Endurskoðun á ofanflóðahættumati fyrir Bolungarvík eftir byggingu varnargarða og keilna undir Traðarhyrnu
Föstudaginn 4. október klukkan 14:00 verður haldinn opin fundur í Ráðhúsi Bolungarvíkur með fulltrúum Veðurstofu Íslands um endurskoðað áhættumat.
Ofanflóðahættumat fyrir Bolungarvík hefur verið endurskoðað eftir byggingu varnargarða og keilna undir Traðarhyrnu, sem draga mikið úr snjóflóðahættu í byggðinni.
Forsendur um tíðni snjóflóða úr Traðarhyrnu hafa ekki breyst frá fyrra hættumati Veðurstofu Íslands árið 2003 né forsendur um hraða snjóflóða sem lagðar voru til grundvallar við hönnun snjóflóðavarnarvirkjanna. Líkanreikningar með nýju þrívíðu snjóflóðalíkani benda til þess að varnargarðarnir og keilurnar virki eins og til er ætlast og stöðvi að mestu hönnunarflóð úr giljunum ofan innanverðrar byggðarinnar og dragi úr skriðlengd hönnunarflóðs ofan utanverðrar byggðarinnar undir Ufsum.
Hægt er að skoða hættumatið á vef Veðurstofunnar .
Tómas Jóhannesson, sérfræðingur í ofanflóðahættumati og Magni Hreinn Jónsson, fagstjóri ofanflóða frá Veðurstofu Íslands munu kynna hættumatið og svara spurningum.