• Hólskirkja í Bolungarvík. Mynd: Helgi Hjálmtýsson

Hugvekja Unu Halldóru Halldórsdóttur á aðventukvöldi

Eftirminnanleg jól

Flutt á aðventukvöldi í Hólskirkju annan sunnudag í aðventu, 10. desember 2017.

Góða kvöldið!

Þegar séra Ásta bað mig um að flytja erindi á aðventukvöldi í Hólskirkju varð ég hugsi. Hvað ætti ég velja úr öllu minningaflóðinu. Fyrir valinu varð þessi frásögn af jólum og áramótum frá árinu 1951.

Við Erla Sigurgeirsdóttir frænka mín vorum í Húsmæðraskóla Vesturlands að Varmalandi í Borgarfirði þennan vetur þá 18 ára að aldri. Skólinn var níu mánaða skóli og hófst 15. september og átti að ljúka 15. júní 1952. Við frænkurnar undum okkur vel í skólanum í hópi góðra félaga.

Alltaf hafði verið talað um að við kæmum heim um jólin en einhverra hluta vegna tókum við þá ákvörðun, þegar líða tók að jólum, að við skyldum dvelja yfir jólin í skólanum. Hvorug okkar veit hvers vegna við tókum þessa ákvörðun en okkur varð ekki haggað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ættingja og ekki síst skólasystra. Heimboðum rigndi yfir okkur úr öllum áttum svo ekki vorum við nauðbeygðar að dvelja í skólanum þótt við færum ekki heim, en allt kom fyrir ekki. 

Vigdís Jónsdóttir frá Deildartungu í Reykholtsdal var skólasjóri og ákvað hún að dveljast með okkur um jólin en það hafði ekki gerst fyrr að nemendur færu ekki heim um jól. Sömuleiðis ákvað Helga, handavinnukennarinn okkar að vera í skólanum fram yfir jólin.

Nemendur í eldhúsi hófust handa að baka til jólanna svo við hefðum eitthvað að moða úr og allur undirbúningur gekk vel. Þegar rútan frá Borgarnesi kom að sækja nemendurna féll margt tárið, því stelpunum fannst við eitthvað svo umkomulitlar að ætla að dvelja þarna yfir jólin. Sjálfar vorum við borubrattar enda var þetta okkar ákvörðun. Stelpurnar skildu eftir stærðar kassa með ávöxtum og alls kyns sælgæti og gjöfum og höfum við hvorki fyrr né síðar haft annað eins sælgæti undir höndum. 

Svo komu jólin. Vigdís eldaði jólamatinn og fengum við varla að koma nálægt neinu, hún stjanað við okkur á allan máta. Eflaust hefur hugurinn reikað á heimaslóðir þetta kvöld en ég minnist ekki annars en við nytum kvölsins til fulls með pakkana og ekki síst jólabréfin og kortin sem voru ófá.

Jólamorgunn rann upp og við vöknuðum við að Vigdís kom og færði okkur súkkulaði og heita nýbakaða tertu í rúmið. Hún sagðist vita að víða væri sá siður að mömmurnar færðu börnunum hressingu í rúmið á jóladag. Ekki vorum við vanar þessum sið en söm var hennar hugulsemi. 

Eftir að hafa borðað jólahangikjötið var lagt af stað gangandi til messu að Stafholti og að lokinni messu var messukaffi eins og siður var til sveita. Við áttum svo boð að Svarfhóli en Hilda vefnaðarkennarinn okkar dvaldi þar um jólin hjá foreldrum sínum ásamt eins árs syni, sem var uppáhald okkar námsmeyja. Þarna dvöldum við í góðu yfirlæti fram eftir kvöldi.

Á annan dag jóla heimsóttum við skólasystur okkar að Hofsstöðum. Vigdís hafði ráðið tvo valinkunna Borgfirðinga sem áttu fólksbíl til að keyra okkur stöllur á þær skemmtanir og böll sem í boði voru í nágrenninu. Vigdís þótti strangur skólastjóri en við okkur sagði hún „elsku stelpur mínar, reynið nú að skemmta ykkur“. 

Fyrsta ballið var að Dalsmynni. Þegar keyrt er norður Norðurárdalinn og beygt í átt að Bröttubrekku, er lítið hús hægra megin við vegamótin. Það lætur ekki mikið yfir sér en þar skemmtum við Erla okkur konunglega þessi jól. Einnig fórum við á ball að Logalandi og í ýmsar heimsóknir í sveitinni því allir kepptust við að gera vel við þessar ungu stúlkur sem dvöldu langt frá heimkynnum sínum.

