• Sundlaug Bolungarvíkur

23. janúar 2017

Fjörtíu ár frá opnun Sundlaugar

Fjörtíu ár eru liðin frá opnun Sundlaugar Bolungarvíkur.

Haldið verður upp á fertugsafmælið laugardaginn 28. janúar og eru allir velkomir í afmælisveisluna. 

Sundlaugin, Musteri vatns og vellíðunar eins og starfsfólkið kallar hana, opnar kl. 10 á laugardaginn og í boði verður samflot frá kl. 10-11. Um leið sjá fulltrúar Heilsubæjar Bolungarvíkur um heilsufarsmælingu í sundlauginni og mæla blóðþrysting, blóðsykur og fitu frá kl. 10-12. 

Afmælisdagskráin sjálf hefst svo kl. 13 með sundmóti UMFB. Þá munu etja kappi ýmsar sundhetjur sunddeildar UMFB.

Dagskráin færist síðan inn í íþróttasal kl. 14:30 og þar sem flutt verða ávörp og leikin tónlist.   

Fræðslumála- og æskulýðsráð Bolungarvíkur mun síðan útnefna íþróttamann ársins 2016 í Bolungarvík og veita framúrskarandi íþróttafólki viðurkenningar.

Að því loknu verður gestum boðið til veisluborðs afmælisbarnsins. 

Alls hefur afmælisbarnið þjónað um milljón sundlaugargestum á fjörtíu árum. 

Á línuritum sem fylgja hér með má annars vegar sjá mætingu á íbúa sem er hlutfall milli fjölda baðgesta Sundlaugar Bolungarvíkur og fjölda íbúa Bolungarvíkur. Ef allir íbúar mættu einu sinni á ári í sundlaugina væri hlutfallið 1, ef allir mættu tvisvar væri hlutfallið tveir o.s.frv. 

Ibuar_maeting

Árið 1977 er hlutfallið 26 sem jafnast á við að hver íbúi hafi farið 26 sinnum í sund á árinu. Á línuritinu má sjá að þetta hlutfall hækkar mjög frá 2007 sem þýðir fyrst og fremst að fleiri baðgestir hafi komið en árin á undan þótt íbúum hafi að vísu líka fækkað. Árið 2006 eru íbúar 905 og hlutfallið 15, árið 2016 eru íbúar 904 en hlutfallið 47 en þá voru baðgestir 42.911 sem jafnast á við að hver íbúi hafi farið 47 sinnum í sund á árinu.  

Hins vegar er línurit sem sýnir fjölda íbúa Bolungarvíkur og fjölda baðgesta. 

Ibuar_gestir

Sundlaug Bolungarvíkur var vígð 30. janúar árið 1977. Árið 2007 var lokið við áfanga við endurgerð sundlaugargarðsins sem að fullu var lokið árið 2013 þegar vaðlaugin var tekin í notkun og fjölgaði sundlaugargestum við það.

Þá má geta þess að 25. september 2010 voru Bolungarvíkurgöng tekin í notkun sem einnig hafði veruleg áhrif á aðsókn sundlaugargesta.