Reglur um ungmennaráð Bolungarvíkurkaupstaðar

Samkvæmt 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007

1. grein

Stjórnskipunarleg staða.

Ungmennaráð heyrir undir fræðslumála- og æskulýðsráð Bolungarvíkurkaupstaðar. Ungmennaráð er ráðgefandi um málefni ungs fólks í sveitarfélaginu. Fulltrúar ungmennaráðs fá greitt fyrir ungmennaráðsfundi samkvæmt samþykkt um stjórn Bolungarvíkurkaupstaðar.

2. grein

Skipan ráðsins.

Í ungmennaráði eiga sæti fimm fulltrúar og þrír til vara. Fulltrúar skulu vera á aldrinum 13 til 25 ára og eiga lögheimili í Bolungarvík. Ungmennaráð er skipað að hausti ár hvert. Fræðslumála- og æskulýðsráð óskar eftir tilnefningum í ungmennaráð og gerir að því loknu tillögu um fulltrúa í ráðið. Við val á fulltrúum í ungmennaráð skal leitast við:

  • Að kynjahlutföll séu sem jöfnust
  • Að þrír fulltrúar í ráðinu séu á aldrinum 13 til 15 ára og tveir fulltrúar á aldrinum 16 til 25 ára.
  • Að fulltrúi geti ekki verið lengur í ráðinu en tvö til þrjú ár í röð. 

3. grein

Hlutverk.

Ungmennaráð er ráðgefandi um málefni sem tengjast ungu fólki á aldrinum 13 til 25 ára í sveitarfélaginu. Helsta hlutverk og markmið ungmennaráðs eru:

  • að koma skoðunum og tillögum ungs fólks til viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagsins,
  • að gæta hagsmuna ungs fólks t.d. með umfjöllun og umsögnum um einstök mál sem snerta aldurshópinn sérstaklega,
  • að fulltrúar ráðsins þjálfist í lýðræðislegum vinnubrögðum og læri á stjórnkerfi sveitarfélagsins,
  • að gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnumörkun um málefni ungs fólks,
  • að undirbúa þing ungs fólks í samstarfi við viðeigandi stofnanir og starfsmenn og fylgja eftir ályktunum þinga.

4. grein

Starfshættir. 

Fræðslumála- og æskulýðsráð velur einn fulltrúa sem tengilið við ungmennaráð og skal hann vera ungmennaráði til aðstoðar við starf sitt. Ungmennaráð skal leitast við að halda ekki færri en fjóra fundi ár hvert. Bæjarstjóri boðar til fyrsta fundar en á honum skiptir ráðið að öðru leyti með sér verkum. Ráðið heldur fundagerðabók. Um fundarsköp og ritun fundargerða skulu að öðru leyti gilda ákvæði samþykktar um stjórn Bolungarvíkurkaupstaðar. 

Samþykkt í bæjarstjórn Bolungarvíkur 10. mars 2020.