Aðvörun vegna mikillar úrkomu
Sérstaklega mun áhrifa gæta á sunnanverðum Vestfjörðum, Snæfellsnesi, Borgarfirði og á svæðum umhverfis Mýrdalsjökul og Vatnajökul.
Reikna má með miklum vexti í ám á þessum svæðum og vill Slysavarnafélagið Landsbjörg sérstaklega vara innlenda sem og erlenda ferðamenn við ám á leið í Þórsmörk og Bása svo og ám á Syðri- og Nyrðri Fjallabaksleiðum.
Má reikna með að margar ár á þessum svæðum verði ófærar og hreinlega hættulegt að reyna að þvera þær.
Víða til fjalla verður einnig hætta á aurflóðum svo og má benda ökumönnum hópferðabifreiða og þyngri bíla á að vegkantar gætu verið veikari vegna mikillar úrkomu.
Á þessum árstíma er alvanalegt að haustlægðir skelli á landinu en það ber að taka sérstaklega fram að hér erum við að sjá mun meiri úrkomu en í hefðbundnu ári og því ber að hafa sérstaklega varann á.
Eru ferðaþjónustuaðilar sérstaklega beðnir um að upplýsa sína viðskiptavini um þessar aðstæður.