Fréttir
  • AllirLesa.is

Bolungarvík í 4. sæti

Allir lesa, landsleikur í lestri, hefur farið gífurlega vel af stað og eru þegar um 1.400 virkir lesendur skráðir á vefinn. 

Keppendur hafa lesið í samtals 4850 klukkustundir, eða 202 daga á þeim fimm dögum sem liðnir eru af keppninni. Konur eru þar í miklum meirihluta allirlesa.is, alls 79.1%, karlar aðeins 19.8% og 1.1% notenda velja annað kyn eða óuppgefið. 

Í ár var sú skemmtilega breyting gerð á leiknum að hægt er að keppa sem einstaklingur og hafa nokkrir lestrarhestar mikla yfirburði. Í hópnum yfir 10 efstu er aðeins að finna einn karlmann og því greinilegt að karlarnir þurfa að bretta upp ermar og leggjast yfir bækurnar eigi þeir að eiga roð í lesandi konur landsins.

Einnig má sjá skemmtilega keppni byrja að myndast milli sveitarfélaga landsins en Strandabyggð ber höfuð og herðar yfir aðra staði, og hefur sem stendur þó nokkuð forskot á þá sem á eftir koma. Dalabyggð, Blönduósbær, Bolungarvík og Skútustaðahreppur raða sér í næstu sæti fyrir neðan en eins og við höfum séð í fyrri keppnum breytist staðan hratt og á síðasta sveitarfélag á lista enn góða möguleika á sigri ef bæjarbúar teygja sig í góða bók. 

Hægt er að skrá sig til leiks fram á síðasta dag landsleiksins, sem er þann 19. febrúar. Skráning fer fram á allirlesa.is auk þess sem hægt er að fylgjast með fréttum og skemmtilegu efni á facebook-síðu leiksins.  

Aðstandendur verkefnisins allir lesa eru Reykjavík sem bókmenntaborg Unesco og miðstöð íslenskra bókmennta með stuðningi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og heimilum og skóla.