvíkurgöng eru 5,4 km löng. Óhætt er að hjóla gegnum göngin en nauðsynlegt er að vera með góð endurskinsmerki og í áberandi klæðnaði. Mjög varasamt er við báða enda gangnanna í sólskini því ökumenn sem aka inn í gönginn eru nokkurn tíma að venjast minni birtu. Hámarkshraði í göngunum er 70 km. Göngin hétu upphaflega Óshlíðargöng en nafninu var breytt í Bolungarvíkurgöng. Göngunum hallar út frá miðju í báðar áttir.
Árið 2018 voru Bolungarvíkurgöng önnur fjölförnustu göng landsins, á eftir Hvalfjarðargöngum, með tæplega 1.000 ökutæki að meðaltali á dag.
Óshlíð og Óshlíðarvegur - 8 km
Óshlíð er mjög brött hlíð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og heitir ysti hluti hennar Óshyrna. Árið 1949 var opnaður vegur um Óshlíð til Bolungarvíkur sem þá fyrst komst í vegasamband. Bolungarvíkurgöng komu árið 2010 í stað vegarins en honum hefur ekki verið haldið við síðan. Frá þeim tíma hefur Óshlíðin mikið verið stunduð sem útivistarsvæði. Malbikaður vegurinn býður upp á hjólaleið, sem og hlaupa- og gönguleið sem er fær yfir sumarið. Leiðin er um 8 km og enginn teljandi hækkun er á leiðinni. Vegfarendur þurfa að sýna aðgát því mikið grjóthrun er úr hlíðinni fyrir ofan og eins hefur vegurinn látið mikið á sjá vegna ágangs sjávar og grjóthruns. Í Óshlíð ganga tvær dalskorur inn í fjallið, nefnist sú ytri Kálfadalur, en hin innri Seljadalur. Á leiðinni má sjá steinkross með áletruninni „Góður Guð verndi vegfarendur“, Óshólavita og Sjóminjasafnið Ósvör.
Vegurinn um Óshlíð er aflagður vegur og þar gilda ekki ökutækjatryggingar. Vegurinn er einn af Ó-vegum landsins sem þykja ógreiðfærir og hættulegir og liggja um staði sem byrja á bókstafnum Ó. Ó-vegirnir eru þrír, vegurinn um Óshlíð, vegurinn um Ólafsvíkurenni á Snæfellsnesi og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla á Norðurlandi.
Í Óshyrnu er klettadrangurinn Þuríður en hann er kenndur við samnefndan landnámsmann og eru sögur af henni í 50. kafla Landnámu.
Skálavíkurheiði og Skálavík - 12 km
Vegurinn frá Bolungarvík til Skálavíkur kallast Skálavíkurvegur og liggur yfir Skálavíkurheiði. Leiðin er tæpir 12 km, af því eru um 2 km af bundnu slitlagi fram Tungudal upp af Bolungarvík, en malarvegur eftir það yfir heiðina og út í Skálavík. Skálavíkurheiði er í 245 metra hæð yfir sjávarmáli. Leiðin er vinsæl sem gönguleið, hlaupaleið og hjólaleið.
Skálavík er vík yst í Ísafjarðardjúpi, stutt og breið vík fyrir opnu hafi og þar er sól allan sólarhringinn yfir hásumarið. Tjaldstæði er í Skálavík yfir sumartímann. Á Skálavíkurheiði sést stundum folald sem dregur húðina á eftir sér. Á 17. og 18. öld voru fengnar stórar klukkur til Hólskirkju í Bolungarvík. Þær voru hafðar svo stórar til að freista þess að draga úr reimleikum á Skálavíkurheiði.
Syðridalur að Reiðhjallavirkjun - 6 km
Skemmtileg hjóla-, hlaupa- og gönguleið meðfram Syðridalsvatni að Reiðhjallavirkjun. Virkjunin er í rúmlega 300 metra hæð yfir sjávarmáli en mesta hækkunin á leiðinni er á síðasta kílómetranum upp að virkjuninni. Vegurinn er malarvegur og skammt frá leiðinni við Gilsá eru tvær gamlar surtarbrandsnámur, Gilsnáma og Hanhólsnáma, sitt hvoru megin árinnar.
Við enda Syðridalsvatns, Víkurmegin, er Vatnsnes þar sem landnámsbær Þuríðar sundafyllis stóð.