Reglur um úthlutun leikskólaplássa

Reglur um úthlutun leikskólaplássa í Bolungarvíkurkaupstað.

1. grein

Skilyrði fyrir leikskóladvöl barns er að lögheimili þess og foreldra eða forráðamanna/s sé í Bolungarvík.  Foreldrar/forráðamenn sem hyggjast flytja til Bolungarvíkur geta sótt um dvöl fyrir barn sitt í leikskóla bæjarfélagsins. Hafi leikskóla verið úthlutað án þess að lögheimili barns hafi verið flutt til Bolungarvíkur skal lögheimilisbreyting að hafa átt sér stað áður en leikskóladvöl barnsins hefst. 

Í þeim tilvikum þegar sótt er um leikskóladvöl fyrir börn sem eiga lögheimili annars staðar á Íslandi en dvelja tímabundið í Bolungarvík vegna barnaverndar eða sem ráðstafað er tímabundið á fósturheimiliskal fylgja umsókn samþykki lögheimilissveitarfélags um greiðslur til Bolungarvíkurkaupstaðar.

Foreldrar/forráðamenn barna sem eru tímabundið án kennitölu og lögheimilis eða þau skráð utangarðs í þjóðskrá geta sótt um leikskólapláss í Bolungarvík enda megi gera ráð fyrir því að lögheimili þeirra, þegar það er fengið,  verði í Bolungarvík, sbr. lög nr. 21/1990 um lögheimili. Upplýsingar um kennitölu og lögheimilisskráningu skal framvísað af foreldrum/forráðamönnum svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 3 mánuðum eftir að leikskóladvöl hefst.  

2. grein

Á meðan leikskólapláss eru takmörkuð þá raðaðst börn á biðlista. Meginregla er að börn raðist á biðlista eftir aldri.  Miðað er við að hægt sé að bjóða börnum leikskólapláss um tveggja ára aldur.  

3. grein

 Hægt er að sækja um forgang barns við úthlutun af biðlista. Eftirtaldir hópar eiga rétt á forgangi:  

  • Fötluð börn og börn með sérþarfir. Skila þarf vottorði frá sérfræðingi um fötlun eða sérþarfir barnsins.  
  • Börn þar sem alvarleg veikindi eða fötlun er innan fjölskyldu þess. Skila þarf vottorði frá sérfræðingi um aðstæðurnar.   
  • Börn þar sem félagslegar aðstæður eru innan fjölskyldunnar, s.s. barnaverndarafskipti eða annar félagslegur vandi að mati starfsmanns félagsþjónustu. 
  • Í sérstökum tilvikum er hægt að sækja um forgang fyrir börn starfsfólks leikskólans.  

Leikskólastjóri,  félagsmálastjóri og formaður velferðaráðs afgreiða umsóknir um forgang í sameiningu. Hægt er að áfrýja ákvörðun þeirra til fræðslumála- og æskulýðsráðs Bolungarvíkur, og skal það gert innan 4ra vikna frá því að svar við umsókn barst.  

Samþykkt í bæjarstjórn 11. apríl 2016.