Fréttir
  • Bolungarvík

Bolungarvíkurkaupstað afhent málverk af Einari Guðfinnssyni

Einar GuðfinnssonMyndina málaði hinn virti listmálari Karl Jóhann.

Afhendingin fer fram á sama tíma og kaffisala Kvennadeildar Landsbjargar í Bolungarvík stendur yfir, en kaffisalan hefst kl. 15.00 í Félagsheimilinu í Bolungarvík.

Málverkinu verður komið fyrir á skrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar í Ráðhúsinu í Bolungarvík.

Einar Guðfinnsson stóð fyrir umfangsmiklum atvinnurekstri í Bolungarvík um áratugaskeið. 

Hann fæddist í Litla Bæ í Skötufirði árið 1898, en fluttist til Bolungarvíkur árið 1924 ásamt Elísabetu Hjaltadóttur eiginkonu sinni. 

Ég erfði ekki fé, ég erfði dyggðir,

sagði Einar og voru það sannarlega orð að sönnu.

Hann hófst úr sárri fátækt en varð sakir atorku sinnar einn nafntogaðasti athafnamaður landsins á sinni tíð og naut mikillar virðingar samferðamanna sinna. Er óhætt að segja að hann hafi mótað byggðarlagið sem hann helgaði krafta sína. 

Auk hins umsvifamikla atvinnurekstrar var hann í forystu sveitarstjórnarinnar um langt árabil sem hreppsnefndarmaður og oddviti sveitarfélagsins. Sem slíkur kom hann að mörgum þeim framfaramálum sem lögðu grunn að vexti Bolungarvíkur.

Útgerð og fiskvinnsla efldist mjög í Bolungarvík undir forystu Einar Guðfinnssonar og var fyrirtæki hans og fjölskyldu hans með þeim stærstu í sjávarútvegi á Íslandi á sinni tíð. Á vegum fyrirtækja hans var stunduð öflug og margháttuð útgerð, fiskvinnsla, rækjuvinnsla, síldar- og loðnuvinnsla, síldarsöltun og umsvifamikill verslunarrekstur og önnur þjónusta, svo nokkuð sé nefnt. 

Undir hans stjórn og sona hans sem með honum unnu að atvinnurekstrinum, var bryddað upp á margvíslegum nýjungum og sem ruddu nýjar brautir á sviði sjávarútvegsins. Má nefna að hörpudiskvinnsla og veiðar hér við land hófust í Bolungarvík.

Það einkenndi ætíð atvinnurekstur Einars Guðfinnssonar að fyrir honum vakti jafnan að samfélagið í Bolungarvík nyti sem best þeirrar uppbyggingar sem hann stóð fyrir. 

Í ævisögu hans, sem Ásgeir Jakobsson skráði og út kom árið 1978 sagði hann:

Bolvíkingar hafa valið mig sem sinn fyrsta heiðursborgara og stjórnvöld hafa veitt mér stórriddarakross með stjörnu og þennan virðingarvott samferðarmanna met ég mikils, en mesta gleði veitir mér að ganga um þennan bæ nú og bera hann saman við það þorp sem var. Þá finnst mér ég ekki hafa lifað til einskis.

Einar Guðfinnsson og Elísabet Hjaltadóttir eignuðust átta börn. Hann  lést árið 1985.