Viðburðir

  • Bjarnabúð - teikning
  • 9. september 2017 - 10. september 2017, Bolungarvík

90 ára afmæli Bjarnabúðar

Þann 10. september 1927 fékk Bjarni Eiríksson leyfi til að reka verslun í Bolungarvík og hefur Verslun Bjarna Eiríkssonar verið í samfelldum rekstri síðan þá.

Í daglegu tali er verslunin kölluð Bjarnabúð og margir Bolvíkingar versla þar reglulega ásamt viðskipavinum verslunarinnar í nágrannabyggðalögum.

Bjarnabúð selur matvöru og vefnaðavörur, bækur, gjafavörur, skrifstofuvörur, ungbarnafatnað, leikföng,  föt á fullorðna, búsáhöld og ýmislegt fleira. 

Hus-Jonu-laeknisins

Bjarnabúð byrjaði í húsi sem stóð á mótum Aðalstrætis og Hafnargötu er gekk síðar undir nafninu Hús Jónu læknisins. 

Árið 1933 keypti Bjarni Eiríksson húsið og flutti í það með fjölskyldu sinni. Síðar keypti Bjarni húsið sem núverandi Bjarnabúð hefur verið rekin í allar götur síðan og flutti þangað með fjölskylduna á skírdag árið 1935.

Benedikt sonur Bjarna tók síðan við rekstri verslunarinnar árið 1958 og Stefanía Birgisdóttir tók við af honum árið 1996 og rekur Verslun Bjarna Eiríkssonar í dag.

Laugardaginn 9. september fagnar Bjarnabúð 90 ára afmæli og verður með afmælisviðburði næstu daga þar eftir. 

Bolungarvíkurkaupstaður óskar Verslun Bjarna Eiríkssonar og Bolvíkingum öllum til hamingju með afmælið!