Fréttir
  • Rollur

Dýraeigendur í þéttbýli og dreifbýli

Sú skylda er lögð á herðar dýraheilsustarfsfólks s.s. dýralækna og dýraeftirlitsfólki að tilkynna til Matvælastofnunar ef óörmerkt eða óskráð dýr koma til meðhöndlunar og ekki er vilji til að merkja eða skrá viðkomandi dýr, segir Elísabet Hrönn Fjóludóttir, héraðsdýralæknir Vesturumdæmis.

Sauðfé

Matvælastofnun hefur m.a. það hlutverk að fylgjast með útbreiðslu sjúkdóma í búfé. Í þeim tilgangi eru reglulega tekin sýni úr lifandi dýrum, sláturdýrum og dýrum sem drepast heima á bæ. 

Eftirliti með riðuveiki hefur verið þannig háttað að tekin hafa verið heilasýni í sláturhúsum úr fullorðnu sauðfé frá tilteknum fjölda búa á ári. Nú hefur verkferlum verið breytt samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 41/2012 um setningu reglna um forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar. Taldar eru meiri líkur á að finna riðu í sýnum úr sauðfé sem drepist hefur eða verið lógað heima heldur en í sýnum í sláturhúsum. Matvælastofnun leggur því aukna áherslu á söfnun slíkra sýna í samvinnu við bændur. 

Drepist kind heima á bæ eða er lógað vegna vanþrifa, sjúkdóms eða slyss, óskar Matvælastofnun eftir því að bændur hafi samband við héraðsdýralækni sinn sem mun í framhaldinu ákveða hvort sýni skuli tekið og þá sjá til þess að það sé gert eða leiðbeina með að hausar séu sendir beint á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Sýnatakan og rannsókn sýnisins er bændum að kostnaðarlausu. 

Nautgripir

Einkenni kúariðu minna að mörgu leyti á einkenni riðuveiki hjá sauðfé. 

Á alþjóðavettvangi er Ísland viðurkennt sem kúariðulaust land. Þar vegur þyngst að kúariða hefur aldrei greinst hér. Þessi alþjóðlega viðurkenning er afar mikilvæg fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu. Svo Ísland geti viðhaldið þessari stöðu sinni þarf ákveðinn fjöldi heilasýna úr nautgripum að berast árlega til riðuskimunar.

Matvælastofnun óskar eftir samstarfi við nautgripabændur um að leggja til heilasýni úr fullorðnum gripum sem drepast eða er slátrað heima. Bestu vísbendingar um heilsufar gripa hvað kúariðu varðar gefa sýni úr grunsamlegum tilfellum þ.e.a.s. sýni úr fullorðnum gripum sem drepast heima eða er lógað vegna sjúkdóma eða slysa. 

Bændur sem vilja láta frá sér sýni hafi samband við héraðsdýralækni sem mun í framhaldinu ákveða hvort sýni skuli tekið og þá sjá til þess að það sé gert. Sýnatakan og rannsókn sýnisins er bændum að kostnaðarlausu.