Fréttir
  • BorunBol_minni-1-1-696x338

Bolungarvík: fékk 34,4 m.kr. styrk frá Fiskeldissjóði

Stjórn Fiskeldissjóðs hefur afgreitt umsóknir um styrk fyrir þetta ár. Bolungarvíkurkaupstaður sótti um 50 m.kr. styrk vegna tveggja verkefna, 25 m.kr. til hvors þeirra. Annars vegar var sótt um styrk til þess að bæta aðgengi almennings að hafnasvæðinu og hins vegar til þess að bora neysluvatnsholur fyrir nýja vatnsveitu.

Niðurstaða Fiskeldissjóðs var að veita 19 m.kr. styrk til þess að bora neysluvatnsholur fyrir nýja vatnsveitu í Hlíðardal sem verið er að vinna við og kostar alls um 270 m.kr. Mun nýja vatnsveitan sækja vatn í borholur og leysa af hólmi núverandi vatnsveitu sem byggir á hreinsuðu og geisluðu yfirborðsvatni. Þegar hafa verið boraðar nokkrar holur og fæst úr þeim gott vatn en Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að bora þurfi fleirir holur til að hafa nóg vatn. Mikil uppbygging er í Bolungarvík, nýtt laxasláturhús er tekið til starfa og í sumar hefjast framkvæmdir við nýtt íbúðahúsahverfi.

Einnig var veittur 15,5 m.kr. styrkur til þess að bæta aðkomu, aðstöðu og aðgengi almennings að hafnarsvæðinu.