Reglun um úthlutun leiguíbúða aldraðra

Reglur um úthlutun leiguíbúða aldraðra í Bolungarvík

1. gr. Almennt

Reglur þessar gilda um leiguíbúðir Bolungarvíkurkaupstaðar „Árborg“ Aðalstræti 20-22, Bolungarvík. Markmiðið með úthlutun íbúðanna er að gefa öldruðum einstaklingum í Bolungarvík kost á að leigja aðgengilegt húsnæði, einkum þegar félagslegar- og heilsufarslegar aðstæður valda því að núverandi búseta hentar ekki og önnur úrræði í búsetumálum fást ekki.

2. gr. Réttur til umsókna

Réttur til umsókna er háður eftirfarandi skilyrðum:
  • Umsækjendur um íbúðir aldraðra skulu hafa náð 67 ára aldri
  • Umsækjandi skal hafa átt lögheimili í Bolungarvík að lágmark síðustu 6 mánuðina fyrir umsókn.
  • Umsækjandi þarf að vera fær um að búa í sjálfstæðri búsetu í leiguíbúð aldraðra.

3. gr. Forgangsröðun við úthlutun

Við úthlutun íbúða verður tekið tillit til eftirtalinna atriða ef til forgangsröðunar kemur:

  • Að umsækjandi uppfylli almenn skilyrði, þ.e. aldur og lögheimili. Séu engir umsækjendur sem uppfylla þessi skilyrði eru aðrar umsóknir teknar til umfjöllunar, þ.e. yngra fólk og þeir sem ekki hafa átt lögheimili í Bolungarvík í tilskilinn tíma.
  • Geta umsækjanda til að búa við núverandi húsnæðisaðstæður með tilliti til heilsufars og félagslegra aðstæðna.
  • Aldur umsóknar

4. gr. Umsóknir og úthlutun

Umsóknum skal skila til félagsþjónustu Bolungarvíkurkaupstaðar. Velferðarráð Bolungarvíkur úthlutar íbúðum í samráði við Félagsmálastjóra.

5. gr. Endurmat á búsetuskilyrðum

Endurmeta skal búsetuskilyrði þeirra íbúa sem dvalið hafa samfellt 6 mánuði eða lengur á heilbrigðisstofnun. Ef niðurstaðan er sú að viðkomandi uppfylli ekki lengur skilyrði um færni til sjálfstæðrar búsetu verður að leita annarra lausna í búsetumálum viðkomandi íbúa. Ákvæði þessarar greinar gildir aðeins fyrir þá íbúa sem hafa fengið úthlutað íbúð eftir reglum þessum.

6 gr. Hjónaíbúðir og einstaklingsíbúðir

Alla jafna er miðað við að hjónum séu leigðar hjónaíbúðir og einstaklingum einstaklingsíbúðir. Ef annað hjóna fellur frá, þá er velferðarráði heimilt að hlutast til um að eftirfarandi maki flytji í einstaklingsíbúð, ef hún er laus og fyrir liggi umsókn er um hjónaíbúð. Þetta skal þó ekki gert fyrr en 6 mánuðum eftir að maki fellur frá.

7. gr. Almenn skilyrði

Að öðru leyti fara leigumál eftir húsaleigulögum nr. 36/1994.

Samþykkt í velferðarráði Bolungarvíkur þann 18. nóvember 2008 og bæjarstjórn Bolungarvíkur þann 11. desember 2008. 

Þessar reglur voru samþykktar í velferðarráði með eftirfarandi bókun: "Velferðarráð samþykkir tillögur félagsmálastjóra með þeim fyrirvara að tekið sé ríkara tillit til aldurs umsóknar við úthlutun til þeirra sem eru nú þegar á biðlista".