Fréttir
  • Útsýnispallur á Bolafjalli

160 milljónir í útsýnispall á Bolafjalli

Úthlutunin í pallinn var hæst úthlutuna í ár en samtals úthlutað sjóðurinn 501,5 milljónum króna til uppbygginar ferðamannastaða.

Styrkurinn til Bolafjalls felst í gerð útsýnispalls á toppi Bolafjalls við fjarðarminni Ísafjarðardjúps, ásamt frágangi á landi í nánasta umhverfi hans. Útsýnispallurinn mun hanga utan í þverhníptum stórstuðluðum klettum með stórbrotið útsýni yfir Ísafjarðardjúp, inn jökulfirði og út yfir sjóndeildarhring í átt til Grænlands.

Bygging útsýnispallsins byggir á hönnun tillögu Sei Arkitekta, Landmótunar og Argosar sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um hönnunina en verkfræðiráðgjöf veitti S. Saga ehf. og burðarþol var unnið af Eflu verkfræðistofu. 

Mjög spennandi innviðauppbygging, sem stuðlar að bættu öryggi ferðamanna og skapar nýtt aðdráttarafl á veiku svæði, segir í umsögn sjóðsins.

Styrkir hærri en 10 milljónir voru:

160 Bolafjall
80 Stuðlagil
32 Hrafntinnusker
24 Fuglastígur
23 Stuðlafoss
16 Aldeyjarfoss
14 Hveradalir
14 Hafrahvammsgljúfur
13 Flotbryggja í Drangey
11 Nýidalur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu grein fyrir úthlutuninni.

Bolafjall

Um útsýnispallinn

Nýr útsýnisstaður við Bolafjall myndar nýtt þrep í Stigahlíðina og verður hluti af klettabeltinu. Helsta einkenni útsýnispallsins er að hann hallar um 3° niður á við eftir langhliðinni. Sú hlið er 58,5m og skagar um 4 metra fram fyrir fjallsbrúnina sem hann fylgir. 

Við upptök sín er pallurinn í landhæð en eftir hægan aðdraganda, þegar á enda pallsins er komið, er augnhæð komin niður fyrir landhæðina, og á einstöku augnabliki, þegar komið er handan fjallsbrúnarinnar, sér augað ekkert annað en fjallshlíðar Bolafjalls, hafið, Djúpið og firðina í kring. Með nálægðinni og snertinguna við fjallið verður til áður ómöguleg upplifun, sem skapar nánd og tengingu fyrir gesti við fjallið, þar sem fjallshlíðin er skyndilega áþreifanleg. 

Breidd pallsins er breytileg og tekur form sitt eftir formi fjallsins en pallurinn er 1,5m þar sem hann er þrengstur. Flatarmál pallsins er um 160 m² og er uppbyggingin þannig að stálgrind er fest í bjargið, með 45° skástífum sem festar verða í bita og boltaðar neðar í bjargið.

Gólf pallsins er úr trefjaplastsristum, byggt upp úr einingum sem eru 3,6m x 1,2m að stærð, efnið er með innbyggðri hálkuvörn og auðvelt er að fella það að fjallsbrúninni.

Tvöfaldar stálstoðir, 1,30 m að hæð, með u.þ.b. tveggja metra millibili, halda uppi handlista unnum úr rekavið. Handlisti er í 1,0m hæð en handriðið sjálft er úr ofnu stálneti «steel wire mesh» og strekktir verða stálvírar, efst og neðst í gegnum stoðirnar sem halda uppi netinu sem myndar handriðið. Hæð á á handriði er 1,25m. 

Megin áherslan í vali á byggingarefnum er að hámarka endingu, undirstrika léttleika og lágmarka áhrif snjóálags og skapa sem gegnsæjasta áferð þannig að pallurinn falli sem best inni í umhverfið. 

Í nálægð við norðurenda pallsins er komið fyrir tröppum, sem tengjast inn á hringleiðina, sem liggur meðfram pallinum. Tröppurnar falla inn í náttúrulegt skarð og eru felldar að landslaginu líkt og allur pallurinn. Hæðarmunurinn sem tröppurnar brúa er um 1,8 metrar og eru þær fullkominn staður til þess að setjast niður og njóta útsýnisins í austur, eftir að hafa kannað allan pallinn eða til að tilla sér niður fyrir þá sem velja það að fara ekki fram af fjallsbrúninni. 

Alla hluta pallsins verður hægt að forsmíða og flytja á staðinn í einingum. 

Sjá nánar hjá Landmótun.

Samstarfsaðilar í verkefninu

Bolungarvíkurkaupstaður (www.bolungarvik.is) hefur haft forgöngu um verkefnið í samstarfi við Sei ehf. (www.seistudio.is), Landmótun sf. (www.landmotun.is), Argos ehf. arkitektastofu Grétars og Stefáns, S. Sögu ehf. verkfræðistofu, Eflu hf. verkfræðistofu (www.efla.is), Verkís hf. (www.verkis.is), Félag íslenskra landslagsarkitekta (www.fila.is) og FAB LAB í Vestmannaeyjum (facebook.com/FabLabVestmannaeyjar) með tilstyrk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða (www.ferdamalastofa.is).