• Jón Páll Hreinsson

Jón Páll Hreinsson á sjómannadag 6. júní 2021

Jón Páll Hreinsson flutti ræðu í Hólskirkju á sjómannadag 6. júní 2021.

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi – amen.

Ég er ekki sjómaður og hef aldrei verið. Sennilega þekkja flestir sjómenn mig af því að vera að sniglast á hafnarsvæðinu og spyrja hvernig hafi gengið í síðasta túr. Ég segi gjarnan, „Það er mikilvægt að það gangi vel hjá sjómönnum í Bolungarvík, því það verður erfitt fyrir mig að fá útborgað án þeirra“. Sem er kannski mín leið til að láta þá vita hvað þeir skipta okkur miklu máli.

En þrátt fyrir að vera ekki sjómaður og pabbi minn var fyrir löngu hættur á sjónum þegar ég komst til vits og ára þá er ekki hægt að alast upp í sjávarþorpi á Vestfjörðum án þess að þekkja hvernig sjórinn hefur áhrif á þitt líf, Þina tilveru, þína framtíð. Hvað sem okkur finnst þá mótar nálægðin við sjóinn líf okkar allra á einn eða annan hátt. Suma á meira afgerandi hátt, eins og ykkur sjómenn og konur sem eruð hér í dag. En líka okkur hin sem erum ekki og verðum aldrei sjómenn.

Ég man eins og það hafi gerst í gær, þegar ég komst að því hvernig sjórinn getur verið örlagavaldur í lífi einnar fjölskyldu.

Það var 25. febrúar, árið 1980. Í blöðunum dagin eftir sagði að rækjubátarnir hefðu lagt af stað til veiða í djúpið um morguninn í ágætis veðri, en svo hafði gert aftakaveður síðar um daginn eins og þau gerast verst á hafinu.

Ég skildi ekki á þessari stundu hvað var að gerast. Ég var sex ára þarna, bráðum sjö.

En þegar kvöldið kom og einhverja hluta vegna þurfti ég ekki að fara að sofa og fólkið mitt beið við símann í stofunni, þá áttaði ég mig á því að eitthvað var ekki eins og það átti að sér að vera.

Seinna um kvöldið þegar símtalið barst með þær fréttir að tveir bræður mömmu væri saknað, þá upplifði ég þessa sorg og tilfinningar sem eru í raun ólýsanlegar. Samt voru þær skýrar í huga sex ára drengs og ég get enn þann dag í dag skynjað þessar tilfinningar eins og gerst hafi í gær.

„Guð leggur ekki meira á þig en þú þolir“ sagði mamma mín við mig um daginn þegar ég var forvitin um hvernig hennar kynslóð vann sig út úr áföllum líkt og þessum. Þetta sagði mamma mín alltaf, útskýrði mamma. Þegar hennar líf var á stundum erfiðara heldur en kannski er hægt að ætlast til að fólk geti lifað án þess að brotna. Það var hughreysting kirkjunnar sem mamma mín kenndi síðan mér sjálfur í gegnum barnatrúnna sem hún innrætti mér í æsku.

En það er sem betur fer ekki hörmungarnar sem standa uppúr þegar ég hugsa um hafið og sjómenn og konur sem sækja verðmætin fyrir okkur. Ég sé framtíð, framtíð Bolungarvíkur, Vestfjarða, Íslands í gegnum nálægðina við hafið og hvernig okkur hefur tekist að beisla krafta þess okkur í hag.

Ég hef stundum sagt að við stöndum herðunum á 1000 ára sögu Bolvíkinga og sá kraftur, þekking og dugnaður sem færðist kynslóð frá kynslóð til okkar lifir áfram í okkur.

Öll getum við séð ástvini og fjölskyldumeðlimi sem ekki eru meðal vor lifa áfram í gegnum núverandi kynslóðir. Þótt ég hafi ekki séð ömmu mína síðan hún féll frá fyrir um 30 árum, þá sé ég svip hennar í gegnum mömmu og systur hennar, börn og jafnvel barnabörn. Svo lifir fólkið í gegnum hefðir eins og t.d. með sögunni sem margir þekkja um fjölskylduna þar sem lambalærið var alltaf skorið í tvennt bara af því mamman gerði það. En ástæðan fyrir því upphaflega var einfaldlega af því að ekki var til nægilega stórt fat undir heilt læri. og almanak á undan. Í mínu tilfelli var það mamma sem drekkur aldrei kaffi úr svörtum bolla.Sjálfur mun ég aldrei drekka kaffi úr svörtum bolla og ég vona að börnin mín geri það ekki og ekki heldur börnin þeirra. Þannig mun hluti af mömmu minni lifa áfram í gegnum kynslóðirnar.

Eins og amma er endurborin í afkomendum sínum, þá lifir kraftur,þekking og dugnaður þeirra sem hafa barist við hafið í gegnum aldirnar í okkar sjómönnum í dag.

Í hvert sinn sem bolvískur sjómaður leggur á hafið, þá tekur hann með sér hluta af 1000 ára sögu bolvíska sjómanna og í gegnum þessa sjómenn fortíðar lifir sú hluti þeirra þekkingar sem hefur gert okkar hetjur hafsins þá bestu heimi.

Hvers vegna er sjómannadagsmessa? – heyrðist á heimilinu í gær þegar sá sem þetta flytur var að pára og pæla – reyna að koma einhverju vitrænu á blað. Auðvitað liggur svarið í atvinnuvegi sem hefur verið líflína Íslendinga – sjómönnum sem hafa ánafnað starfskröfum sínum, starfsævi og lífi til þess að brauðfæða þjóð – næra fólk og efnhag.

Svo er hægt að finna annað sjónarhorn. Kristin kirkja er ekki byggð á kennimanni fræðanna eða spámanni ritanna – lögspeking eða jafnvel guðfræðingi. Hún er byggð á fiskimanni. Dálítið hrjúfum, blóðheitum, einlægum og traustum sjómanni, eins og Símon Pétur kemur mér fyrir sjónir í guðspjöllum biblíunnar. Úr munni frelsarans: „ Og ég segi þér: þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína.

Péturskirkja stendur í Róm hvar fiskimaðurinn hvílir sem fylgdi jesú eftir – sjómaður sem trúði af einlægni og í krafti í dugnaðar, festu og fyrirheits um góðar heimtur fór út í heim til að gera allar þjóðir að lærisveinum. Hvers vegna sjómannadagsmessa? – Vegna þess að ef Pétur hefði ekki lagt í áhrifaríkasta róður heimssögunnar værum við ekki hérna í dag.

Ég óska sjómönnum í Bolungarvík. Vestfjörðum og á Íslandi öllu til hamingju með daginn. Megi guð ekki leggja meira á þá en þeir þola.

Dýrð sé Guði , föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.