Reglur um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk

Reglur Bolungarvíkurkaupstaðar um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.

1. gr. Markmið
Markmið akstursþjónustu er að gera fólki með fötlun sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki og/eða eigin farartæki kleift að stunda atvinnu og nám, njóta tómstunda og sækja þjónustu sem veitt er fötluðum sérstaklega, s.s. hæfingu og endurhæfingu.


2. gr. Réttur til þjónustunnar
Rétt til akstursþjónustunnar hafa þau sem
a) Hafa lögheimili eða skráð aðsetur í Bolungarvík
b) Eru hreyfihömluð og þurfa að nota hjólastól eða
c) eru ófær um að nota almenningsfarartæki og/eða eigin farartæki eða þurfa akstursþjónustu vegna annarrar fötlunar
Þegar fatlaður einstaklingur dvelst tímabundið utan lögheimilissveitarfélags síns hefur hann aðgang að akstursþjónustu samkvæmt samkomulagi sem dvalarsveitarfélag og lögheimilissveitarfélag gera sín á milli.

3. gr. Akstursþjónusta fyrir fötluð börn
Forráðamenn barna geta sótt um akstur samkvæmt reglum þessum fyrir börn vegna tómstunda, læknisferða, sjúkraþjálfunar eða til að rjúfa félagslega einangrun. Börn yngri en sex ára skulu ávallt vera í fylgd fullorðins einstaklings þegar þau ferðast með akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þurfi barn bílstól er það á ábyrgð foreldra að útvega hann. Reglur þessar taka ekki til skólaaksturs barna í grunnskóla. Með skólaakstri er átt við allan akstur á skólatíma, þ.m.t. á þeim tíma sem barn dvelst í lengdri viðveru á vegum skólans.


4. gr. Afgreiðsla og mat umsókna
Sækja skal um akstursþjónustuna hjá félagsmálastjóra Bolungarvíkurkaupstaðar á þar til gerðu eyðublaði. Skal umsóknin metin á grundvelli möguleika umsækjanda til að nýta sér þjónustu almenningsvagna og/eða aðra ferðamöguleika.
Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til viðeigandi ákvæða þessara reglna. Þar skal jafnframt kynntur réttur umsækjanda til að fara fram á að velferðarráð Bolungarvíkur fjalli um ákvörðunina. Umsækjandi hefur fjögurra vikna frest til að vísa máli sínu til ráðsins frá því að honum barst vitneskja um ákvörðunina. Velferðarráð skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er og ákvörðun ráðsins er kynnt umsækjanda skriflega og um leið er honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála í velferðarráðuneytinu 

5. gr. Gjaldskrá
Ferðir til að sækja sérhæfða þjónustu fyrir fatlað fólk, svo sem hæfingu, endurhæfingu og félagsstarf eru gjaldfrjálsar. Fyrir aðrar ferðir svo sem til og frá vinnu og skóla er greitt samkvæmt gjaldskrá almenningsfarartækja.

6 .gr.Öryggi
Ökutæki, ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu fatlaðs fólks skulu uppfylla ákvæði gildandi laga og reglugerða um starfsemina auk þess sem hafa ber hliðsjón af leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk. Ökumaður sem sinnir akstursþjónustu fatlaðs fólks skal hafa aukin ökuréttindi, sótt skyndi-hjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð bifreiðastjórum fólksflutningabíla. Fyrir ráðningu ökumanns skal liggja fyrir sérstakt sakavottorð eða heimild veitt af hans hálfu til öflunar sérstaks sakavottorðs og upplýsinga úr sakaskrá. Óheimilt er að ráða starfsmann til aksturs eða annarrar þjónustu fyrir fatlað fólk sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
Ákvæði um þagnarskyldu taka til bifreiðarstjóra og annarra þeirra sem koma að akstursþjónustu þótt viðkomandi sé ekki starfsmaður sveitarfélags. Í samningi sveitarfélags við verktaka um akstursþjónustu á þess vegum skal kveðið sérstaklega á um hæfi og skyldur bifreiðarstjóra.


7. gr.Málsmeðferð. 
Um málsmeðferð fer skv. XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr.40/1991 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.


8. gr. Gildistími
Reglur þessar voru samþykktar í Velferðaráði Bolungarvíkur þann 1. nóvember 2023 og í Bæjarstjórn Bolungarvíkur þann 14. nóvember 2023.