Viðburðir

  • Blómsveigar lagðir að minnismerkjum sjómanna 2018. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.
  • 6. júní 2021, 14:45, Bolungarvík

Blómsveigar lagðir að minnismerkjum sjómanna

Blómsveigar lagðir að minnismerkjum sjómanna á sjómannadag 6. júní 2021 í Grundarhólskirkjugarði að lokinni hátíðarguðsþjónustu í Hólskirkju.

Í Bolungarvík eru minnismerki þar sem minnst er þeirra sem farist hafa á sjó. Í Grundarhólskirkjugarði eru tvö þeirra.

Það eldra er þannig til komið að 30. janúar 1941 fórst mb. Baldur frá Bolungarvík og með honum fjórir menn. Þar á meðal Óskar Halldórsson sem var annar tveggja forvígismanna Sjómannadags Bolungarvíkur. Árið eftir var minnisvarði um mb. Baldur afhjúpaður á sjómannadaginn í Grundarhólskirkjugarði af aðstandendum þeirra sem fórust. Sú hefð komst á að leggja blómsveig að minnisvarðanum á sjómannadag að lokinni sjómannadagsmessu í Hólskirkju.

Yngra minnismerkið er frá 2003 og er minnismerki um horfna, látna og drukknaða sem hvíla í fjarlægð, gefið til minningar um Guðfinn Einarsson útgerðarmann af aðstandendum. Á sjómannadag er einnig lagður blómsveigur að þessu minnismerki í Grundarhólskirkjugarði.

Reyndar er það einnig svo að árið 1962 flutti Guðmundur Kristjánsson erindi á fundi Lionsklúbbs Bolungarvíkur þar sem hugmynd að minnismerki bolvískra sjómanna var kynnt. Árið eftir, 13. apríl 1963, var á almennum fundi sjómanna í Bolungarvík einróma samþykkt að styðja við byggingu minnismerkis bolvískra sjómanna. Árið 1974 samþykkti Lionsklúbbur Bolungarvíkur að gangast fyrir því að byggð yrði verbúð í gömlum stíl sem líkust því er gömlu verðbúðirnar voru að ytra og innra útliti. Jafnframt því verði þar komið fyrir munum þannig að verðbúðin verði um leið eins konar sjóminjasafn er varðveiti gamlar minjar um líf og starf bolvískra sjómanna. Verðbúðin yrði jafnframt minnismerki um bolvíska sjómenn. 

Þetta er upphafið að því sem síðar varð Sjóminjasafnið Ósvör og er afar vinsæll ferðamannastaður í dag.