• Hundar og kettir

Hundar og kettir

Um hunda og ketti í Bolungarvíkurkaupstað. 

Samþykkt um hunda- og kattahald í Bolungarvík

Hundahald

1. grein.
Hundahald er bannað í lögsagnarumdæmi Bolungarvíkur, að undanteknum þarfahundum á lögbýlum, leiðsöguhundum til hjálpar blindu fólki, viðurkenndum leitarhundum til aðstoðar björgunarsveitum og hundum sem notaðir eru við löggæslustörf.

2. grein.
Bæjarstjórn Bolungarvíkur er þó heimilt að veita einstaklingum bútsettum í Bolungarvík undanþágu til hundahalds að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Hundurinn skal skráður hjá hundaeftirliti Bolungarvíkur. Þegar hundaleyfi hefur verið afgreitt og skráningargjöld verið greidd fær eigandi afhenta merkta plötu, sem jafnan skal vera í ól um háls hundsins. Í plötuna skal grafið “Bolv.” og leyfisnúmer hundsins. Í hálsól hundsins skal eigandi hundsins einnig festa merki með símanúmeri sínu. Upplýsingar um hundinn skulu færðar í þar til gerða bók hjá hundaeftirliti Bolungarvíkur. Þar skal skráð nafn, kennitala og heimilsfang leyfishafa ásamt upplýsingum um hundinn, s.s. aldur kyn, tegund og önnur einkenni. Hundaeiganda ber að tilkynna hundaeftirliti aðsetursskipti, einnig skal tilkynna hundaeftirliti ef hundurinn deyr eða er fluttur úr lögsagnarumdæminu. Hvolpar skulu skráðir fyrir þriggja mánaða aldur.

2. Ef sótt er um leyfi til að halda hund í fjölbýlishúsi, skal skriflegt samþykki allra íbúðareiganda í sama stigagangi fylgja umsókn. Sé um að ræða parhús eða raðhús skal fylgja umsókn samþykki aðliggjandi íbúða, sbr.lög nr. 26/1994.

3. Heimilt er að gefa út bráðabirgðaleyfi fyrir hund sem mun ekki dvelja lengur en tvo mánuði í sveitarfélaginu og innheimtist þá eingöngu sérstakt gjald vegna slíks samkvæmt gjaldskrá, sbr. 5. tl. Hundaeigandi er fær útgefið bráðabirgðaleyfi sér sjálfur um að tryggja hundinn og bandormshreinsa hann á eigin kostnað. Hundaeftirlit getur hvenær sem er krafist framvísunar vottorða þessu til staðfestingar. Að öllu öðru leyti gildir samþykkt þessi umhundahald.

4. Við skráningu skal hundaeigandi undirrita yfirlýsingu um að hann skuli í einu og öllu fara með hund sinn eftir fyrirmælum samþykktar þessarar eins og hún er nú eða kann að verða. Leyfið er bundið við nafn og heimilisfang lögráða einstaklings og er óheimilt að framselja það.

5. Til að standa straum af kostnaði hundaeftirlits við skráningu og eftirlit með hundinum skal árlega greiða leyfisgjald til hundaeftirlits fyrir þá hunda sem leyfi er veitt fyrir. Gjaldið skal greitt í fyrsta sinn við skráningu hunds og síðan fyrirfram árlega með gjalddaga 15. febrúar og eindaga 15. mars. Hafi gjaldið eigi verið greitt innan tveggja mánaða frá eindaga fellur leyfið úr gildi. Bæjarstjórn ákveður upphæð gjaldsins í sérstakri gjaldskrá sem umhverfisráðherra staðfestir.

6. Hver hundur sem veitt er leyfi fyrir skal ábyrgðartryggður og skal hundaeftirlit annast þá tryggingu. Tryggingin skal ná til alls tjóns sem dýrið kann að valda mönnum, dýrum og munum. Vottorð um ábyrgðartryggingu skal liggja fyrir við greiðslu leyfis og árlegs leyfisgjalds.

7. Hundar skulu færðir til bandormahreinsunar í október-nóvember ár hvert. Framvísa skal vottorði um bandormahreinsun við greiðslu árlegs leyfisgjalds.

8. Hundurinn skal aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd með aðila, sem hefur vald yfir honum. Eigi er heimilt að hafa með sér hund þó í taumi sé, inn í skólahús, almennar skrifstofur, samkomuhús. leikvelli eða verslanir svo og starfsstöðvar, hverju nafni sem þær nefnast, þar sem úrvinnsla, meðferð eða geymsla matvæla á sérstað. Einnig er bannað að hafa með sér hund á þá staði sem slíkt er bannað sérstaklega með merkingu.

