Starfsreglur varðandi sérkennslu í leikskólanum Glaðheimum

Sveitarfélög bera skv. 4. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 ábyrgð á starfsemi leikskóla. Í VIII. kafla Sérfræðiþjónusta og stoðkerfi leikskóla, 22. grein stendur :

„Börn sem þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, eiga rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans. Þjónusta þessi skal fara fram undir handleiðslu sérfræðinga samkvæmt ákvörðun leikskólastjóra og sérfræðiþjónustu skv. 21. gr. í samráði við foreldra.“

Markmið með sérkennslu í leikskólum er að tryggja jafnræði allra barna í öllu leikskólastarfi óháð líkamlegu og andlegu atgervi.
Við viljum

  • tryggja að börn með þroskaraskanir, tilfinninga- og eða félagslega erfiðleika fái notið leikskóladvalar sinnar.
  • skapa aðstöðu til að börn geti þroskast sem best í leikskólanum. Kennslan skal því taka mið af þörfum hvers barns og vera í nánu samráði við foreldra.

Bolungarvíkurkaupstaður er með þjónustusamninga vegna sérfræðiþjónustu við Ásgarð (áður Trappa ráðgjöf), Tröppu sem sinnir talþjálfun og Litlu kvíðameðferðarstöðina.

Umsókn um sérkennslu:

  1. Beiðni um athugun á þroska barna, stuðningi við börn eða deild berst til leikskólastjóra eða sérkennslustjóra. Sérkennslustjóri ber ábyrgð á beiðnum um athuganir og/eða stuðning við börn og vinnur þær í nánu samstarfi við sérfræðinga sem við á. Ávallt skal samþykki foreldra vera á beiðninni.
  2. Sérfræðingur leggur mat á viðkomandi barn og / eða aðstæður á deild í samvinnu við sérkennslustjóra og leikskólakennara. Þörf fyrir sérkennslu / sérstuðning er greind.
  3. Leikskólastjóri kemur beiðni um stuðning til Fræðslumála- og æskulýðsráðs.
  4. Ákvörðun er síðan tekin í ljósi niðurstaðna
  5. Staðfesting á úthlutun sérkennslu / sérstuðning er send út til leikskólastjóra og / eða sérkennslustjóra sem upplýsa foreldra og starfsfólk um fyrirhugaða sérkennslu/stuðning.
  6. Sérkennslustjóri gerir síðan áætlun fyrir viðkomandi barn í samvinnu við deildarstjóra og þann sérfræðing sem við á.

Stuðningsflokkar:

Um er að ræða fimm flokka sem úthlutun stuðnings tekur mið af.

Viðurkenndir greiningaraðilar fyrir þrjá efstu flokkana eru:

  • Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins
  • Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
  • Sjónstöð Íslands
  • Barna og unglingageðdeild Landsspítalans

Fyrir flokka fjögur og fimm eru auk framantalinna eftirtaldir greiningaraðilar viðurkenndir:

  • Læknar og heilsugæsla
  • Sálfræðingar
  • Talmeinafræðingar
  • Iðju- og sjúkraþjálfarar
  • Leikskóla- og sérkennslufulltrúi

Eftirfarandi flokkun er lögð til grundvallar sérkennslustundum. Miðað er við heilsdagsdvöl barns.

Skipting stuðningsflokka:

FLOKKUR 1:
Börn sem þurfa á verulegri aðstoð að halda í daglegu lífi, t.d. vegna fjölfötlunar, alvarlegrar þroskahömlunar, verulegrar tengslaskerðingar, einhverfu eða blindu.
Tímafjöldi er 4-8 tímar, eða sá tími sem barnið dvelur í leikskólanum.

FLOKKUR 2:
Börn sem þurfa reglulega aðstoð t.d. vegna miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar (aðstoð við ferli), verulegrar heyrnaskerðingar (táknmál), verulegrar sjónskerðingar, málhömlunar (tákn) eða vægari tengslaskerðingar.
Tímafjöldi 1-4 tímar.

FLOKKUR 3:
Börn sem þurfa töluverða aðstoð og/eða þjálfun t.d. vegna vægrar þroskahömlunar eða alvarlegs misþroska og/eða ofvirkni samfara þroskaskerðingu.
Tímafjöldi 1-3 tímar.

FLOKKUR 4:
Börn sem þurfa tímabundið á verulegri aðstoð að halda vegna ofvirkni, félags- og tilfinningalegra erfiðleika eða tvítyngis.
Tímafjöldi 1-6 tímar.

FLOKKUR 5:
Er ætlaður tímabundið vegna aðstæðna á deild eða í leikskóla t.d. vegna hópþjálfunar, óvenju erfiðrar samsetningar barnahópsins eða fárra faglærðra starfsmanna.
Tímafjöldi 1-4 tímar.

Í sérstökum undantekningartilfellum getur starfsmaður þeirrar sérfræðiþjónustu sem sér um mál barns, í samráði við leikskólastjóra og / eða sérkennslustjóra, lagt fram tillögu um að barn fái fleiri stundir en flokkunarröðin segir til um og sótt um það til Fræðslumála- og æskulýðsráðs.

Sérkennslustundir hvers barns eru endurmetnar einu sinni á ári.

Ef að mati leikskólastjóra, starfsmanns sérfræðiþjónustu eða sérkennslustjóra er talið hentugra að reikna barngildi viðkomandi barns hærra en aldur segir til um, fremur en að ráða inn sérkennsluaðila skal heimilt að meta barn til allt að helmingi fleiri barngilda en aldur þess segir til um.

Ef að mati leikskólastjóra, starfsmanns sérfræðiþjónustu eða sérkennslustjóra er hægt að reikna barn með hjálpatæki allt að helmingi fleiri barngildi en aldur þess segir til um er þeim heimilt að gera það. Án þess þó að koma niður á sérkennslu þess.

Leikskólastjóri úthlutar í samráði við Fræðslumála- og æskulýðsráð sérkennslutímum á grundvelli greiningar á þroskahömlun barnsins.

Meðferð gagna

Ef flytja á gögn varðandi börn milli leikskóla og grunnskóla er það leyfilegt með skriflegu leyfi foreldra. Það sama á við um aðra aðila t.d. heilsugæslu og félagsmálastofnun. Meðferð gagna skal vera í samræmi við 24. gr. reglugerðar nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla.

Samþykkt í fræðslumála- og æskulýðsráði 9. desember 2020
Samþykkt í bæjarstjórn 12. janúar 2021