Fréttir
  • Bolungarvík

Endurnýjun þjónustuhúss tjaldsvæðis

Markmiðið er að tengja sundlaugina við tjaldsvæðið á opin og skemmtilegan hátt og auka þannig þjónustu við tjaldsvæðisgesti. Gert er ráð fyrir að hið nýja þjónustuhús verði að stærstum hluta borðsalur fyrir gesti tjaldsvæðis þar sem hægt er að borða nesta ásamt því að útbúa kvöldmat, þerra föt o.þ.h.

Samhliða uppbyggingu á tjaldsvæði er gert ráð fyrir að sett verði fjármagn í sérstaka markaðsherferð fyrir tjaldsvæðið með það að markmiði að kynna hina nýju aðstöðu ásamt annari þjónustu fyrir gesti í Bolungarvík. 

Fyrir hefur tjaldsvæðið í Bolungarvík marga kosti og nokkur uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár. Það er staðsett á fallegum og skjólstæðum stað við Hólsánna í miðjum bænum og er stutt í alla þjónustu og afþreyingu. Þá er, eins og flestir vita, glæsileg sundlaug í Bolungarvík og að hafa tjaldsvæðið þar við hliðina hefur verið góður kostur fyrir gesti, en með auknu og betra aðgengi mun þjónustan aukast verulega.

Allar spár ganga út frá mikilli aukningu ferðamanna á Vestfirði næsta sumar og eru þessar framkvæmdir liður í því að bæta þjónustu við ferðamenn og auka aðgengi þeirra að Bolungarvík og auka þannig komur þeirra á þessu og næstu árum.