Reglur um heimagreiðslur

1. grein
Bolungarvíkurkaupstaður samþykkir að greiða sérstakar heimagreiðslur til forráðamanna barna þar til barn fær daggæsluúrræði eða boð um leikskólavist. Einstæðir foreldrar eiga rétt á heimagreiðslu þegar barn nær 8 mánaða aldri en foreldrar í hjúskap eða sambúð þegar barn nær 12 mánaða aldri.

2. grein
Barn og forráðamenn þess skulu hafa lögheimili og búsetu í Bolungarvík.

3. grein
Sækja skal um heimagreiðslur á umsóknareyðublaði sem er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins www.bolungarvik.is eða á bæjarskrifstofunni og skal skilað þangað.
Umsókn er aldrei afturvirk.

4. grein
Heimagreiðslur eru veittar frá næstu mánaðarmótum eftir að umsókn er móttekin ef barnið hefur náð aldri til úthlutunar og það er ekki í daggæsluúrræði.

5. grein
Heimagreiðslur taka mið af upphæð niðurgreiðslna vegna daggæslu í heimahúsum. Heimagreiðslur fást að hámarki greiddar í 9 mánuði á ári.

6. grein
Heimagreiðslur eru greiddar eftir á og miðast við að greitt sé út fyrir miðjan mánuð.

7. grein
Heimagreiðslur falla niður ef foreldrar fá samþykki fyrir niðurgreiðslum vegna daggæslu í heimahúsi eða boð um leikskólavistun í leikskóla Bolungarvíkurkaupstaðar, hvort sem leikskólavist er þegin eða henni hafnað. 

8. grein
Umsóknir um heimagreiðslur skal endurnýja árlega.

9. grein
Foreldrar sem skulda eldri gjöld hjá Bolungarvíkurkaupstað fá ekki greiddar út samþykktar heimagreiðslur fyrr en skuldin er að fullu greidd.

10. grein
Verði um ofgreiðslur að ræða á heimagreiðslum áskilur Bolungarvíkurkaupstaður sér rétt til að krefjast endurgreiðslu. Sé ofgreiðsla á grundvelli rangra upplýsinga, eða umsækjandi ekki tilkynnt um breytingar á högum sínum, sem hafa áhrif á rétt til heimagreiðslna er heimilt að leggja dráttarvexti á upphæð endurkröfunnar.

Reglur þessar voru samþykktar á bæjarráðsfundi 18. ágúst 2020 og taka gildi frá þeim degi.