9. Hundaeigendum er skylt að sjá svo um að hundar þeirra raski ekki ró manna né verði þeim til óþæginda, einnig er hundaeiganda alltaf skylt að fjarlægja saur eftir hundinn.

10. Bæjarstjórn er heimilt að ákveða lægra leyfisgjald fyrir hunda samkvæmt 1. gr. þessarar samþykktar.

3. grein.
Við minniháttar brot á samþykkt þessari skal hlutaðeigandi sæta skriflegri áminningu og greiða allan kostnað er leiðir af brotinu. Ef um alvarlegt brot eða ítrekað er að ræða skal afturkalla viðkomandi undanþágu til hundahalds.

4. grein.
Hundar úr aðliggjandi sveitum sem ekki eru í fylgd með eiganda eða umráðamanni og ómerktir flækingshundar skulu teknir úr umferð. Gefi eigandi sig ekki fram eða vitji hans innan sjö sólarhringa hefur hundaeftirlit og lögreglan heimild til þess að ráðstafa eða fá dýralækni til að aflífa viðkomandi hund þegar í stað. Merktir hundar á flækingi skulu einnig teknir úr umferð. Ef eigandi vitjar hans eigi innan sjö sólarhringa og svarar ekki til saka um brot á samþykkt þessari sé um slíkt að ræða hefur lögreglan heimild til þess að fá dýralækni til að aflífa hundinn án frekari fyrirvara. Leyfi til viðkomandi eiganda skal þá falla úr gildi og eigi endurnýjast.

5. grein.
Hættulega og óleyfilega hunda og þá hunda sem ganga lausir utanhúss skal handsama og færa í þar til gerða hundageymslu. Allan kostnað er til fellur vegna fæðis, geymslu, auglýsinga og ferðakostnaðar skal eigandi greiða auk sérstaks handsömunargjalds samkvæmt gjaldskrá, sbr. 5. tl. 2. gr. Tilkynna skal strax eiganda um handsömun hundsins. Sé um handsömun á ómerktum hundi að ræða, skal strax auglýsa handsömun hans á tryggilegan hátt. Ef uppvíst verður um óskráðan hund skal eiganda hans gert að greiða árgjald til bæjarsjóðs að viðbættri sekt samkvæmt 3. gr.

6. grein.
Hundaeftirlitsmaður starfar í Bolungarvík á í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið. Skal hann gefa bæjarstjórn og heilbrigðisnefnd árlega skýrslu um hundahald og starf sitt vegna þess. Hundaeftirlitsmaður skal eftir því sem tilefni er til hafa samráð við félög hundaeigenda í Bolungarvík um það hvernig haga skuli eftirliti, skráningu hunda og önnur þau atriði sem varða hundahald í Bolungarvík.

7. grein.
Hundaeftirlitsmaður annast framkvæmd og eftirlit með hundum samkvæmt samþykkt þessari og getur leitað aðstoðar lögreglu ef með þarf. Tilkynna skal bæjarstjóra án tafar allar kærur sem berast vegna meintra brota á samþykktinni. Með brot á samþykkt þessari fer samkvæmtlögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum.

Kattahald

8. grein.
Allir heimiliskettir skulu bera bjöllu og merkta hálsól, þar sem fram kemur nafn eiganda, heimili og símanúmer. Eigendum katta er skylt að gæta þess að kettir þeirra valdi ekki nágrönnum ónæði.

9. grein.
Bæjarstjórn er heimilt að takmarka eða banna kattahald í þéttbýli, ef til þess er talin brýn þörfað mati heilbrigðisnefndar, heilsugæslulæknis eða héraðsdýralæknis. Þannig getur bæjarstjórn t.d. takmarkað fjölda fullorðinna katta á heimili við ákveðna hámarkstölu, ef ástæða þykir til. Bæjarstjórn er heimilt að láta eyða ómerktum flækingsköttum, enda hafi framkvæmdin verið auglýst með áberandi hætti í sveitarfélaginu a.m.k. 7 sólarhringum áður en hún hefst.

10. grein.
Eigendum katta er skylt að gæta þess að köttur hans valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Kattareiganda ber að greiða allt það tjón sem köttur hans veldur, svo og greiðslu alls kostnaðar við að fjarlægja dýrið gerist þess þörf.

11. grein.
Með brot á samþykkt þessari skal fara að hætti laga um meðferð opinberra mála og að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum.

12. grein.
Ofangreind samþykkt bæjarstjórnar Bolungarvíkur staðfestist hér með samkvæmt 18. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum til þess að öðlast gildi þegar við birtingu.