Nýsköpunarstörf fyrir námsmenn í grunn- og meistaranámi
Í boði er að sækja um vegna eftirfarandi verkefna:
Uppbygging á Bolafjalli
Verkefni um að vinna viðskiptaáætlun fyrir þróunarfélag fyrir uppbyggingu ferðamannastaðar á Bolafjalli. Þróunarfélagið fær lóðir sem eru til úthlutnar samkvæmt nýju deiliskipulagi og viðskiptaáætluninni er ætlað að skilgreina notkun þeirra og uppbyggingu starfsemi á þeim á næstu tíu árin í samstarfi við Sóknaráætlun Vestfjaðra, Vestfjarðastofu og fjárfesta.
Tengiliður og upplýsingar Finnbogi Bjarnason, finnbogi@bolungarvik.is.
Stækkun hafnarsvæðis
Verkefni um hafnarsvæði Bolungarvíkurhafnar. Gera þarfagreiningu og sem tekur tillit til ýmissa þjónstuþátta hafnarinnar ásamt þörfum ferðþjónustu, bæði hópa og einstaklinga þannig að höfnin geti bæði verið öruggur vinnustaður en um leið ferðamannavænn áfangastaður. Teikna þarf upp stækkunarmöguleika hafnarsvæðisins, gera kostnaðaráætlun og vinna útboðsgögn.
Tengiliður og upplýsingar Finnbogi Bjarnason, finnbogi@bolungarvik.is.
Uppbygging Sjóminjasafnsins Ósvarar
Verkefni um viðskiptaáætlun fyrir Sjóminjasafnið Ósvör. Skilgreina þarf fjárfestingu í innviðum eins og nýju þjónustuhúsi, stækkun safnkostar, aðgengi fatlaðra og aukinnar notkunar safnsins. Á grunni áætlunarinnar þarf að vinna útboðsgögn sem verða auglýst með það markmið að einkaaðilar taki yfir rekstur safnsins og uppbyggingu samkvæmt viðskiptaáætlun.
Tengiliður og upplýsingar Jón Páll Heinsson, jonpall@bolungarvik.is.
Uppbygging Náttúrugripasafns Bolungarvíkur
Verkefni um viðskiptaáætlun fyrir Náttúrugripasafn Bolungarvíkur, steinasafn þess og Grasagarða Vestfjarða. Skilgreina þarf fjárfestingu í sýningaraðstöðu, nýrri sýningu, aðgengi fatlaðra og aukinnar notkunar safnisins. Á grunni áætlunarinnar þarf að vinna útboðsgögn sem verða auglýst með það markmið að einkaaðilar taki yfir rekstur safnsins og uppbyggingu samkvæmt viðskiptaáætlun.
Tengiliður og upplýsingar Jón Páll Heinsson, jonpall@bolungarvik.is.
Íbúar af erlendum uppruna í Bolungarvík
Verkefni um rannsókn á stöðu, líðan og samfélagsþátttöku íbúa af erlendum uppruna í Bolungarvík með sérstakri áherslu á börn, ungmenni og foreldra ásamt úttekt á tungumálaverkefnum í grunn- og leikskóla sveitarfélagsins.
Markmið með rannsókn og úttekt:
- Að fá upplýsingar um stöðu, líðan, viðhorf, væntingar og samfélagsþáttöku íbúa af erlendum uppruna í Bolungarvík sem Bolungarvíkurkaupstaður getur nýtt til að efla þjónustu við þennan hóp og þá einkum börn, ungmenni og foreldri.
- Að fá upplýsingar um reynslu og árangur af tungumálaverkefnum sem eru í gangi í grunn- og leikskóla sveitafélagsins til að geta þróað enn frekar þjónustu við tvítyngd börn og foreldra þeirra.
- Að hægt verði að nýta niðurstöður rannsóknar og úttektar í öðrum sveitarfélögum þar sem er hátt hlutfall íbúa af erlendum uppruna.
Tengiliður og upplýsingar Guðný Hildur Magnúsdóttir, gudnyhildur@bolungarvik.is.
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum
Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum stundar líf- og fornleifafræðilegar rannsóknir á auðlindum sjávar- og strandsvæða. Setrið hvetur háskólanema sem hafa áhuga á þessum viðfangsefnum, og vilja stunda rannsóknir í Bolungarvík í sumar, til að hafa samband við Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur (gaol@hi.is), t.d. vegna líffræðitengdra verkefna, eða Ragnar Edvardsson (red@hi.is), t.d. vegna fornleifafræðilegra verkefna eða verkefna tengdri fjarkönnun í sjó og vötnum. Boðið verður upp á aðstoð við gerð umsókna og þróun verkefna, og - í því tilfelli að styrkur fáist - mótframlag í formi aðstöðu, aðstoðar og þess kostnaðar sem kann að verða af verklegri framkvæmd verkefnanna. Athugið að bæði nemendur í grunnnámi og meistaranámi geta sótt um verkefni hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Markaðsáætlun fyrir Dropa
Verkefni um að vinna markaðsáætlun fyrir sókn Dropa þorskalýsis til nærmarkaða Evrópu. Dropi er kaldunnið þorskalýsi sem framleitt er í Bolungarvík. Helsti markaður Dropa í dag er í Bandaríkjunum en fyrirtækið stefnir á markað í Evrópu. Verkefnið felst í greiningu á hugsanlegum mörkuðum ásamt markaðsáætlun í framhaldi.
Tengiliður og upplýsingar veitir Óttar Kristinn Bjarnason, ottar@truewest.is.
Þróun á samsetningu Dropa með öðrum náttúruvörum
Verkefni um þátttöku í vöruþróun Dropa er varða önnur íslensk fæðubótarefni í samspili með afurðum Dropa. Horft er til innihalds og virkni annara náttúruvara/lyfja í nýrri vörulínu Dropa.
Tengiliður og upplýsingar veitir Óttar Kristinn Bjarnason, ottar@truewest.is.
Framkvæmd
Verkefnin byggja á umsóknum til Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Greiddur styrkur til nemenda er 300.000 kr. á mánuði í hámark þrjá mánuði fyrir nemanda. Styrkir eru greiddir út í byrjun júlí, ágúst og september. Bolungarvíkurkaupstaður býður upp á nettengingu og skrifstofuaðstöðu fyrir þá sem vilja.
Umsóknarfrestur til Nýsköpunarsjóðs námsmanna er 8. maí kl. 16:00. Áhugasamir nemendur hafi samband við tengiliði helst fyrir þann tíma en þá geta nemendur verið þátttakendur í umsókninni.
- Sjá nánar á Nýsköpunarsjóður námsmanna opnar fyrir nýjar umsóknir