• Minningaröldurnar, Svanhildur Helgadóttir

Minnismerki sjómannna

Grein eftir sr. Ástu Ingibjörgu Pétursdóttir í 80 ára afmælisblaði Sjómannadags Bolungarvíkur.

Það mun hafa verið árið 1929 að fitjað var upp á hugmynd um „einskonar Sjómannadag“. Hugmyndin hlaut þó ekki brautargengi fyrr en árið 1935 eftir að loftskeytamenn á Norðurlöndum höfðu skorað á kollega sína hér á landi að taka upp minningardag þar sem minnst væri þeirra manna sem farist hefðu við störf á sjó. Áskorunin varð til þess að farið var að ræða um að koma á fót minningardegi allra sjómanna og jafnframt hafinn undirbúningur að byggingu „minnismerkis allra drukknaðra sjómanna“. Í uppkasti að dagskrá sjómannadags frá 1937 er mælst til þess að unnið verði að því að reistur verði minnisvarði „sem þjóðlegt tákn þeirra fórna, sem sjórinn hefur krafizt“.

Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn 6. júní 1938 en ekki náðist samkomulag um byggingu þjóðarminnismerkis sjómanna. Í reglugerð sjómannadagsins sagði þó að eitt af takmörkum dagsins væri: „Að heiðra minningu látinna sjómanna og þá sérstaklega þeirra sem í sjó drukkna“.

Það varð úr að næstu áratugi voru reist stór og mikil minnismerki sjómanna víða um land. Vilji almennings var skýr hvað minningu týndra sjómanna varðaði.

Árið 1933 rak lík á land á Suðurnesjum sem ekki var unnt að bera kennsl á. Líkið var jarðsett í Fossvogkirkjugarði og með því komið upp leiði óþekkta sjómannsins. Fjórum árum síðar var leiðið sagt í óhirðu en eftir að farið var að halda sjómannadaginn hátíðlegan 1938 fékk leiði óþekkta sjómannsins sérstakan sess í dagskránni og í nóvember sama ár var reistur steinsteyptur viti á leiðinu. Því var haldið fram ári síðar að leiði óþekkta sjómannsins ætti að geta orðið „sameiginlegt athvarf allra þeirra sem sakna týndra ástvina“.

Vitinn stóð í Fossvogskirkjugarði en var rifinn árið 1988 og lítið eitt breyttri endurgerð var komið fyrir vestan við Fossvogskirkju sama ár. Undir vitanum var klappað í stein: „Minnismerki óþekkta sjómannsins“.

Fyrri hluta vetrar 1995 kom sjómannskona að máli við einn af forustumönnum sjómanna um það hvernig hún og ættingjar hennar gætu minnst ástvinar sem hlotið hefði hina votu gröf. Málið var rætt í stjórn Sjómannadagsráðs og var ákveðið að ráðast í að reisa minnisvarða sem gæti borið nöfn drukknaðra og týndra sjómanna og annarra sæfarenda.

Sjómannadaginn 2. júní 1996 voru Minningaröldur sjómannadagsins vígðar við hlið Minnisvarða óþekkta sjómannsins við Fossvogskirkju í Reykjavík. Fyrir vígsluna höfðu nöfn fjórtán sjómanna verið sett á öldurnar. Minningaröldurnar eru gerðar úr tilsöguðum grásteini sem myndar öldur. Á sléttum flötum aldanna hefur verið komið fyrir nöfnum sjómanna og sæfarenda sem hafa drukknað og ekki fundist. Að framkvæmdinni stóð Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði. Sjómannadagsráð staðfesti reglur um minnismerkið þann 18. júní 1996 en þar segir: Upphaf þessarar minningarsögu skal vera fyrsti sjómannadagurinn 6. júní 1938. 

Það varð strax ljóst að framkvæmdin kom til móts við mikla þörf aðstandenda fyrir að votta þeim ástvinum sem hlotið höfðu hina votu gröf virðingu sína. Að sama skapi varð fljótlega ljós óánægja aðstandenda þeirra sem farist höfðu á sjó áður en farið var að halda sjómannadaginn hátíðlegan þar sem Minningaröldurnar náðu ekki til þeirra. 

Árið 2005 greindi þáverandi sjávarútvegsráðherra frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að nöfn allra þeirra íslensku sjómanna sem létust í síðari heimsstyrjöldinni yrðu skráð á Minningaröldur sjómannadagsins. Nöfn einhverra þessara sjómanna voru þegar komin á minnisvarðann en ríkisstjórnin vildi tryggja að allra yrði minnst sem hlutu þessi örlög vegna stríðsátakanna.

Minningaröldurnar, Svanhildur Helgadóttir

Á sjómannadag 2016 við Vitann í Grundarhólskirkjugarði.

Í Bolungarvík eru þrjú minnismerki þar sem minnst er þeirra sem farist hafa á sjó. Í Grundarhólskirkjugarði eru tvö þeirra. 

Það eldra er þannig til komið að 30. janúar 1941 fórst mb. Baldur frá Bolungarvík og með honum fjórir menn. Þar á meðal Óskar Halldórsson sem var annar tveggja forvígismanna Sjómannadags Bolungarvíkur. Árið eftir var minnisvarði um mb. Baldur afhjúpaður á sjómannadaginn í Grundarhólskirkjugarði af aðstandendum þeirra sem fórust. Sú hefð komst á að leggja blómsveig að minnisvarðanum á sjómannadag að lokinni sjómannadagsmessu í Hólskirkju. 

Yngra minnismerkið er frá 2003 og er minnismerki um horfna, látna og drukknaða sem hvíla í fjarlægð, gefið til minningar um Guðfinn Einarsson útgerðarmann af aðstandendum. Á sjómannadag eru lagðir blómsveigar að þessum tveimur minnismerkjum í Grundarhólskirkjugarði. 

Þriðji minnisvarðinn í Bolungarvík var vígður við Stigahlíð árið 2014 um mesta sjóslys Íslandssögunnar þegar QP-13 skipalestin sigldi inn í tundurduflabelti norður af Aðalvík á Vestfjörðum og stóð Jónas Guðmundsson að honum.

Nú eru liðin um 84 ár síðan að hugmyndin um minnismerki allra drukknaðra sjómanna á Íslandi kom fram. Við höfum þann sið að minnast forfeðra okkar með minnismerkjum og leiðum í kirkjugörðum og annars staðar. Hvenær rennur upp sá dagur að við getum minnst sjómanna og annarra forfeðra okkar sem týnst hafa í hafi með viðlíka hætti? Hvenær rennur upp sá dagur að við getum minnst þeirra við þjóðarminnismerki týndra ástvina?

Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, sóknarprestur