Sunnudag milli jóla og nýárs fór Vigdís í heimsókn að Deildartungu en skíra átti fyrsta systkinabarn hennar þann dag. Ráðgert var að hún kæmi til baka um kvöldið en foráttuveður gerði með mikilli snjókomu svo allir vegir tepptust. Við vorum því orðnar tvær í skólanum en Helga, kennari, var líka farin. Ekki væsti svo sem um okkur en skrýtið var að vera einar í þessu stóra húsi.

Gamlársdagur rann upp og ekki linnti veðrinu. Við höfðum ráðgert að dvelja um áramótin í Borgarnesi hjá kaupfélagsstjórahjónunum en frúin var föðursystir einnar skólasystur okkar sem dvaldi þar um hátíðarnar. Ekkert gat orðið af þeirri heimsókn vegna veðursins. Verst þótti okkur að missa af sýningu á söngleiknum „Ævintýri á gönguför“, sem hjónin höfðu boðið okkur á, en frumsýnt var á nýársdag.

Gamlárskvöld leið svo í rólegheitum og hlýddum við á útvarpsmessu og á þá dagskrá sem í boði var í útvarpi. Að loknu ávarpi útvarpsstjóra og eftir að hafa hlustað á „Nú árið er liðið í aldanna skaut“ slökktum við á útvarpinu. Ekki var laust við að við kenndum svolítið í brjóst um okkur en allt í einu heyrum við söng í fjarska sem virtist nálgast. Eru þá ekki komnir nágrannarnir frá Laugalandi til að sækja okkur í nýársgleðskapinn og fórum við með þeim og dvöldum í góðu yfirlæti fram eftir nóttu.

Daginn eftir kom svo Vigdís og stelpurnar svo fljótlega eftir það og skólahald hófst að nýju. Ekki var laust við að í stað þess að vorkenna okkur í upphafi öfunduðu þær okkur þegar við röktum fyrir þeim gang mála.

En það er af heimaslóðum að frétta að veður fyrir og um þessi jól var það versta í manna minnum. Stjúpi minn Leifur Jónsson var skipstjóri á Hugrúnu sem var í flutningum milli Reykjavíkur og Vestfjarða. Þeir sem til þekkja vita að hann var afburða stjórnandi og hlekktist aldrei á. Þessi jólaferð var honum ógleymanleg vegna vonds veðurs. Það var komin Þorláksmessa og þeir komnir til Súgandafjarðar og biðu færis að halda áfram til Bolungarvíkur en veðrið var það slæmt að tvísýnt var að halda áfram. Þeir voru með jólavörur og þar með talið ávexti, sem ekki voru alltaf á boðstólum á þessum tíma. Aðfararnótt aðfangadags var lagt af stað til Bolungarvíkur í foráttuveðri og heppnaðist ferðin og voru þeir komnir um hádegi til Bolungarvíkur. Búðum var haldið opnum fram eftir degi svo hægt væri að nálgast jólavöruna. 

Með þessari ferð hefðum við Erla verið ef við hefðum ekki tekið ákvörðun um að dvelja í skólanum um jólin. Geta skal þess að messufall var um jólin í Hólskirkju vegna veðurs og hefur það ekki oft gerst.

Þessi jól urðu okkur frænkunum ógleymanleg ekki síst fyrir gestrisni og alla vinsemd og náungakærleika sem við nutum í Borgarfirði.

Lýkur hér með frásögninni af dvöl okkar Erlu í Borgarfirðinum um jól og áramót 1951 til 1952.

En að lokum má ég til með að bæta örlitlu við. Rétt tæpri hálfri öld eftir þetta, eða haustið 2000, lá ég á Landsspítalanum í liðskiptaaðgerð sem er ekki í frásögur færandi. Aðgerðarkvöldið lá ég í lyfjarússi en gat ekki sofnað. Set ég þá á mig heyrnartól og fer að hlusta á Ríkisútvarpið. Tilkynnt er að flutt verði upptaka frá 1952 af „Ævintýri á gönguför“, flutt af Leikfélagi Borgnesinga. Ekki skal ég orðlengja það frekar að ég lá í sæluvímu sem dáleidd og hlustaði á þessa gömlu upptöku en eins og fram hefur komið var það eini skugginn á dvöl okkar í skólanum um jól og áramót að við skyldum ekki komast á sýninguna á nýársdag eins og til stóð. Svona eru tilviljanirnar og við sjáum ekki allt fyrir. 

Takk fyrir áheyrnina.
Gleðilega aðventu.