Fréttir
  • Bolungarvík, mynd Benedikt Sigurðsson

Bæjarstjóri óskast

Bolungarvíkurkaupstaður óskar eftir að ráða öflugan einstakling til að taka við starfi bæjarstjóra Bolungarvíkur.

Leitað er að hæfileikaríkum, jákvæðum og kraftmiklum einstaklingi sem er reiðubúinn til að leggja sig allan fram í krefjandi starf. Viðkomandi þarf að hafa brennandi áhuga á að ná árangri í starfi og eiga gott með að starfa með fólki. 

Viðkomandi þarf líka að eiga auðvelt með samskipti  fyrir hönd bæjarfélagsins og að vera talsmaður þess, hvort sem er í samskiptum við opinbera stjórnsýslu, viðskiptavini, almenning eða fjölmiðla.

Umsóknarfrestur er 20. maí.

Starfssvið

 

  • Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og sér um framkvæmd ákvarðana sem teknar eru af bæjarstjórn og bæjarráði.
  • Bæjarstjóri undirbýr og situr fundi bæjarstjórnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.
  • Bæjarstjóri er æðsti yfirmaður annarra starfsmanna sveitarfélagsins, en nánari útlistun á hlutverki bæjarstjóra er að finna í 48. gr. samþykkta um stjórn Bolungarvíkurkaupstaðar á vef sveitarfélagsins, bolungarvik.is.

 

Menntunar- og hæfniskröfur

 

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi er skilyrði.
  • Farsæl reynsla af stjórnun og rekstri er skilyrði.
  • Þekking og reynsla af stefnumótun er kostur.
  • Þekking eða reynsla af opinberri stjórnsýslu er kostur.
  • Leiðtogahæfni og hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Góðir skipulagshæfileikar og metnaður til árangurs.

 

Bolungarvík er rúmlega 900 manna bæjarfélag.  Þar er góður grunnskóli, leikskóli og tónlistarskóli , íþróttahús og sundlaug.  

Frábær aðstaða er fyrir menningarviðburði, nýtt hjúkrunarheimili, ný félagsmiðstöð fyrir unglinga, íbúðir fyrir aldraða og stutt í alla þjónustu. 

Á næstu árum standa svo fyrir dyrum ýmsar framkvæmdir í bænum.Talsverður vöxtur hefur verið í atvinnulífinu  á undanförnum árum. 

Miklir möguleikar til atvinnuuppbyggingar í Bolungarvík eru í sjónmáli og stöðugt skapast ný tækifæri til sóknar.

Upplýsingar og umsókn - www.capacent.is/s/2774