Viðburðir

  • Skjaldarmerki_grein
  • 14. maí 2022, Félagsheimilið Bolungarvík

Sveitarstjórnarkosningar 2022

Almennar kosningar til sveitarstjórna fara fram laugardaginn 14. maí 2022.

Kjörfundur

Kjörfundur í Bolungarvík vegna sveitarstjórnarkosninganna 2022 verður haldinn laugardaginn 14. maí 2022 í Félagsheimili Bolungarvíkur við Aðalstræti 24.

Kjörfundur hefst kl. 10:00 og stendur til kl. 21:00.

Kjósandi skal gera kjörstjórn grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa persónuskilríkjum með nafni, kennitölu og mynd, svo sem vegabréfi, ökuskírteini eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar.

Kjósandi skal vera einn í kjörklefanum nema hann óski eftir aðstoð. Frambjóðandi, maki hans, börn, systkini og foreldrar mega ekki veita aðstoð við atkvæðagreiðslu. Kjörstjórn getur veitt kjósanda með ósjálfbjarga barn undanþágu frá þessu skilyrði enda liggur fyrir að annars gæti kjósandi ekki greitt atkvæði.

Kjörstjórn beinir þeim tilmælum til kjósenda að taka hvorki tölvur, síma, myndavélar eða annan upptökubúnað inn á kjörfund og það sama gildir um veski og handtöskur. Í boði verða viðeigandi geymslur fyrir kjósendur að varðveita þessa hluti á meðan kosið er.

Kosningarétt hefur hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á skráð lögheimili í sveitarfélaginu. Um kosningarétt að öðru leyti er vísað til 4. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og bent á að enginn getur neytt kosningarréttar nema nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram.

Aðsetur kjörstjórnar

Kjörstjórn Bolungarvíkur verður með aðsetur í Félagsheimili Bolungarvíkur á meðan kjörfundur stendur yfir og talning atkvæða. Á öðrum tíma er aðsetur kjörstjórnar í Ráðhúsi Bolungarvíkur við Aðalstræti 12.

Talning atkvæða

Talning atkvæða fer fram í Félagsheimili Bolungarvíkur eftir kl. 22:00 þann 14. maí 2022. Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra fyrir þann tíma fyrir luktum dyrum. Umboðsmenn listaframboða eiga rétt á að vera viðstaddir flokkun og undirbúning talningar.

Talning atkvæða fer fram fyrir opnum dyrum svo að almenningi gefst kostur á að vera viðstaddur eftir því sem húsrúm leyfir. Umboðsmenn listaframboða eiga rétt á að vera viðstaddir talningu atkvæða og fylgjast með framkvæmd hennar og uppgjöri.

Birt efni:

Lög, reglugerðir og reglur

Reglugerðir

Reglur og auglýsingar

Fyrimæli landskjörstjórnar

Sérprentun laga er varða kosningar