Fréttir
  • Íbúafundur um laxeldi, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra

Endurskoðun áhættumats boðuð

Fundurinn var afar vel sóttur en milli 250-300 manns sóttu hann. 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, setti fundinn og sagði að sem ábyrgðarmaður málaflokksins vildi hann gjarnan fá fram sjónarmið íbúa við Djúpið varðandi laxeldi. Jafnframt boðaði hann annan sambærilegan fund á Austfjörðum. 

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, flutti framsögu um stöðu laxeldis og aðkomu stofnunarinnar að eldismálum sem rannsóknarstofnunar. Því næst flutti Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis- og fiskiræktarsviðs Hafrannsóknarstofnunar, fróðlega framsögu um fræðilegan grunn áhættumats. 

Enginn framsaga var flutt á fundinum um byggðamál en í umræðum að framsögum loknum létu fundarmenn óspart heyra í sér um það vanreifaða málefni í þessum málaflokki. Margir áttu erfitt með að skilja hvers vegna hagsmunir eigenda laxveiðiáa og laxveiðimanna væru blygðunarlaust teknir framyfir hagsmuni íbúa. Sérstaklega tóku íbúar fram að hagsmunir eigenda og áhugaveiðimanna væru óverulegir í Djúpinu samanborið við hagsmuni íbúa við Djúp. 

Margir íbúa lýstu einnig áhyggjum sínum af því að verið væri að færa Hafrannsóknarstofnun vald sem hún ætti ekki að hafa í lýðræðisríki en bæði ráðherra og forstjóri fullyrtu að svo væri ekki. Þetta væri sérlega ámælisvert þar sem vísindaleg vinnubrögð stofnunarinnar virtust hafin yfir gagnrýni og vísindalegar niðurstöður stafsmanna hennar væru hvorki ritrýndar né gagnrýni á þær svarað af stofnuninni. Ráðherra og forstjóri litu þó svo á að fylgja ætti því áhættumati sem stofnunin hefur gert og endurskoðun þess. 

Einnig kom fram á fundinum að skipa ætti sérstakt eldisráð en óljóst var hvaða aðilar ættu að sitja í því og óttuðust fundarmenn að hagsmunir þeirra yrðu þar fyrir borð bornir líkt og hingað til. 

Í þessum umræðum lýsti Sigurður Guðjónsson því yfir að nýtt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar yrði kynnt í sumar, sem tæki til greina mótvægisaðgerðir sem eldisfyrirtæki gætu framkvæmt og Ragnar Jóhannsson hafði fjallað um að einhverju leyti í framsögu sinni.

Sjávarútvegsráðherra lauk fundinum og taldi hann hafa verið gagnlegan og þakkaði fundarstjóra, Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra, fyrir skelegga fundarstjórn. 

Það var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem boðaði til fundarins.