Úthlutunarreglur styrkja menningar- og ferðamálaráðs

Úthlutunarreglur styrkja menningar- og ferðamálaráðs Bolungarvíkur.

1. grein
Tilgangur styrkjanna er að efla menningu og ferðaþjónustu í Bolungarvík. Ekki er úthlutað styrkjum til reksturs, stofnkostnaðar eða endurbóta, heldur eru framlög bæjarins ætluð til einstakra verkefna. Að jafnaði eru ekki veittir styrkir til ferða, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar.

2. grein
Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir en styrkir eru að jafnaði ekki veittir til verkefna sem eru á vegum ríkis eða sveitarfélaga.

3. grein
Fjárframlag til sjóðsins er samkvæmt fjárhagsáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar ár hvert og miðast styrkveitingar við það. Að jafnaði geta styrkir ekki verið hærri fjárhæð en sem nemur helmingi alls kostnaðar við verkefni og skal fjárhæð hvers styrks ekki vera hærri en kr. 100.000.

4. grein
Umsóknir um styrki skulu vera á eyðublöðum frá menningar- og ferðamálaráði sem eru aðgengileg á skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar og á heimasíðu sveitarfélagsins. Aðrar umsóknir skal stíla á menningar- og ferðamálaráð og eiga þær að berast bæjarskrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar.

5. grein
Umsóknarfrestur er fjórum sinnum á ári hverju og skal skila umsóknum til menningar- og ferðamálaráðs eigi síðar en 1. febrúar, 1. maí, 1. september eða 1. desember. Menningar- og ferðamálaráð skal auglýsa eftir umsóknum á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar með um mánaðar fyrirvara.

6. grein
Verkefni eða viðburð skal miða við yfirstandandi almanaksár. Öll verkefni sem fara fram á árinu geta sótt um styrki þó svo að verkefnið sé hafið eða því lokið þegar úthlutun styrkja fer fram.

7. grein
Styrkir eru ekki að fullu greiddir fyrr en við lok verkefnis og eftir að greinargerð hefur verið skilað. Skila þarf greinargerð til menningar- og ferðamálaráðs innan 6 mánaða frá því að verkefni/viðburði lýkur.

8. grein
Umsækjandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir framkvæmd verkefnis og notkun heimilda ef þarf, sem og öðrum þáttum verkefnisins.

9. grein
Menningar- og ferðamálaráð áskilur sér rétt til að hafna umsóknum. Samkvæmt 21. grein stjórnsýslulaga þarf ekki að rökstyðja ákvörðun um úthlutun styrkja á sviði lista og menningar.

10. grein
Við mat á umsóknum skal horft til eftirfarandi þátta:

  • Hvernig verkefnið/starfsemin auðgar menningarlífið í Bolungarvíkurkaupstað og hvernig fjármunir nýtist í því samhengi.
  • Einungis er styrkt til verkefna/viðburða sem fara fram í Bolungarvíkurkaupstað.
  • Hversu líklegt er að verkið verði framkvæmt, hvort aðstandendur verkefnisins geti hrint því í framkvæmd og hvort verkefnið muni laða að frekara fjármagn.
  • Gæða, vinnslu og framsetningar umsóknar, sýn umsækjenda og fagleg vinnubrögð.
  • Úthlutanir endurspegli breidd, nýmæli og framsækni og að endurnýjun eigi sér stað í hópi styrkþega.

Reglurnar voru staðfestar á 777. fundi bæjarstjórnar Bolungarvíkur þann 11. janúar 2022.