Reglugerð um kjör íþróttamanneskju árins Bolungarvíkur
1. grein
Tilkynning á vali íþróttamanneskju ársins og afhending viðurkenninga skal fara fram með hátíðarsamkomu, sem ráðið ákveður hverju sinni. og skal vera haldið fyrir 31. janúar ár hvert. Boðsbréf skulu send út til þeirra sem tilnefndir eru.
2. grein
Íþróttafélög í Bolungarvík og nágrenni skili rökstuddum tilnefningum fyrir 31. desember ár hvert á skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar merkt fræðslumála- og æskulýðsráð eða í tölvupósti til formanns fræðslumála- og æskulýðsráðs.
3. grein
Íþróttafélög í Bolungarvík og nágrenni er heimilt að tilnefna að hámarki einn einstakling til kjörs á íþróttamanneskju ársins. Íbúum Bolungarvíkurkaupstaðar gefst einnig kostur á að tilnefna íþróttafólk. Fræðslumála- og æskulýðsráði er heimilt að bæta við tilnefningum eða hafna einstökum tilnefningum ef ástæða þykir til.
4. grein
Heimilt er að tilnefna hvern þann íþróttamann sem náð hefur 18 ára aldri, skal hann eiga lögheimili í Bolungarvík og/eða æfa með íþróttafélagi í Bolungarvík. Einstaklingurinn þarf að hafa sýnt framúrskarandi árangur í íþrótt sinni á árinu, sýnt góða ástundun og áhuga, komið prúðmannlega fram og verið öðrum góð fyrirmynd. Íþróttamanneskja ársins hlýtur við útnefningu farandbikar til eins árs og bikar til eignar. Allt tilnefnt íþróttafólk hlýtur sérstaka viðurkenningu.
5. grein
Þegar skilað er inn tilnefningum um íþróttamanneskju ársins skal skila inn rökstuddri greinargerð um viðkomandi íþróttamanneskju. Þar skal meðal annars koma fram umsögn um íþróttamanneskjuna, afrek, persónuleika, stefnu, o.s.frv. Ráðið mun nota þessar upplýsingar til mats á hverjum einstaklingi, og útdráttur úr þessum rökstuðningi verður lesinn upp þegar viðkomandi er útnefndur.
6. grein
Hvert Félag eða deild innan félags má tilnefna:
A) efnilegastu íþróttamanneskju ársins yngri en 18 ára að hámarki einn einstaklingur.
B) til viðurkenninga fyrir árangur og framfarir að hámarki þrjá einstaklinga. Einnig er heimilt að tilnefna til viðurkenninga ef hópur hefur náð framúrskarandi árangri á árinu.
C) að hámarki einn einstakling til hvatningarverðlauna fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta og æskulýðsmála í sveitarfélaginu.
Rökstuðningur skal fylgja með öllum tilnefningum.
7. grein
Faglegt mat á tilnefningum og framkvæmd kjörsins skal vera í höndum fræðslumála- og æskulýðsráðs í Bolungarvík. Aðal- og varamenn ráðsins kjósa íþróttamann Bolungarvíkur samkvæmt vinnureglum ráðsins. Bæjarstjórn Bolungarvíkur útnefnir íþróttamann Bolungarvíkur á grundvelli niðurstöðu fræðslumála- og æskulýðsráðs.
8. grein
Reglugerð var samþykkt á fundi fræðslumála- og æskulýðsráðs þann 7. nóvember 2024. Reglugerð þessi tekur gildi við samþykkt bæjarstjórnar í Bolungarvík og fellur þá eldri reglugerð úr gildi.
Reglugerðin var samþykkt þann 7.nóvember
2024 á 809. fundi bæjarstjórnar Bolungarvíkur.